Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Frá formannafundi búgreinafélaganna um félagskerfi bænda sem fram fór í Bændahöllinni 10. júní.
Frá formannafundi búgreinafélaganna um félagskerfi bænda sem fram fór í Bændahöllinni 10. júní.
Mynd / HKr.
Fréttir 18. júní 2020

Rætt um að 12 búgreinafélög sameinist formlega Bændasamtökum Íslands

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Stjórn Bændasamtaka Íslands vinnur nú að því að einfalda félagskerfi bænda í því augnamiði að styrkja starfsemi samtakanna. Á formannafundi aðildarfélaganna sem haldinn var í síðustu viku lagði Gunnar Þorgeirsson, formaður BÍ, áherslu á að ljúka málinu á þessu ári, þannig að nýtt fyrirkomulag tæki gildi um næstu áramót. 

Ljóst er að reksturinn á öllu félagskerfi bænda er mjög þungur. Í dag eru aðildarfélög samtakanna 26 að tölu, þar af 11 búnaðarsambönd sem starfa svæðisbundið, 12 búgreinafélög sem starfa á landsvísu í ákveðnum greinum og loks þrjú félög sem einnig starfa á landsvísu en snúast um ákveðna hópa eða starfshætti. Þau innheimta sín félagsgjöld hvert fyrir sig og upphæðir þeirra eru mjög ólíkar. Hugmyndin er að sameina búgreinafélögin heildarsamtökunum þannig að bændur hafi allir beina aðild að einu sameiginlegu deildaskiptu og öflugu hagsmunafélagi.

Umfangsmikið félagskerfi

Fyrir leikmenn er ekki einfalt að átta sig á umfangsmiklu og að því er virðist flóknu félagskerfi bænda. Búgreinafélögin eru eins og áður sagði 12 talsins. Það eru Landssamband kúabænda, Landssamtök sauðfjárbænda, Lands­samtök skógareigenda, Samband garðyrkjumanna, Samband íslenskra loðdýrabænda, Félag svínabænda, Félag kjúklingabænda, Félag eggjaframleiðenda, Félag hrossabænda, Félag ferðaþjónustu­bænda, Æðarræktarfélag Íslands og Geitfjárræktarfélag Íslands. Bændur í öllum þessum búgreinum gátu, eftir breytingar á samþykktum Bændasamtakanna á síðasta Búnaðarþingi í mars síðastliðnum, gerst beinir aðilar að BÍ í stað þess að þurfa líka að vera aðilar að einhverju fyrrgreindra félaga. Fyrir utan búgreinafélögin starfa svo 11 sérstök búnaðarsambönd sem eru samnefnari búgreina á afmörkuðum svæðum landsins og hvert með sína sérstöðu. Félögin þrjú sem eru ótalin eru svo Beint frá býli, Verndun og ræktun – samtök bænda í lífrænum landbúnaði (VOR) og Samtök ungra bænda.
 
Nauðsynlegt að einfalda kerfið

Oddný Steina Valsdóttir, vara­­for­maður Bændasamtaka Íslands.

Oddný Steina Valsdóttir, bóndi á Butru í Fljótshlíð, er varaformaður Bændasamtakanna. Hún segir nauð­syn­legt að ná fram breytingum helst á þessu ári. Þeim breytingum sé ætlað að ná fram sparnaði í rekstri. Það er talið nauðsynlegt, sér í lagi eftir að úrskurðað var um að óheimilt er að krefjast skylduaðildar að félögum eins og Bændasamtökum Íslands með innheimtu búnaðargjalds.

„Það er ekki um annað að ræða en að einfalda kerfið og auka skilvirknina,“ sagði Oddný í samtali við Bændablaðið.

Unnið samkvæmt samþykkt Búnaðarþings 2020

Á Búnaðarþingi 2020, sem haldið var í mars, var samþykktum Bændasamtaka Íslands breytt með þeim hætti að ekki er lengur skylda að vera í aðildarfélagi BÍ til að hafa félagsaðild að samtökunum. Þá var einnig samþykkt að félagsgjald skyldi veltutengt með þrepaskiptingu.

Á þinginu var lögð fram ítarleg skýrsla ásamt tillögum frá nefnd um félagskerfið sem starfað hafði frá Búnaðarþingi 2018. Uppistaða tillagnanna var að endurskipuleggja ætti samtök bænda í sama anda og dönsku samtökin.

Þingið var ekki tilbúið að samþykkja þá leið að svo stöddu en fól stjórn BÍ að ljúka endurskipulagningu á félagskerfi samtakanna, þannig að  tillögur að nýju og fullmótuðu skipulagi félagskerfisins liggi fyrir eigi síðar en á Búnaðarþingi 2021. Stjórninni var falið að hafa félags­kerfistillögurnar  sem fyrir þinginu lágu til hliðsjónar. Þingið lagði ríka áherslu á eftirfarandi þætti í ályktun sinni:

  • Ein öflug hagsmunasamtök fyrir landbúnaðinn.
  • Bein aðild félagsmanna að BÍ með veltutengdu félagsgjaldi.
  • Byggt á tveimur megin stoðum, bændum og landbúnaðartengdum fyrirtækjum.

Í kjölfar þingsins hefur stjórnin síðan unnið að útfærslu tillagna í samræmi við framangreint og kynnti þær svo á formannafundinum.

Þarf að skilgreina betur hlutverk Bændasamtakanna

Oddný segir að á formannafundinum hafi komið fram margvísleg sjónarmið.

