Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Ógn við eitt besta heilbrigðisástand í heimi
Mynd / /smh
Fréttir 6. desember 2019

Ógn við eitt besta heilbrigðisástand í heimi

Höfundur: smh
Félög eggjabænda og kjúklingabænda, Reykjagarður, Matfugl, Eigenda- og ræktendafélag landnámshænsna og Bændasamtök Íslands hafa sent Matvælastofnun bréf þar sem áhyggjum er lýst vegna hættunnar á að alvarlegir alifuglasjúkdómar berist til landsins. Tilefnið er nýlegt mál í Þykkvabæ þegar upp komst um ólöglegan innflutning á frjóeggjum kalkúna og stuttu áður kom upp skæður veirusjúkdómur í kjúklingabúi sem rakinn er til smitefnis erlendis frá. Er hvatt til þess að hart sé tekið á ólöglegum innflutningi. 
 
Brigitte Brugger..
Í bréfinu segir að innflutningur eins og þessi, sem er án eftirlits og utan reglna, geti haft mjög afdrifaríkar og ófyrirséðar afleiðingar hvað varðar heilbrigði íslenskra alifugla. „Íslenskir alifuglaframleiðendur jafnt stórir sem smáir búa við eitt það besta heilbrigðisástand í framleiðslu sinni sem þekkist um víða veröld. Notkun á lyfjum og bóluefnum er í algjöru lágmarki. Þetta er staða sem við viljum varðveita,“ segir í bréfinu. Er mælst til þess að stofnunin beiti sér fyrir því að slíkur innflutningur sé gerður með löglegum hætti og undir eftirliti Matvælastofnunar. Enn fremur að stofnunin kynni þeim aðilum sem halda hænsnfugla í atvinnuskyni – og í frístundabúskap – alvarleika málsins. 
 
Brigitte Brugger, dýralæknir alifuglasjúkdóma hjá Matvælastofnun, segir að innflutningurinn á frjóeggjunum sé til meðferðar hjá stofnuninni. „Það þarf að fá leyfi ráðuneytis til að flytja inn frjóegg og Matvælastofnun veitir umsögn við hverja umsókn. Matvælastofnun er ekki kunnugt um að sótt hafi verið um leyfi til innflutnings á þessum frjóeggjum frá Færeyjum,“ segir Brigitte. 
 
Litið mjög alvarlegum augum
 
„Matvælastofnun lítur það mjög alvarlegum augum að flutt séu inn frjóegg eða hvers konar dýr eða erfðaefni þeirra án leyfis og án þess að búið sé að kanna hvort smitefni leynist í þeim. Smitsjúkdómar geta borist með frjóeggjum og sumir sjúkdómar í alifuglum berast jafnvel gjarnan og auðveldlega í gegnum frjóegg í afkvæmin. Við erum með mjög góða sjúkdómastöðu í alifuglum hér á landi, með þeirri bestu sem þekkist í heiminum. 
 
Margir smitsjúkdómar sem eru landlægir í alifuglum erlendis hafa ekki greinst hér. Erlendis þarf að bólusetja alifugla í uppeldi og jafnvel í varpi oftar en einu sinni og slíkar bólusetningar eru kostnaðarsamar, tímafrekar og hafa áhrif á fuglana. Þessari góðu sjúkdómastöðu á Íslandi ber að verja, það er svo mikið í húfi.“
 
Ætla má að frjóeggjum sé smyglað
 
Brigitte segir að lítið sé vitað um sjúkdóma í bakgarðsfuglum hér á landi en ætla megi að frjóeggjum sé smyglað til landsins. „Þess vegna er ekki hægt að útiloka að tilkynningaskyldir sjúkdómar geti verið til staðar í bakgarðshænum. Sumir sjúkdómar geta valdið einungis vægum einkennum; til dæmis nefrennsli eða augnbólgum, en vandasamt getur verið að ráða við útrýmingu sjúkdóms ef smituð dýr eru flutt milli hópa og sjúkdómar ná þannig útbreiðslu.  Eigendur bera sjálfir ábyrgð á heilsu þeirra fugla. Mikilvægt er að þeir fái einungis fugla frá heilbrigðum hópum á búum, þar sem ekki hafa komið upp veikindi,“ segir Brigitte og bendir á fræðsluefni Matvælastofnunar um smitvarnir í hænsnakofum sem nálgast megi í gegnum vef stofnunarinnar.  
 
Beðið heilraðagreiningu vegna upprunans
 
„Það er enn ekki vitað hvernig veirusjúkdómurinn Gumboro-veikin barst á kjúklingabúið en við teljum að veiran hafi borist frá útlöndum vegna þess að veiran hefur aldrei greinst hér áður. Það er beðið eftir heilraðagreiningu veirunnar til að meta hvort hægt sé að fá nánari upplýsingar um hugsanlegan uppruna veirunnar,“ segir Brigitte. 
 
„Algengasta smitleið Gumb­oro-veikinnar er beint á milli fugla, sem sagt með flutningi sýktra fugla í heilbrigða hópa. Einnig getur borist smit í gegnum smituð tæki og tól eða með fólki ef ekki er skipt um fatnað milli alifuglahópa. Ólíklegt er að Gumboroveiki berist í gegnum frjóegg í afkvæmin. 
 
Gumboroveiki veira er mjög lífseig og þolir mörg sótthreinsiefni. Það er þess vegna ekki öruggt að það náist að koma í veg fyrir smit með venjulegum þrifum og sótthreinsun á notuðum tækjum og tólum sem eru flutt inn löglega,“ svarar Brigitte þegar hún er spurð hvort Gumboro-sjúkdómurinn hafi borist með einhverju sem hefði ekki átt að flytja til landsins án þess að hafa verið sótthreinsað. „Í fyrirliggjandi tilfelli er þó talið ólíklegt að smit hafi borist í kjúklingabúið með fóður- eða brynningarbúnaði. Alifuglabændur eru almennt mjög meðvitaðir um smitvarnir, það er því að þakka held ég að við höfum sloppið svo lengi.
 
Gumboroveiki-veiran getur líka verið í hráu kjöti, þess vegna er bannað að fóðra bakgarðshænur og alla alifugla með eldhúsúrgangi. Það er afar, afar ólíklegt að kjúklingum á smitaða búinu hafi verið gefinn eldhúsúrgangur, svo það sé tekið fram. Það gerðist í gegnum einhverja aðra leið sem við vitum ekki hver er.“ 
Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...

Pólar hestar fyrirtæki ársins
Fréttir 19. nóvember 2024

Pólar hestar fyrirtæki ársins

Markaðsstofa Norðurlands hefur valið hestaleiguna Pólar hestar sem fyrirtæki árs...

Byggja stóra íþróttamiðstöð
Fréttir 18. nóvember 2024

Byggja stóra íþróttamiðstöð

Í Árnesi er verið að byggja fyrstu íþróttamiðstöðina í Skeiða- og Gnúpverjahrepp...

Afstaða framboða til landbúnaðarmála
Fréttir 15. nóvember 2024

Afstaða framboða til landbúnaðarmála

Stjórnmálaflokkarnir sem eru í framboði til alþingiskosninga, sem fram fara 30. ...

Nýjar höfuðstöðvar
Fréttir 15. nóvember 2024

Nýjar höfuðstöðvar

Samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðher...

Fiðrildategund nefnd eftir Björk
Fréttir 15. nóvember 2024

Fiðrildategund nefnd eftir Björk

Skordýrafræðingurinn Harry Pavulaan hjá Nebraska-háskóla hefur nefnt nýja fiðril...