Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Kornakur á Rangárvöllum 2024.
Kornakur á Rangárvöllum 2024.
Mynd / Aðsend
Fréttir 18. september 2024

Nýtt rannsóknarverkefni í byggkynbótum

Höfundur: Egill Gautason, lektor við LbhÍ, og Hrannar Smári Hilmarsson, tilraunastjóri í jarðrækt við LbhÍ.

Við Landbúnaðarháskóla Íslands er nú að hefjast nýtt rannsóknarverkefni í byggkynbótum. Verkefnið nefnist Erfðaleg aðlögun byggs að krefjandi umhverfisaðstæðum.

Helsta markmið verkefnisins er að efla kynbætur á byggi og afla nýrrar þekkingar á aðlögun byggs að norðlægum aðstæðum. Samvinna LbhÍ við sænska fyrirtækið Lantmännen er lykilþáttur í verkefninu. Um áratugaskeið hefur verið samstarf um byggkynbætur og framleiðslu á sáðvöru af íslenskum yrkjum. Íslenskur efniviður hefur verið notaður í norður-sænska kynbótaverkefninu og sænskum efnivið hefur verið, og er enn, víxlað við íslenskan. Þá hafa sænskar kynbótalínur verið prófaðar á Íslandi og íslenskar línur prófaðar í Svíþjóð. Lengst af voru það kynbótamennirnir Lars Gradin og Jónatan Hermannsson sem sáu um kynbótastarfið. Eftir þessa tvo menn liggur merkilegt starf í byggkynbótum Norðurlanda.

Byggrækt á Norðurslóðum

Byggrækt á Norðurslóðum innifelur ýmsar áskoranir. Á Íslandi er það einkum lágt hitastig á vaxtartímabilinu. Því er stundum haldið fram að vaxtartímabilið á Íslandi sé stutt, en það er ekki endilega rétt. Á sumum svæðum á Íslandi, einkum sunnan- lands, er vaxtartímabilið lengra en er til dæmis í Norður-Svíþjóð. Helsta áskorunin á Íslandi er lágt hitastig á vaxtartímabilinu. Þegar hitastig er lágt og lítil sól verður þroskinn ónógur og frestast fram eftir hausti. Þá geta tekið við válynd haustveður auk þess sem álftir og gæsir verða aðsópsmiklar í ökrum bænda, svo mikið að sums staðar hafa bændur gefist upp vegna ágangs fugla. Af þessum sökum hafa kynbætur á íslensku korni snúið að auknum flýti þar sem lögð hefur verið áhersla á skrið. Úr smiðju Jónatans hafa eins og þekkt er, komið yrki sem eru gædd þessum eiginleikum, einkum hafa Kría og Smyrill átt vinsældum að fagna meðal bænda, þau eru fljótþroska og skila ágætri uppskeru. Í Norður-Svíþjóð er vaxtartímabilið að jafnaði styttra en hærra hitastig og fleiri sólskinsstundir gerir að verkum að jafnan er hægt að skera kornið fyrr en á Íslandi. Samstarf Lantmännen og LbhÍ hefur reynst báðum kynbótaverkefnum vel við aðlögun að krefjandi aðstæðum Íslands og Norður-Svíþjóðar.

Samspil erfða og umhverfis verður metið

Það verkefni sem nú er að hefjast mun byggja á góðum grunni hins langa samstarfs. Íslensk og sænsk gögn verða sameinuð og notuð til að meta aðlögun að íslenskum aðstæðum. Í fyrsta hluta verkefnisins verður samspil erfða og umhverfis milli Svíþjóðar og Íslands metið. Til þess verða svokölluð fjölbreytulíkön notuð til að meta erfðafylgni milli uppskeru í Svíþjóð og á Íslandi. Þessi aðferðafræði er vel þekkt í búfjárkynbótum en hefur lítið verið notuð í plöntukynbótum. Samspil erfða og umhverfis er í stuttu máli þegar umhverfið hefur ekki sömu áhrif á mismunandi arfgerðir í ólíkum umhverfum. Til dæmis er hugsanlegt að íslenskt veðurfar hafi minni áhrif á uppskeru íslenskra yrkja heldur en á uppskeru sænskra yrkja, og öfugt í Svíþjóð.