„Ég held að við þurfum að nálgast þetta á þeim forsendum hvert hlutverk hagsmunagæslunnar og þeirrar starfsemi sem hefur heyrt undir Bændasamtökin á að vera. Síðan hvernig við mótum það til framtíðar. Við erum með þessu að reyna að skilja hreina félagspólitíska hagsmunagæslu frá öðrum þáttum og leita leiða til að auka þar skilvirknina. Þó við vildum gjarnan færa eitthvað af þessari hagsmunagæslu til starfsstöðva úti á landi, þá höfum við einfaldlega ekki efni á því.

Ég held að við verðum samt að hlusta líka á sjónarmið búnaðar­sambandanna, hvaða hlutverki þau gegna og reyna að ná utan um þá starfsemi í framhaldinu. Búnaðarsamböndin hafa fyrst og fremst haft á höndum afmörkuð verkefni og verið í nauðsynlegu þjónustuhlutverki, en ekki verið að halda utan um félagspólitískt starf bænda.“ 

Búnaðarsamböndin starfi áfram sjálfstætt

„Þó við gerum ráð fyrir að búgreinafélögin sameinist Bænda­samtökum Íslands formlega, þá gerum við líka ráð fyrir að búnaðarsamböndin starfi áfram sjálfstætt eins og hingað til. Þau búnaðarsambönd sem eru með einhverja starfsemi gangandi halda þá áfram að rukka inn sín félagsgjöld og halda úti starfsemi í sínu héraði. Það er þó full ástæða til að setjast niður og ræða og skilgreina hlutverk búnaðarsambandanna líka með tilliti til landshlutaskiptingar þeirra og mögulegra sameininga. Við gerum einnig ráð fyrir að aðildarfélög Bændasamtakanna sem ganga þvert á búgreinar verði með óbreyttu fyrirkomulagi og með sjálfstæðan fjárhag, það er Beint frá býli, Samtök ungra bænda og VOR.“

Á formannafundinum í síðustu viku var rætt um möguleika á að ljúka málinu á auka Búnaðarþingi í haust. Oddný Steina segir að nú sé verið að senda hugmyndir formannafundarins til aðildarfélaganna og gert sé ráð fyrir að athugasemdir frá þeim liggi fyrir undir lok júní. Staðan verði svo metin í framhaldinu og mögulega haldið auka búnaðarþing í haust ef einhver samhljómur verður um hvernig að framhaldinu verði staðið. 

Að falla á tíma

– Eru menn ekki svolítið komnir út í horn með þetta mál og að falla á tíma þar sem ekki er ljóst hvort það tekst að óbreyttu að tryggja rekstrargrundvöll BÍ?

„Jú, vissulega er það raunverulega staðan. Það væri því mjög æskilegt að við getum tekið fyrstu skrefin í breyttum samtökum bænda strax á næsta ári. Ég sé fyrir mér að við byrjum á því að rukka sameiginlega inn félagsgjöldin fyrir allar búgreinarnar. Æskilegt væri að það tækist strax á næsta ári. Í framhaldi af því þarf að samþykkja ýmsar breytingar sem lúta að grundvallar skipulagi Bændasamtakanna, sem þyrfti að mínu mati að klára ekki seinna en á árunum 2021 til 2023,“ segir Oddný Steina Valsdóttir.

Mikið hefur breyst síðan 2010

Fyrir einum áratug, eða á árinu 2010, störfuðu samanlagt rúmlega 100 manns hjá Bændasamtökunum, búnaðarsamböndum og búgreina­félögum. Kostaði rekstur þess kerfis á því ári  858,6 milljónir króna samkvæmt tölum sem Búnaðarsamband Suðurlands tók þá saman. Af þeim kostnaði komu 538,6 milljónir úr ríkisjóði en 320 milljónir króna innheimtar með búnaðargjaldi sem var þá 1,2% af veltu hvers bús. Ríkið sá þá um innheimtuna. Fjármunir sem innheimtust með búnaðargjaldi fóru á fjóra staði, til Bændasamtaka Íslands, búnaðarsambanda, búgreina­félaga og Bjargráðasjóðs.

Í ljós kom að þetta fyrirkomulag samræmdist ekki 74. grein stjórnar­skrár Íslands um félagafrelsi. Búgreinafélögin eru félög sem stofnuð voru á níunda áratug síðustu aldar. Þá töldu kúabændur, sauðfjárbændur, hrossabændur og aðrir bændur nauðsynlegt að halda utan um sín hagsmunamál sérstaklega, í stað þess að ræða um þau í einu stéttarfélagi þar sem bændur úr öllum greinum komu saman. Ástæðan var að hagsmunir ólíkra búgreina þóttu ekki alltaf fara saman.

Allir ráðunautar BÍ komnir í sjálfstætt félag

Mikið hefur breyst frá 2010. Allir ráðunautar sem áður störfuðu hjá Bændasamtökunum eru nú komnir til Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML), sem er sjálfstætt fyrirtæki fjármagnað að mestu úr rammasamningi land­búnaðarins en fær líka tekjur með sölu á þjónustu. Þá er tölvudeild samtakanna líka komin undir RML og eru þar nú samtals 52 starfsmenn.

Fyrir síðustu áramót var auk þess fækkað enn frekar í starfsliði Bændasamtakanna með uppsögnum. Nú eru einungis 11 stöðugildi eftir hjá samtökunum. Helmingur þeirra eru starfsmenn skrifstofu og útgáfusviðs, en undir því er m.a. starfsfólk Bændablaðsins. Hinn helmingurinn starfar að hagsmunabaráttu bænda og fjármálum samtakanna.

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...