Sextán gripir með T137 drepnir í Miðfirði
Eftir að hafa fengið niðurstöður arfgerðargreiningar á öllum fjárstofni sínum, segir Elín Anna Skúladóttir, bóndi á Bergsstöðum í Miðfirði, sárt að mikill fjöldi gripa með mótstöðu gegn riðu hafi verið felldir.
Tekin voru arfgerðarsýni úr 669 gripum þegar fjárstofninn á Bergstöðum var skorinn niður vegna riðu fyrr á árinu. Niðurstöður úr þeim skiluðu sér til bændanna á Bergsstöðum 2. september síðastliðinn. Þar kom í ljós að 139 gripir voru með arfgerðir sem veita mögulega mótstöðu gegn riðu. Af þeim voru 9 kindur með T137 breytileikann, sem er talinn eitt dýrmætasta vopnið í baráttunni gegn riðu. Á Urriðaá, þar sem fé var jafnframt skorið niður, fundist sjö gripir með T137 og tugir gripa með aðrar mögulega verndandi arfgerðir.
Elín segir hræðilegt að sjá hversu mörgum dýrmætum gripum var slátrað og niðurstöðurnar séu mikið áfall. Þau á Bergsstöðum höfðu barist fyrir því að lambhrútar, gemlingar og kaupafé yrði ekki skorið niður, en fengu það ekki í gegn. Fulltrúar Matvælastofnunar (MAST) höfðu sagt bændunum að of stutt væri í sauðburð og því þyrfti að skera allt fé niður hið snarasta. Þau létu undan þrýstingi fagfólksins, en Elín segist sjá eftir því núna.
Óþarfi að drepa hrútana
Rökin um að öllu þyrfti að vera slátrað fyrir sauðburð segir Elín alls ekki geta átt við um hrútana, enda voru þeir ekki að fara að bera og hægt er að geyma þá úti, þar sem smitálag er lítið. Jafnframt telji hún að einhverjar leiðir hefðu verið færar til að þyrma gemlingunum. Arfgerðagreiningarnar sýni að fimmtungur fjárstofnsins hefði verið ónæmur fyrir riðusmiti og féð hafi verið skorið niður í of miklum flýti. „Það hefði verið hægt að anda inn og út,“ segir Elín
Eftir að hafa skoðað niðurstöður arfgerðargreiningarinnar segir Elín að arfgerðir sem veita mögulega mótstöðu gegn riðu hafi verið dreifðar um hjörðina. Þetta hafi ekki afmarkast við lítinn ættlegg. Bændurnir á Bergsstöðum hafi selt hrúta á marga bæi í gegnum tíðina og segir Elín núna unnið að arfgerðagreiningu afkomenda þeirra til að sjá hvort þeir hafi dreift verndandi arfgerðum. Hún segir tvo hrúta sem þau seldu nýlega hafa verið drepna eftir að riða kom upp á bænum, sem síðar kom í ljós að báru mótstöðu gegn riðu, annar með T137 breytileikann.
Einstaklega hátt hlutfall T137
Samkvæmt Karólínu Elísabetardóttur í Hvammshlíð, frumkvöðli í riðurannsóknum á Íslandi, var fjárstofninn á Bergsstöðum með sérlega stórt hlutfall T137 arfgerðarinnar miðað við fjárstofninn á landsvísu. Á Bergsstöðum var þetta 1,4 prósent, á meðan fjárstofninn á landinu öllu er einungis með örfá prómill. Karólína nefnir í því samhengi tölur frá RML þar sem arfgerðagreiningar um 30 þúsund kinda frá öllu landinu voru skoðaðar, en einungis 83 í þeim hópi hafi verið með T137. Hingað til hafi arfgerðin einungis verið þekkt í átta hjörðum.
Karólína bætir við að þrátt fyrir það mikla smitálag sem ætla má að hafi verið hjá sauðfénu á Bergsstöðum, þá fannst enginn gripur með riðu sem var með stökkbreytingu á príongeni. Allar 52 ærnar á Bergsstöðum sem veiktust voru með svokallaða ARQ/ARQ arfgerð, sem Karólína segir að sé greinilega mjög næm fyrir riðusmiti. Þetta styrki enn stoðum undir að nokkrar arfgerðir gagnist í baráttunni gegn riðu, ekki síst T137 en líklega fleiri. Þetta sé í fullu samræmi við niðurstöður næmisprófanna franska vísindamannsins Vincent Béringue, sem eru yfirstandandi síðan í vetur.
Reglugerðirnar manngerðar
„Það sem ég vil undirstrika með Bergsstaði er að það var greinilega mjög dýrmætur stofn og ótrúlega sorglegt að þessar kindur fóru,“ segir Karólína. Aðspurð hvort hún hefði séð aðra leið til að bregðast við riðusmitunum á Bergsstöðum í ljósi gildandi lagaumhverfis, svarar Karólína að reglugerðirnar séu manngerðar og því sé alltaf hægt að breyta þeim í ljósi nýrrar þekkingar. Óheppilegt hafi verið hversu stutt var í sauðburð þegar riða greindist þannig að MAST hafi verið undir tímapressu til að taka ákvörðun. Karólína er þó bjartsýn á að þessir hlutir fari batnandi í náinni framtíð.
Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir hjá MAST, segist hafa óskað eftir tillögum að bættum viðbrögðum við uppkomu riðuveiki frá deild sauðfjárbænda hjá Bændasamtökum Íslands, í ljósi þess að byrjað sé að rækta gegn riðu. Þær tillögur séu komnar og er MAST að rýna þær, ásamt sérfræðingum skipuðum af matvælaráðuneytinu. Sá hópur eigi að ljúka störfum fyrir 1. nóvember og leggja tillögurnar fyrir ráðherra, sem geti þá breytt reglugerðum eða lagt til breytingar á lögum sé þess þörf.
Það séu tvenns konar aðgerðir mögulegar í baráttunni gegn riðu. Í fyrsta lagi sé að fjarlægja smitefnin með niðurskurði svo þau berist ekki víðar eða endursmiti stofninn. Í öðru lagi sé að rækta stofn sem beri verndandi, eða hugsanlega verndandi arfgerðir. Sigurborg geti ekki svarað því á þessari stundu hvor leiðin verði farin og hvernig þær verði útfærðar. Rétt sé þó að endurskoða þá vinnureglu að farga öllum skepnum þegar riða greinist á bæ. „Við erum sem betur fer komin með mun sterkari verkfæri í verkfærakistuna til að vinna gegn þessum sjúkdómi.“
„Riðuveikilaust Ísland“
Sigurborg vill ekki segja að það hafi verið mistök að farga fénu í Miðfirði. Staðan hafi verið sú að búið var að greina riðuveiki á bænum og sauðburður var yfirvofandi. „Allir vefir sem koma nálægt sauðburði, það er að segja hildir og legvatn, eru með tíuþúsundfalt meira smitefni en aðrir líkamsvessar, eins og saur. Það var það sem við vorum að reyna að koma í veg fyrir, að smitefnið, sem er í svo ofboðslega miklu magni, dreifði sér.
Sigurborg fagnar því hversu góður skriður er kominn á þessi mál þannig að hægt verði að horfa bjartari augum til framtíðar. „Riðuveikilaust Ísland – það er framtíðarsýnin.“