Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Fréttir 17. mars 2017
Ótvírætt skemmtanagildi folaldasýninga
Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir
Af öðrum viðburðum ólöstuðum má segja að folaldasýningar sé ein áhorfendavænsta afþreyingin sem hrossaræktunin hefur upp á að bjóða. Á þessum skemmtilegu mannamótum koma ræktendur saman með folöldin sín og bera eiginleika þeirra saman. Þá eru kallaðir til dómarar sem meta þau og gefa folöldunum umsögn. Áhorfendur fá oftast sitt að segja á þessum sýningum og velja það folald sem höfðar best til þeirra.
Folaldasýningar eiga sér tíu ára hefð hjá hestamannafélaginu Sörla og njóta þær alltaf mikilla vinsælda. Þannig voru tæplega 30 folöld sýnd á folaldasýningu kynbótanefndarinnar í reiðhöll Sörla laugardaginn 25. febrúar síðastliðinn og áhorfendapallarnir velsetnir.
Herkúles frá Ragnheiðarstöðum var atkvæðamikill á sýningunni, átti rúm 20% afkvæma, og svo fór að dómarar völdu afkvæmi hans sigurvegara beggja flokka. Auk þess kom Herkúles fram í hléi ásamt Kolskeggi frá Kjarnholtum, en þeir eiga það sameiginlegt að vera fyrrum sigurvegarar folaldasýningar Sörla.
Hermann frá Ragnheiðarstöðum, brúnskjóttur glæsifoli, sigraði flokk hestfolaldaflokka en hann er undan Herkúlesi og Gleði frá Holtsmúla, Álfasteinsdóttur. Ræktendur og eigendur hans eru Helgi Jón Harðarson og Pálmar Harðarson. Í öðru sæti í flokki hestfolalda völdu dómarar Hervar frá Svignaskarði, kátan og fjörugan fola sem fór mikinn í höllinni og uppskar flest atkvæði áhorfenda. Hervar er undan Landsmótssigurvegaranum Glóðafeyki frá Halakoti og Hrefnu frá Dallandi sem alvön er keppnisbrautinni ásamt eiganda sínum, og ræktanda Hervars, Valdísi Björk Guðmundsdóttur.
Ganglag og bygging metin
Gísli Guðjónsson var einn dómara á sýningunni. – „Folaldasýningar eru fyrst og fremst skemmtileg samkoma fyrir ræktendur og tilefni fyrir hestamenn að hittast og taka tal saman,“ segir hann. Dómarar meta afmarkaða þætti og eiginleika folaldsins á sýningum. „Við horfum fyrst og fremst í ganglag og byggingu. Við skoðum hvort folaldið búi yfir rými og mýkt á gangi og hafi góð gangskil, líkamsbeitingu folaldsins, þ.e. hvort það sé sjálfberandi. Fótaburður er ekki lykilatriði en þó skrautfjöður ef hann er til staðar. Í byggingunni er helst horft á yfirlínu, frá hálsi aftur í lend. Þá sé einnig tekið eftir því hvort folaldið búi yfir byggingargöllum s.s. galla í neflínu og eða annarra lýta. Almennt fas folaldsins er einnig tekið til skoðunar.“
Gísli segir hins vegar tæpt að tala um forspársgildi slíkra sýninga.
„Folöld þroskast mjög misjafnlega og á þessum tíma árs eru þau oft eins og unglingar á gelgjunni. Að sjálfsögðu koma margir gæðingakostir fram í hrossum strax við fæðingu en það að vinna folaldasýningu er engin áskrift á góðan árangur á kynbótabrautinni. Margir utanaðkomandi þættir spila þar inn í, t.a.m. hvernig tamningaferlið heppnast með hvern grip.“
Gísli bendir þó á að góð þróun hafi átt sér stað í folaldasýningum.
„Á fyrstu árum þá voru það gjarnan hræddustu folöldin, og þar með sperrtustu, sem sigruðu. En þetta urðu sjaldan góð hross. Við viljum ekki verðlauna hræðslu og tökum frekar eftir yfirveguðum og sjálfsöruggum folöldum, það er besta leiðin til þess að rýna í geðslag þeirra.“
Góðar ættir og mont
Dómarar völdu merfolaldið Herdísi frá Hafnarfirði sem folald sýningarinnar. Herdís er undan Herkúles frá Ragnheiðarstöðum og Gleði frá Hafnarfirði, en Bryndís Snorradóttir og Snorri Rafn Snorrason eru ræktendur og eigendur hennar.
