SKE skoðar útboð á tollum
Samkeppniseftirlitið (SKE) ætlar að kynna sér niðurstöður útboðs á tollkvótum vegna innflutnings á landbúnaðarvörum frá Evrópusambandinu.
Niðurstöður síðasta útboðs sýna fram á hrun í eftirspurn og mikla lækkun á jafnvægisverði í nokkrum tollflokkum, öfugt við þróun markaða og fyrri útboð. Munurinn var áberandi í nautakjöti en þar reyndist jafnvægisverð 1 króna fyrir hvert innflutt kíló en var 550 og 690 kr/kg í fyrra.
Umfjöllun um niðurstöður útboðsins gaf Samkeppniseftirlitinu tilefni til að skoða málið í samræmi við málsmeðferðarreglur stofnunarinnar. Samkvæmt svari frá stofnuninni mun hún kynna sér málið en ekki liggja fyrir neinar ákvarðanir um athuganir á þeim atvikum sem vakin var athygli á í umfjöllun Bændablaðsins.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnu rekenda, sagði í hádegisfréttum RÚV að töluverðar birgðir hafi verið til staðar í landinu fyrir útboðið. Félagið heldur þó engar skrár um birgðastöðu.
Aðspurður segist Ólafur hafa orð innflytjenda fyrir því að í lok árs hafi talsverðar birgðir verið til vegna minni eftirspurnar á markaðnum.