Sigga á Grund hefur skorið út íslenska hestinn í öllum sínum gangtegundum
Sigríður Jóna Kristjánsdóttir, eða Sigga á Grund eins og hún er oftast kölluð, hefur skorið út íslenska hestinn í öllum sínum gangtegundum og þykja hestarnir mikil listasmíð. Eru þeir nú til sýnis í Tré og list í Flóahreppi.
„Ég er mjög lukkuleg og ánægð með að vera loksins búin að þessu en þetta hefur tekið mig mörg hundruð klukkustundir,“ segir Sigga á Grund, útskurðarmeistari í Flóanum.
Sigga á Grund með íslenska hestinn sem hún hefur skorið út í öllum sínum fimm gangtegundum.
Mjög sátt við útkomuna
„Þeir sem hafa séð hestana í Tré og list hér í Flóahreppi eru mjög ánægðir og hafa hrósað mér mikið fyrir verkið. Þetta var virkilega skemmtilegt og ég er mjög sátt við útkomuna.“
Síðasta gangtegundin, sem Sigga skar út var töltið. Allir hestarnir eru skornir meira og minna út í Linditré. Hestarnir eru nú til sýnis í Tré og list en fara svo aftur heim á Grund.
Ekki til sölu
„Nei, nei, þeir eru ekki falir, ég ætla að eiga þá og njóta þess að horfa á þá heima,“ segir Sigga og skellihlær.