„Herdís er voðalega skemmtilega ættuð því það standa margir sterkir stofnar að baki henni, þar má nefna Skollagróf, Laugarvatn og Sauðárkrók ásamt Kolfinni. Móðirin er frábær 1.verðlauna hryssa sem hefur verið að gefa myndarleg tryppi, en fyrsta afkvæmið hennar fer í tamningu í haust,“ segir Snorri. Hann lýsir Herdísi sem einkar skemmtilegu folaldi. „Herdís er stór og falleg og létt í spori. Hún er galopin á gangi og lyftir löppum. Svo er mikið mont í henni og það virkar vel á folaldasýningum.“
Snorri er einnig meðlimur í kynbótanefnd Sörla sem stóð að framkvæmd sýningarinnar.
„Folaldasýningar eru aðallega hugsaðar sem skemmtun. Fyrir okkur ræktendurna er gaman að fá að sýna folöldin sín og fá umsögn dómara um þau. Í þessu felst einnig að leggja strax smá vinnu í folöldin sín. Áður en þau fara á sýningu þarf að temja þau aðeins, spekja þau, setja á þau múl og teyma þau. Eftir því sem folöld eru meðhöndluð meira verða þau auðveldari þegar að tamningu kemur.“
Þá segir Snorri folaldasýningar hafa ákveðið markaðsgildi.
„Ég fékk strax fyrirspurn frá Þýskalandi um hvort Herdís væri mögulega til sölu,“ segir Snorri sem neitaði víst pent.
Herdís frá Hafnarfirði (til hægri) sigraði folaldasýninguna. Með henni á mynd er Dáð frá Skógarási en þær eru báðar undan Herkúlesi frá Ragnheiðarstöðum.
Úrslit folaldasýningar Sörla 2017
Flokkur merfolalda
1.Herdís frá Hafnarfirði
Móðir: Gleði frá Hafnarfirði
Faðir: Herkúles frá Ragnheiðarstöðum
Litur: Rauðskjótt
Ræktendur og eigendur: Bryndís Snorradóttir og Snorri Rafn Snorrason.
2.Snerpa frá Straumi
Móðir: Ösp frá Breiðholti, Gbr
Faðir: Herkúles frá Ragnheiðarstöðum
Litur: Rauð
Ræktandi og eigandi: Högni Gunnarsson
3.Krás frá Arnarstaðakoti
Móðir: Klassík frá Litlu-Tungu 2
Faðir: Halur frá Breiðholti
Litur: Brúnstjörnótt
Ræktandi og eigandi: Gunnar Karl Àrsælsson
4.Dáð frá Skógarási
Móðir: Drottning frá Syðri Úlfsstöðum
Faðir: Herkúles frá Ragnheiðarstöðum
Litur: Rauðskjótt
Ræktendur og eigendur: Einar Valgeirsson og Unnur Magnadóttir
5.Skör frá Kelduholti
Móðir: Gáta frá Hrafnsstöðum
Faðir: Skaginn frá Skipaskaga
Litur: Brún
Ræktendur og eigendur: Sigurður Helgi Ólafsson og Stella Björg Kristinsdóttir
Hervar frá Svignaskarði, sá rauði, var valið folald sýningar af áhorfendum.
Flokkur hestfolalda
1. Hermann frá Ragnheiðarstöðum
Móðir: Gleði frá Holtsmúla
Faðir: Herkúles frá Ragnheiðarstöðum
Litur: Brúnskjóttur
Ræktendur og eigendur: Helgi Jón Harðarson og Pálmar Harðarson
2.Hervar frá Svignaskarði
Móðir: Hrefna frá Dallandi
Faðir: Glóðafeykir frá Halakoti
Litur: Rauður
Ræktandi og eigandi: Valdís Björk Guðmundsdóttir
3.Stapi frá Stíghúsi
Móðir: Álöf frá Ketilsstöðum
Faðir: Konsert frá Hofi
Litur: Rauðskjóttur
Ræktandi og eigandi: Guðbr. Stígur Ágústsson
4.Skjóni frá Húsafelli 2
Móðir: Spurning frá Sörlatungu
Faðir: Eldhugi frá Álfhólum
Litur: Brúnskjóttur
Ræktendur og eigendur: Róbert Veigar Ketel og Sigurður T Sigurðsson
5.Bjartur frá Breiðholti, Gbr
Móðir: Mánadís frá Breiðholti, Gbr
Faðir: Herkúles frá Ragnheiðarstöðum
Litur: Rauðtvístjörnóttur
Ræktandi og eigandi: Gunnar Yngvason
Hermann frá Ragnheiðarstöðum (t.v.) sigraði í flokki hestfolalda. Skjóni frá Húsafelli 2 (t.h.). var í 4. sæti.