Sæfari ekki lengur boðlegur til farþegaflutninga
Grímseyingum þykir ferjan Sæfari, sem er í siglingum milli lands og eyjar, vart boðlegur lengur til farþegaflutninga.
Á fundi hverfisráðs Grímseyjar á dögunum komust menn að þeirri niðurstöðu að farsælla væri að huga að kaupum á nýrri ferju, en til stendur að fara í viðhaldsframkvæmdir á Sæfara innan tíðar. Eyjarskeggjum finnst farsælla að nýta fjármuni sem fara í viðhaldskostnað upp í kaup á nýrri ferju.
Karen Nótt Halldórsdóttir, formaður hverfisráðs Grímseyjar, segir að ferjan Sæfari hafi verið í notkun í 15 ár en til stóð þegar hún kom fyrst að hún yrði í notkun í 10 ár. „Sæfari hentar mjög illa til farþegaflutninga og það er alltaf að koma betur og betur í ljós eftir því sem fjöldi farþega eykst í kjölfar aukins ferðamannastraums til Grímseyjar,“ segir Karen Nótt.
Undanfarin ár hafa æ fleiri ferðamenn, bæði Íslendingar og útlendingar, lagt leið sína til Grímseyjar. Útlit er fyrir að áfram verði straumur ferðamanna út í eyju og þurfi ferjan að henta þeim aukna fjölda sem þangað vill fara. Fyrr eða síðar þurfi að huga að stærra og hentugra skipi, bæði fyrir farþega og bíla.