Sex milljónir til skógarbænda á Suðurlandi
Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson
Nýlega var undirritaður samningur á milli Félags skógareigenda á Suðurlandi og Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) um sex milljóna króna styrk til félagsins.
Peningurinn verður notaður til að kanna, kortleggja og skrá hugsanlegar afurðir úr skógum á Suðurlandi, markaðsaðstæður og sölumöguleika afurða. Fjármagnið kemur úr Sóknaráætlun Suðurlands.
„Það er orðið brýnt að skapa grundvöll fyrir úrvinnslu þess grisjunarviðar og bolviðar sem nú þegar fellur til og mun falla til um ókomna tíð. Það er komið að því að byggja upp öfluga atvinnugrein, skógariðnaðar á Suðurlandi. Með samhentu átaki er vonast til að okkur skógarbændum á Suðurlandi takist það,“ segir María E. Ingvadóttir, formaður félagsins, og bætti því við að það ætti líka að vera markmið skógarbænda að þeir fái góðar tekjur af skógræktinni, skógarbændur eigi að geta lifað góðu lífi af tekjum af jörð sinni.