Ráðstefna um brýr
Byggjum brýr er heiti á brúaráðstefnu sem Vegagerðin hefur boðað til þann 26. apríl nk.
Fjallað verður um brýr í víðu samhengi og litið til fortíðar, nútíðar og framtíðar að því er fram kemur í tilkynningu frá Vegagerðinni.
Meðal fyrirlesara eru erlendir brúarverkfræðingar, íslenskir sérfræðingar, verktakar í brúargerð og fræðimenn. Í upplýsingum frá Vegagerðinni kemur fram að á Íslandi eru 1.185 brýr, þar af eru 225 þeirra á Hringveginum.
„Á ráðstefnunni verður farið yfir sögu brúa á Íslandi, hver staðan er á fækkun einbreiðra brúa, skoðaðar nokkrar áhugaverðar brýr sem eru í framkvæmd eða á teikniborðinu og farið yfir áskoranir framtíðar. Þá verður hönnun brúa í tengslum við náttúruhamfarir, áhrif loftslagsbreytinga og áskoranir verktaka í brúargerð einnig til umfjöllunar,“ segir í tilkynningu Vegagerðarinnar.
Ráðstefnan fer fram á Hótel Reykjavík Grand kl. 9 -16.30