Markmiðið er að farið verði að líta á dýraheilsu á heildrænum grunni.
Markmiðið er að farið verði að líta á dýraheilsu á heildrænum grunni.
Mynd / smh
Fréttir 30. ágúst 2024

Sigurborg mótar nýja heildarstefnu í dýraheilsumálum

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Sigurborg Daðadóttir fer úr embætti yfirdýralæknis og tekur við nýju starfi í matvælaráðuneytinu á sviði dýraheilsu þar sem mótuð verður heildarstefna.

Sigurborg Daðadóttir. Mynd / LbhÍ

Embætti yfirdýralæknis var auglýst laust til umsóknar fyrir skemmstu og sóttu þau Brigitte Brugger sérgreinadýralæknir, Egill Þorri Steingrímsson dýralæknir, Vigdís Tryggvadóttir sérgreinadýralæknir og Þóra Jóhanna Jónasdóttir sérgreinadýralæknir um stöðuna. Málið er nú í ráðningarferli ferli hjá matvælaráðuneytinu.

Átti eftir þrjú og hálft ár

Hæfnisnefnd skipuð Kolbeini Árnasyni, skrifstofustjóra á skrifstofu matvæla í matvælaráðuneytinu, Báru Eyfjörð Heimisdóttur, formanni dýralæknafélags Íslands, og Auði Bjarnadóttur, ráðgjafa og eiganda ráðningarstofunnar Vinnvinn, meta umsóknirnar og síðan skipar matvælaráðherra í embættið til fimm ára.

„Ég er skipuð til fimm ára í senn og átti reyndar þrjú og hálft ár eftir, en óskaði eftir að fá að hætta á þessum tímapunkti. Bæði vegna þess að starf yfirdýralæknis er afar erilsamt og því fylgir mikið álag, auk þess sem mér bauðst nýtt starf í matvælaráðuneytinu þar sem ég get áfram unnið að heilbrigði og velferð dýra. Bjarkey [Olsen Gunnarsdóttir] ráðherra vill gera þessum málaflokki góð skil og vinna honum framgang, meðal annars með því að fara í heildarendurskoðun á dýraheilbrigðislöggjöfinni,“ segir Sigurborg.

Dýraheilsa á heildrænum grunni

„Markmiðið er að farið verði að líta á dýraheilsu á heildrænum grunni. Dýraheilsa getur falið svo margt í sér; sjúkdóma af ýmsu tagi, bæði líkamlega en einnig andlega líðan. Dýravelferðarmálin voru sett á dagskrá fyrir um tíu árum síðan, með nýjum dýravelferðarlögum, og flestir orðnir mjög meðvitaðir um þau mál en sumt sem varðar heilbrigði dýra hefur setið á hakanum. Bjarkey vill lyfta þeim hluta málaflokksins upp samhliða betrumbótum á því sem hefur áunnist á öðrum sviðum og móta heildstæða stefnu,“ útskýrir Sigurborg enn fremur.

Hún segir að gert sé ráð fyrir að þessi vinna verði unnin á skrifstofu sjálfbærni og dýraheilsu í ráðuneytinu, unnið verður í teymi sem hún mun leiða en meðlimir teymisins koma úr öllum skrifstofum ráðuneytisins.

Höfum undanþágu fyrir búfé

„Löggjöf sem fjallar um heilbrigði dýra eru í raun þrenn lög; dýrasjúkdómalögin, lög um innflutning dýra og lög um dýralækna og heilbrigðisþjónusta við dýr og eru þau um 30 ára,“ heldur Sigurborg áfram. „Það hefur heilmikið breyst á þessum tíma og það var því alveg orðið tímabært að taka þennan málaflokk til heildstæðrar endurskoðunar.

Frá því að við innleiddum dýravelferðarlögin fyrir tíu árum hefur Evrópusambandið sett ný dýraheilsulög „Animal Health Law“, sem er regnhlífarlöggjöf með mörgum afleiddum gerðum út frá henni. Ísland hefur innleitt þessa löggjöf en þó þannig að hún gildir aðeins um lagareldisdýr, enda var okkur það skylt, en ekki fyrir landeldisdýr eða búfé þar sem það er undanskilið í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Við þurfum því að aðlaga okkur að nútímanum með þessari heildarendurskoðun sem fram undan er. Þetta er gríðarlega mikilvægt vegna þess að öll viðskipti með dýr og dýraafurðir á milli landa grundvallast á gagnkvæmu trausti á stjórnskipulagi og löggjöf. Evrópumarkaður er mikilvægur fyrir Ísland, sama eða sambærileg löggjöf og hjá Evrópusambandinu liðkar fyrir framkvæmd viðskipta í Evrópu og reyndar um allan heim.

