Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 mánaða.
MAST mun eftirleiðis framfylgja ákvæði í lögum EFTA um að ekki sé heimilt að endurnýta einstaklingsmerki í sauðfé, geitur og nautgripi.
MAST mun eftirleiðis framfylgja ákvæði í lögum EFTA um að ekki sé heimilt að endurnýta einstaklingsmerki í sauðfé, geitur og nautgripi.
Mynd / Skjáskot
Fréttir 30. janúar 2024

Segir kostnað og óhagræði af banninu

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Bændur mega ekki endurnota eyrnamerki/örmerki sín í sauðfé, geitur og nautgripi eftir 1. júlí í ár samkvæmt ákvörðun Matvælastofnunar, á grundvelli EFTA-löggjafar.

Komi endurnýtt eyrnamerki á sauðfé, geitum og nautgripum inn í sláturtíð haustið 2024 verður þeim, skv. ákvörðun Matvælastofnunar (MAST), fargað í sláturhúsi. Sé um nautgrip að ræða verður skepnunni fargað og kjötinu eytt, en í tilfelli sauðkindar eða geitar verður merkinu eytt en dýrið samþykkt til slátrunar.

Sérreglugerð er um merkingar á svínum og þarf ekki að merkja grís sem ekki fer af búi nema beint í sláturhús og/eða eftir ákveðinn aldur. Magnús Steingrímsson, bóndi á Stað í Steingrímsfirði, er einn þeirra bænda sem spyr hvers vegna ekki verði hægt að nota sömu merkin aftur eftir að þau hafa verið þvegin og sótthreinsuð. Hann fékk að sögn sl. haust, fyrir sláturtíð 2023, bréf frá MAST þess efnis að ekki megi nota sömu örmerki næsta haust eins og verið hefur.

„Þetta er heldur bagalegt því þessi merki eru dýr, og örmerkjalesarinn líka, en notagildið og tímasparnaður er mikil hagræðing fyrir bændur. Mér finnst engin umræða um þessi mál vera til staðar,“ segir Magnús og spyr hvað Matvælastofnun ætli að gera við örmerki í lambfé í vor.

Taki þátt í þróun og aðlögun

Í maí 2023 birti MAST tilkynningu á vef stofnunarinnar þar sem áréttað er að „ekki er heimilt að endurnýta eyrnamerki í eyru á sauðfé, geitum og nautgripum. Þetta á við öll eyrnamerki, í fullorðna gripi, ungviði (þ.m.t. lömb) og örmerki. Varðandi sauðfé og geitur verður þessu ákvæði fylgt að fullu frá 1. júlí 2024. Stofnunin hyggst taka þátt í þróun og aðlögun á notkun örmerkja í sauðfé, ásamt hagaðilum“, segir í tilkynningunni.

Magnús segir koma fram í bréfi MAST til bænda sl. haust að stofnunin hafi upplýst sláturleyfishafa um að óheimilt sé að endurnýta örmerki sem send verði aftur til bænda eftir slátrun. Óski bóndi eftir að fá örmerki sín send heim það haust muni þvottur og sótthreinsun á merkjunum fara fram, eins og fyrri ár, áður en bóndi fær send merkin heim. Komi þau örmerki hins vegar inn í sláturtíð 2024 verði þeim fargað í sláturhúsi.

„Ísland er hluti af EES samningnum og okkur er þess vegna skylt að innleiða löggjöf EFTA,“ segir Freydís Dana Sigurðardóttir, fagsviðsstjóri kjötafurða hjá MAST. Í reglugerð 916/2012, innleidd með tilskipun 2008/71/EB, komi fram að ekki sé heimilt að endurnýta einstaklingsmerki.

„Það er töluvert langt síðan Ísland innleiddi þessa reglugerð en Matvælastofnun hefur hingað til ekki fylgt þessu ákvæði eftir sem skyldi og fékk ábendingu frá úttektaraðilum ESA um að það beri að fylgja ákvæðinu. Það var ítrekað á síðasta ári frá ESA og mun stofnunin nú fylgja ákvæðinu og þess vegna er breytingin tilkomin,“ segir Freydís Dana jafnframt.

