Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum
Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins, RML, rannsakar nú erfðaorsakir kálfadauða.
Yfirstandandi er rannsókn þar sem kannað er hvort gen eða einhverjir erfðaþættir valdi kálfadauða í íslenska kúastofninum. Segir Guðmundur Jóhannesson, ráðunautur hjá RML, mikilvægan lið í rannsókninni að fá sýni úr kálfum sem sannanlega fæðast dauðir. Nokkur sýni hafi náðst í vetur en þörf sé á fleiri og því óskað eftir aðstoð bænda.
„Við biðlum því til ykkar með að taka sýni úr þeim kálfum sem fæðast dauðir og eru undan sæðinganautum,“ segir á vef RML. Sýnið sé tekið þannig að klipptur er bútur af öðru eyra kálfsins og settur í poka sem merkja þarf með burðardegi og númeri móður. Sýnið sé síðan geymt í frysti.
Ástæða þess að einkum er horft til afkvæma sæðinganauta mun vera sú að þar með er til arfgreining á föður kálfsins. Með því móti eru meiri líkur á að kortleggja megi einstök gen eða genasamsætur sem gætu tengst eða valdið kálfadauða.
Tilkynna skal um sýni til Guðmundar og þá fundin sameiginleg lausn á hvernig RML nálgast það hjá viðkomandi.