Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Stjórn Votlendissjóðs skipa Magnús Jóhannesson, Ingunn Agnes Kro, Sveinn Ingvarsson, Helga Bjarnadóttir, Þórunn Inga Ingjaldsdóttir, Sveinn Runólfsson, Hjálmar Kristjánsson, Ólafur Eggertsson og Þröstur Ólafsson. Á myndina vantar Rannveigu Grétarsdóttur.
Stjórn Votlendissjóðs skipa Magnús Jóhannesson, Ingunn Agnes Kro, Sveinn Ingvarsson, Helga Bjarnadóttir, Þórunn Inga Ingjaldsdóttir, Sveinn Runólfsson, Hjálmar Kristjánsson, Ólafur Eggertsson og Þröstur Ólafsson. Á myndina vantar Rannveigu Grétarsdóttur.
Mynd / Votlendissjóður
Fréttir 31. júlí 2020

Skiptar skoðanir um endurheimt votlendis

Höfundur: Erla Gunnarsdóttir
Talsverður styr hefur staðið um starfsemi Votlendissjóðs og endurheimt votlendis og eru skiptar skoðanir á því í hvað skattpeningum landsmanna er varið. Bændur, sem og aðrir, skiptast í tvo hópa yfir því hver raunverulegur ávinningur sé við endurheimt votlendis og telja sumir að horfa eigi til annarra þátta við kolefnisbindingu en að moka ofan í skurði sem grafnir voru fyrr á tímum. 
 
Eftir fréttaflutning Stöðvar 2 á dögunum, þar sem viðtal var við bændurna á Syðri-Fljótum í Meðallandi, komu fram efasemdir um þörf þess að endurheimta vot­lendi og um jákvæð áhrif þess til að vinna gegn loftslagsvandanum. Í kjölfarið sendi stjórn Votlendissjóðs frá sér fréttatilkynningu til að koma upplýsingum um grundvöll sjóðsins og starfsemi á framfæri. Þar kom fram að störf Votlendissjóðsins byggðu á vinnu sérfræðinga Háskóla Íslands, Landbúnaðarháskólans, Land­græðsl­unnar og annarra sem rann­sakað hafa kolefnisbúskap og losun koldíoxíðs frá framræstu votlendi í fjölda ára. 
 
„Við erum að falast eftir samstarfi við landeigendur sem eru með framræst land sem ekki er nýtt til landbúnaðar. Land sem hefur jafnvel aldrei verið nýtt til landbúnaðar eftir að það var framræst,“ segir Einar Bárðarson, framkvæmdastjóri Votlendissjóðs. Myndin sýnir vinnu við endurheimt votlendis með skurðafyllingu við Bessastaði á Álftanesi á síðasta ári. Mynd / Votlendissjóður
 
Nota viðurkenndar aðferðir
 
Í tilkynningu sjóðsins sagði að hann hefði endurheimt votlendi á fjórum jörðum árið 2019 í samvinnu við Landgræðsluna. Í það heila voru endurheimtir 72 hektarar, sem er stöðvun koldíoxíðslosunar sem nemur 1.440 tonnum. Til glöggvunar er það sambærilegt við  að taka 720 bíla úr umferð á ári hverju sem líður.
 
Rannsóknir sýna að framræst votlendi orsakar um 60% losunar koldíoxíðs á Íslandi. Inni í því hlutfalli er ekki tekið tillit til alþjóðlegs flugs yfir Íslandi en allar aðrar samgöngur, fiskveiðar og iðnaður eru þar með talin. Rannsóknir sérfræðinga Landgræðslunnar og háskólasamfélagsins gefa til kynna að losun koldíoxíðs úr framræstu votlendi sé að meðaltali um 19,5 tonn á hektara hér á landi. Það eru tölur sem eru í samræmi við hliðstæðar rannsóknir á hinum Norðurlöndunum.
 
Skurðakerfi landsins vegna framræsts votlendis er yfir þrjátíu þúsund kílómetrar að lengd en meira en helmingur lands í kringum þá er ekki nýtt í dag til landbúnaðar. Votlendissjóðurinn var stofnaður fyrst og fremst til að endurheimta framræst land sem ekki er nýtt til land­búnaðar. Aðferðin er viðurkennd aðgerð í baráttunni við loftlagsbreytingarnar af Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna (UNFCC).
 
