Páfuglinn Dexter fékk ekki að fara um borð
Konu nokkurri var meinað um að hafa gælupáfuglinn sinn með um borð í flugvél United Airlines fyrir skömmu. Í innanlandsflugi í Bandaríkjunum hafa flughræddir haft leyfi til að hafa með sér stuðningsgæludýr til andlegs stuðnings.
United flugfélagið taldi að eigandi fullvaxins páfugls hefði farið yfir strikið þegar konan sem á fuglinn mætti með hann til innritunar í flug og bannaði henni að hafa fuglinn með sér um borð.
Aðdragandi málsins er að farþegar sem þurfa blindrahunda mega hafa með sér hundana í innanlandsflugi í Bandaríkjunum sér til stuðnings. Einnig hefur fólk sem þjáist af flughræðslu fengið að hafa með sér stuðningsgæludýr í innanlandsflugi.
76.000 stuðningsdýr á ári
Gríðarleg aukning hefur orðið í að fólk vilji hafa með sér stuðningsdýr í flug og á síðast ári voru 76 þúsund dæmi skráð um slíkt en 46 þúsund árið 2016. Stuðningsdýrin sem flugfarþegar hafa haft með sér í flug til þessa eru margs konar, hundar, kettir, skjaldbökur, grísir og endur.
Að sögn talsmanns United var konunni þrisvar sinnum greint frá því áður en hún kom að innritunarborðinu að hún fengi ekki að fara með fuglinn um borð þrátt fyrir að hún hafi keypt fyrir hann flugsæti.
Konan beitti fyrir sig þeim rökum að hún treysti sér ekki til að fljúga án þess að hafa páfuglinn Dexter sér við hlið. Að lokum var rökum konunnar hafnað á þeim forsendum að páfuglinn væri of stór og ómeðfærilegur til að vera í farþegarýminu.
Nauðsynlegt að endurskoða reglurnar
Talsmaður United segir nauðsynlegt að endurskoða reglurnar um stuðningsdýr í flugvélum. Til dæmis að tryggja að þau séu heilbrigð og sérþjálfuð til stuðnings.
Eigandi páfuglsins neitaði að fara í flugið án Dexters og segir sagan að konan hafi fengið sér bílaleigubíl og keyrt þvert yfir Bandaríkin til að komast í sumarfrí.