Mercedes Benz EQE SUV er jepplingur þar sem lúxus og vönduð smíði eru í fyrirrúmi. Svipurinn með öðrum Benzum er sterkur.
Mercedes Benz EQE SUV er jepplingur þar sem lúxus og vönduð smíði eru í fyrirrúmi. Svipurinn með öðrum Benzum er sterkur.
Mynd / ál
Fréttir 5. september 2024

Óviðjafnanleg fágun

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Bændablaðið fékk til prufu EQE SUV rafmagnsbílinn frá Mercedes Benz. Um er að ræða stóran fjölskyldubíl sem er fágaður og uppfullur af vönduðum búnaði.

Eintakið í þessum prufuakstri var nánar tiltekið EQE SUV 350 4MATIC Power. Til að útskýra nafnið þá er SUV til að aðgreina jepplinginn frá EQE fólksbílnum. 350 vísar til mótoranna sem, þrátt fyrir að vera samtals heil 292 hestöfl, eru þeir aflminnstu sem Askja býður upp á. 4MATIC stendur fyrir fjórhjóladrif og Power fyrir aukahlutapakkann, sem er einn sá rausnarlegasti.

Ytra útlitið einkennist af mjúkum og aflíðandi línum. Mikill ættarsvipur er með Benzum, sérstaklega þeim rafknúnu. Myndirnar tala sínu máli.

Þegar stigið er um borð í EQE SUV tekur á móti manni eitthvað allt annað og meira en í hinum almenna fólksbíl eða jeppa, en hér er fágunin tekin upp á annað stig. Útlitið á innréttingunni er ekki látlaust, þó hún sé útfærð þannig að hún sé ekki yfirþyrmandi. Allt sem hægt er að snerta virðist vera gegnheilt og bjargfast.

Í þessum tiltekna bíl var innréttingin öll svört og dökkgrá. Fremri hlið innréttingarinnar er plata sem er þakin mynstri úr Benz-stjörnunni, svona ef einhver skyldi gleyma tegund farartækisins. Þar fyrir ofan er ristin fyrir miðstöðina felld inn og er efsti hluti mælaborðsins þakinn efni sem minnir á rúskinn. Þá eru tvö miðstöðvarop hvort sínum megin sem líkjast þotuhreyflum. Stýrið, sem er klætt nappa-leðri, er með takka fyrir helstu skipanir.

Þessi bíll situr mitt á milli EQC og EQS rafknúnu jepplinganna í vörulínu Mercedes Benz.

Viðamikið stýrikerfi

Í miðri innréttingunni er stór snertiskjár með öflugu kerfi frá Mercedes Benz sem býður upp á býsna mikla möguleika. Viðmótið er snarpt og fallegt útlits, en ef það ætti að gagnrýna eitthvað, þá er það helst hversu viðamikið stýrikerfið er og hversu löng leið getur verið að sumum stillingum.

Það sem maður þarf að hafa aðgengilegt er alltaf á skjánum, eins og stillingar fyrir miðstöð, hita í rúðum og margmiðlun. Neðan við skjáinn eru nokkrir hnappar á stöng, meðal annars til að eiga við hljóðstyrkinn í útvarpinu og nálgast myndavélar sem sýna umhverfið á afar skýran og nothæfan hátt.

Vönduð kort eru innbyggð í kerfið sem er þægilegt að hafa uppi til að fá yfirsýn, jafnvel þó að leiðsögukerfið sé ekki í notkun. Í staðinn fyrir að vera með einfalda ör, þá er notuð lítil mynd af bílnum til að gefa upp staðsetninguna. Beint framan við ökumanninn er annar skjár sem sýnir helstu upplýsingar um akstur og getur notandinn breytt uppsetningu og lit eftir eigin óskum.

Viðamikið stýrikerfi er innbyggt í snertiskjáinn. Þar er meðal annars hægt að eiga við hljómkerfið, sem er óviðjafnanlega gott.

Hljóðkerfi af bestu gæðum

Hljóðkerfið í þessum bíl er sennilega það besta sem undirritaður hefur komist í tæri við. Hljómurinn er sérlega þéttur og ber ekki á nokkru suði eða sargi þegar græjurnar eru settar í botn. Sama hvort spiluð er tónlist sem á heima á klúbbi í Berlín eða óperuhúsi í Mílanó, þá er útkoman stórkostleg. Sætin eru þægileg, rétt eins og búast má við í Mercedes Benz lúxusbíl, og er nóg pláss fyrir fólk af öllum stærðum. Hávaxnir munu ekki þrengja að farþegum í aftursætunum, sem eru ekki síður notaleg. Gólfið er alveg flatt aftur í og er nóg pláss fyrir fætur og hné á meðan höfuðplássið rétt sleppur fyrir hæstu farþegana.