Rannsókn á öryggi erfðamengjaspáa

Í rannsókninni verður mat á hvort hægt sé að auka öryggi erfðamengjaspáa fyrir íslenskt og sænskt bygg með tveimur aðferðum. Annars vegar með því að sameina íslensk og sænsk gögn með fjölbreytulíkönum. Hins vegar með því að nýta ættartölu til að bæta erfðamengjaspárnar. Niðurstöður þeirrar vinnu munu nýtast beint í nýja plöntukynbótaverkefnið sem fékk nafnið Vala og er fjármagnað af MAR sem hluti af eflingu kornræktar. Í búfjárrækt er algengt að svokallaðar erfðamengjaspár eru reiknaðar þannig að bæði er notast við skyldleika milli gripa samkvæmt ættartölu og erfðamengi. Nærtækt dæmi er kynbótamat í nautgriparækt þar sem notast er við þá aðferð. Rannsóknir hafa almennt sýnt fram á aukningu á öryggi með þessari aðferð í búfé. Í plöntukynbótum hefur ættartala vanalega verið skráð en ekki nýtt í kynbótamat. Því er töluvert nýmæli á heimsvísu fólgið í nýtingu ættartölunnar á þennan hátt. Seinni stig verkefnisins munu fela í sér þróun svokallaðra reaction-norm líkana sem innifela umhverfisbreytur. Með slíkum líkönum er til dæmis hægt að reikna kynbótamat fyrir stöðugleika gagnvart umhverfisáhrifum.

Verkþáttur lýtur að uppruna íslenska byggsins

Hluti verkefnisins snýst um að kanna uppruna íslensks byggs og greina skyldleika við aðra byggstofna og mun Gunnhildur Gísladóttir vinna að þeim rannsóknum í mastersnámi sínu. Arfgreiningar verða notaðar til að kanna hversu skyldur íslenski stofninn er við aðra byggstofna. Ýmsir forvitnilegir foreldrar eru í ættartölu íslenska byggsins. Til að mynda færeysk landkyn og dönsk maltyrki. Með erfðagreiningum verður erfðahlutdeild þessara foreldra metin og borin saman við niðurstöður ættartölunnar. Þá verður erfðaframför í íslensku byggi metin.

Verkefnið felur í sér vinnu nokkurra vísindamanna og kynbótamanna en stærsti hluti rannsóknarinnar verður í höndum nýs doktorsnema við LbhÍ, Önnu Guðrúnar Þórðardóttur. Við gerum ráð fyrir að greint verði frá niðurstöðum verkefnisins og framvindu í Bændablaðinu. Þetta verkefni, nr. 2410358-051, er unnið með styrk frá Rannsóknasjóði.

Skylt efni: byggkynbætur

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...

Pólar hestar fyrirtæki ársins
Fréttir 19. nóvember 2024

Pólar hestar fyrirtæki ársins

Markaðsstofa Norðurlands hefur valið hestaleiguna Pólar hestar sem fyrirtæki árs...

Byggja stóra íþróttamiðstöð
Fréttir 18. nóvember 2024

Byggja stóra íþróttamiðstöð

Í Árnesi er verið að byggja fyrstu íþróttamiðstöðina í Skeiða- og Gnúpverjahrepp...

Afstaða framboða til landbúnaðarmála
Fréttir 15. nóvember 2024

Afstaða framboða til landbúnaðarmála

Stjórnmálaflokkarnir sem eru í framboði til alþingiskosninga, sem fram fara 30. ...

Nýjar höfuðstöðvar
Fréttir 15. nóvember 2024

Nýjar höfuðstöðvar

Samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðher...

Fiðrildategund nefnd eftir Björk
Fréttir 15. nóvember 2024

Fiðrildategund nefnd eftir Björk

Skordýrafræðingurinn Harry Pavulaan hjá Nebraska-háskóla hefur nefnt nýja fiðril...