Samdráttur í kjötsölu nam 9,1% í sumar og 4% að meðaltali yfir 12 mánaða tímabil
Miklar sveiflur voru í sölu á kjöti frá afurðastöðvum í september og nam samdrátturinn þá að meðaltali 5,7%. Á fjórum mánuðum, þ.e. frá júníbyrjun til septemberloka, nam samdrátturinn 9,1% og 4% á tólf mánaða tímabili. Virðist sem COVID19 faraldurinn sé að hafa þarna áhrif.
Samkvæmt tölum frá atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytinu, sem hefur nú umsjón með slíkri gagnasöfnun sem áður var í höndum MAST, nam heildarkjötsalan frá afurðastöðvum í september rúmum 2.489 tonnum. Var þá 3,5% samdráttur í sölu á alifuglakjöti og 25,8% samdráttur í sölu á kindakjöti. Hafa ber í huga að þótt samdrátturinn í kindakjötsölunni hafi verið hlutfallslega mikill í september samsvarar hann ekki nema ríflega 156 tonnum af um 6.600 tonna árssölu. Í öðrum kjöttegundum var aukning í sölu frá afurðastöðvum sem nam 14,7% í hrossakjöti, 9,4% í svínakjöti og 8,7% í nautgripakjöti.
Samdráttur í allri kjötsölu á 12 mánaða tímabili
Þegar litið er til 12 mánaða tímabils var 4% meðaltalssamdráttur í sölu á öllum kjöttegundum, en heildarsalan þessa 12 mánuði var tæp 27.827 tonn. Mestur var samdrátturinn í sölu á alifuglakjöti, eða um 6,3% og um 5,6% í sölu á kindakjöti. Þá var 1,8% samdráttur í sölu á nautgripakjöti, 1% samdráttur í sölu á hrossakjöti og 1% samdráttur í sölu á svínakjöti.
Minni kjötsala í COVID19 og hruni í komu ferðamanna
Ef horft er til sumartímans, þ.e. júní, júlí, ágúst og september, sést að samdráttur í hlutfallslegri sölu frá afurðastöðvum var þá mun meiri en að meðaltali yfir 12 mánaða tímabil. Var samdrátturinn þannig í september 4% og 9,1% á síðasta ársfjórðungi. Virðist þetta vera í samræmi við þá þróun sem hefur verið í Evrópu í COVID19 faraldrinum. Þar var greinilegur samdráttur í sölu á ýmsum matvörum vegna lokunar veitingastaða. Líklegt má telja að á Íslandi spili auk þess stórt hlutverk í sölusamdrætti á kjöti, hrun í komu ferðamanna til landsins. Nýjustu fréttir frá Noregi herma að vegna lokunar veitingastaða í Evrópu hafi líka orðið samdráttur í sölu á eldislaxi með tilheyrandi verðfalli á afurðum.