Þá bendir sjóðurinn á að rannsóknir Hafs og vatns, áður Veiðimálastofnun og Hafrann­sóknastofnun, sýni að endurheimt votlendis geti í mörgum tilfellum bætt vatnsgæði í ám og vötnum og dregið úr flóðahættu í aftaka úrkomu.
 
Þörf á samstöðu
 
Einar Bárðarson er framkvæmda­stjóri Votlendissjóðs. „Það sem týnist því miður í umræðunni þegar kemur að endurheimt votlendis er það sem öllu máli skiptir í okkar vinnu og það er það að við erum að falast eftir samstarfi við landeigendur sem eru með framræst land sem ekki er nýtt til landbúnaðar. Land sem hefur jafnvel aldrei verið nýtt til landbúnaðar eftir að það var framræst. Við erum sjálfseignarsjóður, fjármagnaður  af samfélagslega ábyrgum fyrirtækjum og einstaklingum og vinnum að  endurheimt með aðstoð og eftirliti Landgræðslunnar. Þannig er það ekki til umræðu að falast eftir framræstu landi  í notkun. Það er það mikið af framræstu landi sem ekki er í notkun til landbúnaðar að við erum langt frá öllu slíku. Þess utan hefur Votlendissjóður engar slíkar heimildir og sækist ekki eftir þeim. Í þessum málum er þörf á samstöðu,“ segir Einar. 
 
„Fyrir utan það að vera hraðvirk­asta aðgerð sem við getum hafið í þágu loftslagsmála þá fylgir þessu verulegur ábati í formi líffræðilegs fjölbreytileika, áður líflítil tún fyllast af fallegum fuglum og vatnsgæði veiðivatna og veiðiáa í kringum endurheimt votlendi aukast. Þannig ættu allir að geta verið stoltir þátttakendur í endurheimt votlendis sama hvaða skoðun þeir hafa á loftslagsmálum heimsins. Það er hins vegar mikið fagnaðarefni hversu meðvitaðir og velviljaðir landeigendur um allt land eru til þess að vinna að endurheimt votlendis með sjóðnum. Þá er stuðningur almennings og einkarekinna fyrirtækja forsenda endurheimtarinnar og þeirri stöðvun á kolefnislosun sem henni fylgir.“
 
Mikilvægt að vinna saman
 
Sveinn Ingvarsson, bóndi og fyrrver­andi vara­­formaður Bænda­samtaka Íslands, tók sæti í stjórn Votlendis­sjóðs í vor. Hann er líf- og vistfræð­ingur að mennt og kemur því inn í stjórn sjóðsins með góða reynslu og þekk­ingu.
 
„Ég hef fylgst með þessu málefni lengi og hef ágæta þekkingu á þessu sviði. Það hefur eiginlega verið alveg ótrúlegt að fylgjast með umfjöllun Bænda­blaðsins í þessu máli og hvernig á því er tekið af hálfu ritstjórans. Persónulega finnst mér jafnvel hreinlega koma fram ósannindi í þeim málflutningi. Þar eru til dæmis verkefnin túlkuð á þann hátt að verið sé að endurheimta votlendi á túnum sem eru í notkun en það er alveg kristaltært að hvergi er tekið neitt til endurheimtar nema með samþykki landeigenda og sveitarfélaga á viðkomandi svæðum,“ segir Sveinn ákveðið og bætir við:
 
„Það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir íslenskan landbúnað að standa í fæturna í umhverfismálum og slæmt þegar fólk innan greinarinnar vinnur hvert gegn öðru. Ég lít á starf Votlendissjóðs sem mikilvægan vettvang til að vinna árangursríkt starf í loftslagsmálum, stöðva kolefnislosun og koma þannig til móts við þá kolefnislosun sem verður vegna athafna okkar í dag. Með því að taka þátt getum við bændur skapað okkur jákvætt orðspor. