Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Orkuframleiðsla með kolum jókst um 18%
Mynd / Dominik Vanyi - Unsplash
Fréttir 2. júní 2022

Orkuframleiðsla með kolum jókst um 18%

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Þrátt fyrir allt tal um að draga verði úr losun koltvísýrings (CO2) þá jókst notkun kola í raforku­framleiðslu í Evrópu á síðasta ári um 18%. Þá er áætlað að kolanotkun í raforkuframleiðslu aukist um 11% til viðbótar á árinu 2022.

Mjög mikil umræða hefur verið um það hér á landi að Íslendingar þurfir að gera mun betur í að draga úr losun kolefnis og að binda kolefni. Mjög metnaðar­full mark­mið hafa verið sett í okkar litla samfélagi, en á sama tíma virðast milljónaþjóðir í kringum okkur vera á hraðferð í öfuga átt. Þó höfð hafi verið uppi krafa á Íslandi um að lýst yrði yfir neyðarástandi í loftslagsmálum, þá er vandséð að það muni vinna upp öfuga þróun í öðrum löndum með yfir 700 milljónum íbúa. Jafnvel auknir kolefnisskattar á íslenskan almenning og tal um að nú sé tíminn að renna út, hrökkva þar skammt.

Viðsnúningur varð í kolabrennslu á árinu 2019

 Á vefsíðu Renewables Now má sjá umfjöllun um það sem hefur verið að gerast í þessum málum í Evrópu á síðustu misserum, sem er þvert á allar upphrópanir og fullyrðingar um öflug viðbrögð gegn hlýnun loftslags. Þannig snerist samdráttur í kolanotkun til raforkuframleiðslu við á árinu 2019, en hann hafði staðið yfir frá árinu 2012.

Kolaorka jókst um 18% í Evrópu 2021

Í grein á RN er vísað til orða Carlos Torres Diaz, yfirmanns hjá markaðsrannsóknafyrirtækinu Rystad Energy. Hann segir að kolanotkun hafi aukist í raforku­framleiðslu vegna hækkandi verðs á gasi frá Rússum og ótta við að þeir dragi úr sölu á gasi til ESB landa. Þannig hafi kolaorka aukist um 18% á milli áranna 2020 og 2021 og farið í 597 terawattstundir (TWst.) Þá segir hann að verið sé að draga úr framleiðslu á raforku í gasknúnum orkuverum vegna átakanna í Úkraínu. Það geti þýtt að orkuframleiðsla með kolum geti aukist á yfirstandandi ári um 11% til viðbótar og fari í 641 TWst.  

Samdráttur í vatnsafli og vindorku 

Þá vinnur framleiðsla á raf­orku með vatnsafli líka gegn loftslags­markmiðum, þar var 4% samdráttur á árinu 2021 og 1% samdráttur í raforkuframleiðslu vindorkuvera. Ástæða þessa var lélegur vatns­búskapur í vatnsorkuverum og lítill vindur. Samt hefur uppsett afl í vindorkuverum verið að aukast lítillega og búist er við að það fari úr 447 TWst. í 469 TWst á árinu 2022. Eins er reiknað með að framleiðslugeta í sólorkustöðvum aukist úr 180 TWst. í 190 TWst. á yfirstandandi ári. Þetta þýðir að allt í allt er verið að tala um aukið uppsett afl í endurnýjanlegri orku upp á 33 terawattstundir á milli ára. Framleiðsla á lífefnaeldsneyti með jurtaolíu og lífrænu metangasi gæti auk þess aukið orkuframleiðsluna um 77 TWst. á þessu ári. Það vegur þó lítið til að draga úr losun koltvísýrings.  

Aukning í kjarnorkuframleiðslu 2021 en búist við samdrætti 2022

Framleiðsla kjarnorkuvera jókst um 6% á síðasta ári og fór í 884 TWst. Hins vegar hafa t.d. Þjóðverjar verið að taka þrjú kjarnorkuver úr notkun þannig að orkuframleiðsla kjarnorkuvera mun dragast talsvert saman á yfirstandandi ári. Þar spilar líka inn í  að framleiðslusamdráttur er fyrirséður í Frakklandi vegna viðhalds á búnaði gamalla kjarnorkuvera.

Líkur á hækkun orkuverðs og auknum útblæstri

Vandséð er hvernig Evrópuríkin muni þá mæta aukinni eftirspurn eftir raforku, t.d. vegna orkuskipta ökutækja, samfara samdrætti í kaupum á gasi frá Rússlandi. Nánast eina færa leiðin í augnablikinu virðist vera að auka enn frekar brennslu á kolum og olíu til að framleiða þá raforku sem til þarf. Talið er nokkuð öruggt að þessi staða muni leiða til enn meiri hækkana á orkuverði í Evrópu á komandi misserum. 

Skylt efni: kolabrennsla | kolavinnsla

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar
Fréttir 29. október 2024

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar

Slow Food Reykjavík hélt hátíð í garðskála Grasagarðs Reykjavíkur dagana 18. og ...

Dagur sauðkindarinnar
Fréttir 29. október 2024

Dagur sauðkindarinnar

Þann 12. október síðastliðinn var dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu haldi...

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins
Fréttir 29. október 2024

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins

Vala Valtýsdóttir er nýr formaður stjórnar Lífeyrissjóðs bænda. Aukaaðalfundur s...

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar
Fréttir 28. október 2024

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun birti þann 18. október til umsagnar matsáætlun fyrir mat á umhv...

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu
Fréttir 28. október 2024

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu

Auka þarf innlenda matvælaframleiðslu um 45–55 prósent næstu þrjátíu árin til að...

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé
Fréttir 28. október 2024

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé

Innleiðing á verndandi og mögulega verndandi arfgerðum gegn riðu í sauðfé gengur...

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju
Fréttir 25. október 2024

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju

Umsóknum um styrki vegna útiræktunar grænmetis fækkaði um fimm frá fyrra ári.

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast
Fréttir 25. október 2024

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast

Kennitala Sláturhússins á Hellu hefur verið afskráð og verður reksturinn færður ...