Þó Íslandi sé ekki skylt að taka upp dýraheilsulög Evrópusambandsins varðandi búfé er skynsamlegt að gaumgæfa það vel, í öllu falli ættum við að taka mið af henni við heildarendurskoðunina.“

Stór verkefni á starfstímanum

Sigurborg hefur gegnt embætti yfirdýralæknis frá 1. febrúar 2013 og var fyrsta konan sem er skipuð í embættið. Hún lauk dýralæknanámi sínu frá Tieräztlich Hochschule í Hannover í Þýskalandi, auk þess sem hún menntaði sig í rekstrar- og viðskiptafræði frá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands. Áður en hún tók við embættinu starfaði hún hjá Matvælastofnun frá 2008 sem sérgreinadýralæknir alifuglasjúkdóma, gæðastjóri og forstöðumaður áhættumats- og gæðastjórnunarsviðs.

Eitt af fyrstu stóru verkefnum hennar var innleiðing nýrrar dýravelferðarlöggjafar, sem tók gildi um ári eftir að hún tók við embættinu. „Já, held það sé óhætt að segja að það sé með stærstu verkefnunum á mínum starfstíma,“ svarar hún. „Þar var auðvitað lyft grettistaki varðandi aðbúnað dýra og meðferð og gríðarleg breyting hefur átt sér stað í þessum málaflokki til batnaðar. Má þar nefna, gelding grísa án deyfingar er aflögð, búrahald hænsna er aflagt, lausaganga og útivist mjólkurkúa almenn, lausaganga gyltna almenn, beislisstangir með tunguboga aflagðar og margt fleira.

Ég er svo lánsöm að hafa setið í nefndinni sem samdi frumvarpið um velferð dýra, sem varð svo að lögum.

Svo er hitt stóra málið breytingin sem hefur orðið á allra síðustu árum með nýrri nálgun í baráttunni gegn riðu í sauðfé, þar sem í raun var sett sameiginleg stefna stjórnvalda og bænda með nýlegri útgáfu landsáætlunar um útrýmingu á sauðfjárriðu. Verkefni sem einnig er óhætt að segja að hafi verið risastökk til framfara,“ segir Sigurborg og nefnir einnig verkefni um sýklalyfjaónæmi – sem hafi á allra síðustu árum orðið eitt alvarlegasta heilbrigðisvandamál samtímans.

Sjúkdómar berast á milli manna og dýra

Að sögn Sigurborgar hafa öll þessi mál leitt til þess að við skiljum betur að það verður að nálgast allar þessar hliðar á dýraheilsu heildstætt.

„Alþjóðastofnanir hafa hvatt þjóðir heims til að taka upp hugtakið „One health“ og nálgast stjórnskipulag og löggjöf út frá því, vegna þess að heilsa manna verður ekki aðskilin frá heilsu dýra og umhverfis og var það viðhaft í nýlegri aðgerðaáætlun gegn sýklalyfjaónæmi hér á landi. Í því samhengi má nefna að um 60 prósent af þeim smitsjúkdómum sem koma upp í mönnum eru súnur, það eru sjúkdómar sem berast á milli manna og dýra.“

Slæmt ástand á kolsýruvinnslu
Fréttir 30. ágúst 2024

Slæmt ástand á kolsýruvinnslu

Ástand kolsýruuppspretta á Hæðarenda í Grímsnesi er ekki í lagi að mati eiganda ...

Sigurborg mótar nýja heildarstefnu í dýraheilsumálum
Fréttir 30. ágúst 2024

Sigurborg mótar nýja heildarstefnu í dýraheilsumálum

Sigurborg Daðadóttir fer úr embætti yfirdýralæknis og tekur við nýju starfi í ma...

Reiknað afurðaverð hækkar um 0,67%
Fréttir 30. ágúst 2024

Reiknað afurðaverð hækkar um 0,67%

Sláturfélag Suðurlands (SS) hækkaði í síðustu viku afurðaverð til sauðfjárbænda....

Útlit fyrir sæmilega kartöfluuppskeru
Fréttir 29. ágúst 2024

Útlit fyrir sæmilega kartöfluuppskeru

Í Þykkvabænum er útlit fyrir sæmilega kartöfluuppskeru þegar á heildina er litið...

Heildarstefna í dýraheilbrigðismálum
Fréttir 29. ágúst 2024

Heildarstefna í dýraheilbrigðismálum

Sigurborg Daðadóttir, fráfarandi yfirdýralæknir, hefur tekið við starfi í matvæl...

Kyngreining sæðis hefst í haust
Fréttir 28. ágúst 2024

Kyngreining sæðis hefst í haust

Nautastöð Bændasamtaka Íslands (NBÍ) hefur gengið frá samningum við bandaríska f...

Ullarvika á Suðurlandi
Fréttir 28. ágúst 2024

Ullarvika á Suðurlandi

Ullarvika á Suðurlandi verður haldin í þriðja sinn dagana 29. september til 5. o...

Þingað um þörunga
Fréttir 28. ágúst 2024

Þingað um þörunga

Alþjóðleg þörungaráðstefna, Arctic Algea, verður haldin í Reykjavík 4. og 5. sep...