Hún segir að þar sem MAST geri sér grein fyrir að þetta sé dýrt og mengandi ákvæði hafi stofnunin boðið að leggja til vinnu til að reyna að vega á móti þessum slæmu áhrifum. „Með þessu á ég við að stofnunin hefur tekið þátt í og hvatt til að þróuð verði ásættanleg lausn sem fylgi reglugerð og sem getur verið notenda- og umhverfisvæn,“ útskýrir hún.

„Það kemur einnig fram að það beri að eyðileggja merki þannig að einstaklingsmerkið og örmerkið séu gerð óhæf til endurnýtingar í búfé, áður en merkið yfirgefur sláturhús. Eftir það væri hægt að skila því til endurnýtingar á plastefninu en það er á ábyrgð hvers sláturhúss fyrir sig. Stofnunin gæti mælst til þess að eftir rétta meðhöndlun á merkjunum verði þau send til endurnýtingar á plastefninu,“ segir Freydís Dana enn fremur. Um það að bændur gátu óskað eftir að fá örmerki sín send heim frá sláturleyfishafa, þvegin og sótthreinsuð, eftir sláturtíð í fyrra en megi þrátt fyrir það ekki nota þau aftur, segir Freydís Dana að Bændasamtök Íslands hafi farið fram á að sauðfjárbændur fengju að taka örmerki með heim úr sláturhúsum síðastliðið haust og hafi stofnunin þá veitt undanþágu.

Viðbótarkostnaður fyrir bændur

„Ég er ekki einn um að nota örmerki, notkun hefur verið vaxandi hjá bændum enda tæknin góð,“ segir Magnús. „Til dæmis koma ekki upp villur í bókhaldi sem ætti nú að vera kostur fyrir Fjárvís og rekjanleika, sé hann til staðar.“

Þurfi hann að kaupa ný merki á hverju ári í öll lömb sé kostnaðurinn 192 þúsund krónur, eða 600 stykki, hvert á 320 kr. Fengi hann hins vegar að taka merki heim úr sláturhúsi myndi kostnaður við ný merki, keypt inn í talnaröðina, aðeins vera 32 þúsund krónur, eða 100 stykki á 320 kr. Þannig sé um allmikinn viðbótarkostnað að ræða.

Hann segist ekki vita annað en að fjárbílar séu sótthreinsaðir milli ferða við að sækja sláturfé. „Eru þá kannski fjárbílarnir einnota eins og merkin?“ spyr hann gáttaður og hefur líka áhyggjur af því hvað verði um öll plastmerkin sem hent sé í sláturhúsum. „Eru þau bara grafin eða skila þau sér í flokkunarstöð?“ spyr Magnús jafnframt.

Sama sláturhús sektað þrisvar
Fréttir 17. maí 2024

Sama sláturhús sektað þrisvar

Matvælastofnun (MAST) hefur þrisvar sinnum á þessu ári lagt stjórnvaldssekt á sv...

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna
Fréttir 17. maí 2024

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna

Hagnaður Kaupfélags Skagfirðinga af rekstri félagsins á árinu 2023 reyndist rúml...

Vorverkum bænda seinkar
Fréttir 16. maí 2024

Vorverkum bænda seinkar

Veturinn sem leið var sá kaldasti frá vetrinum 1998 til 1999, samkvæmt tíðindum ...

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára
Fréttir 16. maí 2024

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára

Landsáætlun um riðuveikilaust Ísland hefur verið sett í samráðsgátt stjórnvalda.

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði
Fréttir 16. maí 2024

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði

Grunnur undir kornþurrkstöð í Eyjafirði er nú að taka á sig mynd í landi Laugala...

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu
Fréttir 16. maí 2024

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu

Kúabændur á starfssvæði Auðhumlu mega gera ráð fyrir arðgreiðslu frá samstæðunni...

Vetnisknúin skip í smíðum
Fréttir 15. maí 2024

Vetnisknúin skip í smíðum

Smíði er hafin á tveimur vetnis­ skipum á vegum Samskipa. Áætlað er að þeim verð...

Drómasýki í hrossum
Fréttir 13. maí 2024

Drómasýki í hrossum

Drómasýki er vaxandi vandamál í íslenskri hrossarækt. Til stendur að stofna star...