RML tekur við Byggingaþjónustu landbúnaðarins
Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) hefur tekið við rekstri Bygginga-þjónustu landbúnaðarins af Bændasamtökunum.
Um áratugaskeið hafa starfsmenn byggingaþjónustunnar, undir forystu Magnúsar Sigsteinssonar sem nú lætur af störfum fyrir aldurs sakir, teiknað og hannað byggingar í sveitum landsins. Magnús var ráðinn fyrsti landsráðunautur í byggingum og bútækni hjá Búnaðarfélagi Íslands árið 1968 og hefur starfað fyrir bændur á þeim vettvangi síðan. Hjá RML mun Unnsteinn Snorri Snorrason fara fyrir verkefnum sem snúa að byggingum og bútækniráðgjöf. RML mun leggja áherslu á þverfaglega tengingu í ráðgjöf til bænda við nýbyggingar og endurbætur á eldri byggingum.