Rekstraraðilar svína- og alifuglabúa fengu mest
Eignarhaldsfélögin Mata, LL42 og Innnes fengu úthlutað mest af tollkvótum á landbúnaðarvörum við síðustu úthlutun matvælaráðuneytisins.
Ráðuneytið tilkynnti um úthlutun þann 31. maí sl. sem tekur gildi 1. júlí næstkomandi. Í heild var úthlutað tollkvótum fyrir innflutningi á tæplega 2.500 tonnum af matvörum á grundvelli samninga við ESB, WTO og EFTA.
Síld og fiskur, Matfugl og Stjörnugrís
Mata ehf. fékk úthlutað tollkvótum fyrir innflutningi á tæpum 350 tonnum af búvörum, þar af fyrir 145 tonnum af svínakjöti og 162 tonnum af alifuglakjöti. Áður hafði félaginu verið úthlutað tollkvótum fyrir innflutningi á 303 tonnum af kjöti og osti frá Evrópusambandinu (ESB) á fyrstu sex mánuðum ársins 2024, þar af 120 tonnum af svínakjöti og 190 tonnum af alifuglakjöti.
Starfsemi hlutafélagsins Mata felst í innflutningi og dreifingu á ávöxtum og grænmeti samkvæmt ársreikningi. Félagið er í 99 prósenta eigu eignarhaldsfélagsins Langisjór ehf. sem á fjölda félaga, t.a.m. Matfugl ehf. og Síld og fiskur ehf.
Það fyrrnefnda starfar við slátrun og vinnslu á alifuglakjöti og rekur kjúklingaeldi á sjö stöðum á landinu. Síld og fiskur ehf., öðru nafni Ali matvörur, framleiðir matvæli úr svínakjöti og er skráður rekstraraðili á að minnsta kosti þremur svínabúum landsins. Eggert Árni Gíslason er stjórnarformaður félaganna Síld og fiskur ehf., Matfugl ehf. og Mata ehf. en Guðný Edda Gísladóttir er skráður stjórnarformaður eignarhaldsfélagsins Langisjór.
LL42 ehf. fékk úthlutað tollkvótum fyrir innflutningi á rúmum 300 tonnum af kjöti og eggjum, þar af rúmum 130 tonnum af svínakjöti og 70 tonnum af nautakjöti. Áður hafði félaginu verið úthlutað tollkvótum fyrir innflutningi á 173,5 tonnum af búvörum frá ESB á fyrstu sex mánuðum ársins 2024, þar af 110 tonnum af svínakjöti.
Starfsemi eignarhaldsfélagsins LL42 eru fjárfestingar í hlutabréfum og verðbréfum samkvæmt ársreikningi. Félagið er í hundrað prósenta eigu Stjörnugríss hf. sem er rekstraraðili sjö svínabúa hér á landi. Geir Gunnar Geirsson er stjórnarformaður beggja félaga.
Yfir 600 tonn til Innnes
Þá fékk Innnes ehf. úthlutað tollkvótum fyrir innflutningi á rúmum 290 tonnum af búvörum við niðurstöðu síðustu tilboðsmarkaða, þar af fyrir 85 tonnum af ostum og ystingum, 50 tonnum af nautgripakjöti og 61 tonni af alifuglakjöti.
Áður hafði félagið hlotið tollkvóta fyrir innflutningi á tæpum 319 tonnum af búvörum frá ESB á fyrstu sex mánuðum ársins 2024. Eignarhaldsfélagið Innnes rekur heildverslun með vörur til sölu í verslunum og til stóreldhúsa. Félagið er í 100 prósenta eigu Dalsnes ehf. og er Ólafur Björnsson einn eigandi þess.
Matvöruverslanir fengu tollkvóta
Heildverslunin Aðföng fékk úthlutað tollkvótum fyrir innflutningi á 252 tonnum af búvörum nú en hafði áður verið úthlutað tollkvótum fyrir innflutningi á rúmum 150 tonnum á fyrstu sex mánuðum ársins frá ESB.
Aðföng er í eigu Haga hf. sem rekur m.a. matvöruverslanirnar Bónus og Hagkaup, Olís og ÓB stöðvarnar og fyrirtækin Eldum rétt og Bananar ehf. en það síðastnefnda fékk úthlutað tollkvótum fyrir innflutningi á 10 tonnum af sérostum.
Krónan ehf. fékk úthlutað tollkvótum fyrir innflutningi á 260,5 tonnum af landbúnaðarvörum frá 1. júlí 2024 og hafði áður fengið úthlutað tollkvótum fyrir innflutningi á 390,5 tonnum af búvörum á fyrstu sex mánuðum ársins.
Í gögnum matvælaráðuneytisins um úthlutun tollkvóta á landbúnaðarvörum sést að Ekran fékk úthlutað ESB og WTO kvótum fyrir innflutningi á 222 tonnum af búvörum en hafði áður fengið úthlutað tollkvótum fyrir innflutningi á 215 tonnum á fyrstu sex mánuðum ársins frá ESB.
Nýr innflutningsaðili
Háihólmi ehf. er fyrirtæki sem fékk í fyrsta sinn úthlutað tollkvótum í fyrra. Félagið er skráð sem heildverslun sem sinnir smásölu á kjöti og kjötvöru í sérverslunum.
Frá stofnun þess í fyrra hefur félagið fengið úthlutað tollkvótum fyrir innflutningi á nær 370 tonnum af kjöti, þar af um 144 tonnum af nautakjöti. Birgir Karl Ólafsson er einn eigandi félagsins en hann átti það ásamt Ólafi Þór Jóhannessyni og Árna Pétri Jónssyni, fyrrverandi forstjóra Skeljungs, þar til í nóvember síðastliðnum.
Önnur fyrirtæki sem fengu úthlutað tollkvótum samkvæmt tilkynningu matvælaráðuneytisins voru félögin Danól, Garri, Heimkaup, Kjötmarkaðurinn, Lífland, Market ehf, Mini Market, Mój Market, Nathan & Olsen, OJK- Ísam, OMAX, Samkaup, Sláturfélag Suðurlands og Sólstjarnan.