Of margir vaða út í umferðina með ekkert útsýni
Aðalstarf mitt er atvinnubílstjóri og því er umferð og umferðarmenning mér mjög hugleikin. Þegar sólin fer að hækka á lofti er hún óþægileg í augnhæð og hefur blindað margan ökumanninn. Eina ráðið við þessu er að passa vel upp á að vera með rúður hreinar.
Ótrúlega oft sér maður bílstjóra í umferðinni gera þau mistök þegar þeir keyra á móti sól með óhreina framrúðu að reyna að setja rúðupissið á og freista þess að þrífa óhreinindin. Þetta verður til þess að drullan og vökvinn blandast saman og útsýnið er ekki neitt í nokkra metra, en þessir metrar eru oft ástæða árekstra. Nær væri að passa betur upp á að vera með hreinar rúður áður en lagt er af stað út í umferðina (sjálfur bóna ég oft alla spegla og rúður á morgnana í byrjun vinnudags).
Afturljósalausir bílar eru sjálfum sér hættulegastir
Mjög margir bílar koma þannig til landsins að eingöngu eru „ljóstírur“ að framan og engin afturljós nema maður kveiki ökuljósin handvirkt. Hins vegar er hægt að breyta þessu í mjög mörgum bílum í tölvunni þannig að ljós kvikna allan hringinn eins og lög gera ráð fyrir (einföld aðgerð sem bílasölumenn ættu að bjóða kaupendum bíla).
Í spjalli við þrjá atvinnubílstjóra (landflutningabílstjóra, leigubílstjóra og sendibílstjóra) vorum við að spjalla um hvað það væri misóþægilegt að keyra á eftir ljóslausum bíl. Niðurstaðan var sú að við vorum allir sammála um að hvítir og gráir bílar væru hættulegri okkur/þeim sem á eftir ekur en bílar í áberandi litum. Við virtumst allir vera að fara óþægilega nálægt þessum hvítu og gráu bílum ef þeir voru ljóslausir (eitthvað sem mætti rannsaka betur), en að keyra í umferðinni á eftir afturljósum er almennt bilið alltaf það sama á móti óreglulegu bili ef engin ljós eru til að elta. Hins vegar vorum við allir fjórir sammála því að alltaf fleiri og fleiri eru að átta sig á að þeir eru ljóslausir að aftan þegar við erum fyrir aftan þá og blikkum á þá háuljósunum til að láta vita af ljósleysinu.
Árið í umferðinni byrjar ekki vel, það þarf að bæta
Þegar þetta er skrifað hafa tveir látist í umferðaróhappi það litla sem af árinu er liðið eftir hörmulegt slys í Ísafjarðardjúpi. Að horfa til þess sem nefnt er núllsýn á banaslysum í umferðinni er alltaf í umræðunni, en til þess að það náist þarf að hlusta á alla þá sem telja sig hafa eitthvað fram að færa. Oft hefur spjótum verið beint að Vegagerðinni sem er ósköp eðlilegt, en óskaplega finnst mér döpur svör talsmanns Vegagerðarinnar sem er nánast alltaf á sama veg. Rétt eins og gömul rispuð vínylplata svarar hann: „Vantar pening, vantar pening.“
Fyrir mér mætti stokka upp stjórn Vegagerðarinnar og setja þangað starfandi atvinnubílstjóra, rekstrarstjóra flutningafyrirtækja og mann eins og Ólaf Guðmundsson umferðarsérfræðing (hefði viljað Ólaf sem fyrst í stjórn Vegagerðarinnar þrátt fyrir að hann sé Sjálfstæðismaður, Framsóknarmaðurinn Sigurður Ingi ætti að ganga í það strax, en sennilega hefur einhver Framsóknarmaður gert verri „skandal“ áður en að ráða Sjálfstæðismann í stjórn Vegagerðarinnar.
Það er gaman að leika sér á ís, en þar leynast hættur
Undanfarinn mánuð hefur mátt heyra í fréttum að í allavega þrem tilfellum hafði manneskja farið niður um ís. Í einu af þessum tilfellum var um misskilning að ræða (síðastliðinn sunnudag), en sá sem haldið var að fallið hefði niður um ís reyndist kafari við sportköfun. Þarna hefði mátt koma í veg fyrir mikinn viðbúnað ef kafarinn hefði látið vita af sér fyrirfram eða sett upp flagg sem lögregla og björgunarsveitir ættu að þekkja og þýðir að verið sé að kafa.
Í hin tvö skiptin brast ís undan fólki, annað skiptið var það maður á mótorhjóli sem var að keyra á ísnum og ísinn ekki nógu traustur (alltaf að skoða áður en ekið er út á ísinn). Í öðru tilvikinu höfðu verið gerð stór göt á ís til að kafa undir ísinn og ekki merkt sérstaklega til að vara við vökinni þeim sem á eftir kæmu, en manneskja á skautum lenti í vökinni.
Þegar við yfirgefum ís þar sem við höfum verið að leik, skulum við hafa það í huga að það gætu komið einhverjir aðrir að leika á ísnum og hugsanlega leika sér á annan hátt. Höldum áfram að leika okkur, en förum að öllu með gát.