Samningarnir marka nýja sókn í landbúnaði
Fulltrúar bænda og ríkisins skrifuðu undir nýja búvörusamninga 19. febrúar sl. Þeir marka tímamót í landbúnaði og upphafið að nýrri sókn að mati landbúnaðarráðherra og forsvarsmanna bænda.
Samningarnir fjórir eru allir prentaðir í heild sinni í nýju tölublaði ásamt fleiri upplýsingum á bls. 29–36. Sindri Sigurgeirsson, formaður BÍ, fjallar um áhrif samninganna á bls. 6.
Um er að ræða rammasamning um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins og samninga um starfsskilyrði garðyrkju, nautgriparæktar og sauðfjárræktar á árunum 2017 til 2026.
Samningarnir eru til 10 ára en gert er ráð fyrir að þeir verði teknir til endurskoðunar tvisvar á samningstímanum, árin 2019 og 2023. Rökin fyrir löngum gildistíma eru þau að verið er að ráðast í umfangsmiklar breytingar.
Meginmarkmið samninganna er að efla íslenskan landbúnað og skapa landbúnaðinum sem fjölbreyttust sóknarfæri. Samningunum er ætlað að auka verðmætasköpun í landbúnaði og nýta sem best tækifærin sem felast í sveitum landsins í þágu bænda, neytenda og samfélagsins alls. Til þess að ná þessum markmiðum eru í samningum fjölbreytt atriði sem ætlað er að ýta undir framþróun og nýsköpun í landbúnaði.