Hanskahólfið er rúmgott og hurðavasarnir stórir. Á milli sætanna er djúpt lokað hólf. Undir skjánum er jafnframt lítið hólf þar sem er glasahaldari og þráðlaus hleðslustöð fyrir farsímann. Það fyrsta sem undirritaður hugsaði þegar hann settist í bílinn var að síminn myndi eflaust alltaf gleymast á hleðslustöðinni, sem er nokkuð falin. Mercedes Benz hefur hins vegar séð fyrir því, en þegar slökkt er á ökutækinu og hurðin opnuð heyrist í vinalegri röddu sem lætur vita ef síminn hefur orðið eftir.

Aftursætin rúma fullorðið fólk með ágætum.

Mjúkur og þögull

Aksturseiginleikar EQE SUV einkennast af mýkt og þögn. Hestöflin eru 292 sem duga ágætlega, en bíllinn er ekki það kraftmikill að ökumenn og farþegar fái fiðring í magann þegar inngjöfin er sett í botn. Þegar ekið er yfir hraðahindranir finnst hversu öflug loftpúðafjöðrunin er, en á meðan flestir bílar halda áfram að dúa í einhvern tíma, þá er einhver mekaník í EQE SUV sem vinnur á móti veltingnum.

Eitt af því áhugaverðasta í akstri bílsins er fjórhjólastýrið, en þökk sé því er þessi stóri jepplingur lipur á við smábíl. Þegar horft er í afturspeglana er hægt að sjá afturhjólin beygja í allt að tíu gráður og þegar lagt er á bílinn á lægri hraða er upplifunin álík því og að vera í skotbómulyftara. Á hærri hraða beygja öll fjögur hjólin í sömu átt, sem mun vera til þess að auka stöðugleika.

EQE SUV er með akstursaðstoð sem er þannig útbúin að ökumaðurinn verður sjaldnast var við hana, en þegar sveigt er af akrein kemur smá titringur í stýrið. Þegar kveikt er á skynvædda hraðastillinum fer öflugri akstursaðstoð í gang sem heldur fjarlægð frá næsta bíl og sér að miklu leyti um að vera á miðri akrein.

Einn helsti kostur jepplinga er praktískt skott.

Að lokum

Helstu mál í millímetrum eru: Breidd, 2.141; hæð, 1.685; lengd 4.863. Rafhlaðan er 90 kílóvattsstundir sem gefur drægni allt að 551 kílómetra. Ódýrasta útgáfan, sem nefnist EQE SUV 350 Pure, fæst á 12.890.000 krónur með virðisaukaskatti. Bíllinn í þessum prufuakstri, sem var eins og áður segir EQE SUV 350 Power, kostar 16.290.000 krónur. Allir EQE SUV eru með fjórhjóladrifi.

Þrátt fyrir að EQE SUV sé langt frá því að vera ódýr, þá er þessi bíll með raunverulega fágun, sem réttlætir verðið að einhverju leyti. Útgáfan sem blaðamanni var fengin, með minnstu mótorunum og miklum staðalbúnaði, er sennilega sú sem höfðar til flestra. Nánari upplýsingar fást hjá Öskju, söluaðila Mercedes Benz á Íslandi.

Skylt efni: prufuakstur

Atrenna að minni losun landbúnaðar
Fréttir 6. september 2024

Atrenna að minni losun landbúnaðar

Í uppfærðri aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum, sem kynnt var í vor og e...

Verkefnisstjórn loftslagsaðgerða
Fréttir 6. september 2024

Verkefnisstjórn loftslagsaðgerða

Ný aðgerðaáætlun í loftslagsmálum var kynnt um miðjan júní. Nýlega var skipuð ve...

Nýr hornsteinn lagður að Sögu
Fréttir 5. september 2024

Nýr hornsteinn lagður að Sögu

Lagður var nýr hornsteinn að húsinu sem lengst af gekk undir nafninu Bændahöllin...

Upplýsingasíða um riðuvarnir
Fréttir 5. september 2024

Upplýsingasíða um riðuvarnir

Karólína Elísabetardóttir í Hvammshlíð, frumkvöðull í riðumálum, hefur tekið sam...

Hálfíslenskur bóndi á lífrænu búi
Fréttir 5. september 2024

Hálfíslenskur bóndi á lífrænu búi

Á ferð sinni um Jótland hitti Magnús Halldórsson, umsjónarmaður Vísnahorns Bænda...

Viðfangsefnin spanna alla virðiskeðjuna
Fréttir 5. september 2024

Viðfangsefnin spanna alla virðiskeðjuna

Matís gaf Grænmetisbókina út í sumar, sem er heildstætt vefrit um margar hliðar ...

Óviðjafnanleg fágun
Fréttir 5. september 2024

Óviðjafnanleg fágun

Bændablaðið fékk til prufu EQE SUV rafmagnsbílinn frá Mercedes Benz. Um er að ræ...

Fryst svil varðveitt í Nautastöðinni
Fréttir 4. september 2024

Fryst svil varðveitt í Nautastöðinni

Svil úr villta íslenska laxastofninum eru varðveitt í Nautastöð Bændasamtaka Ísl...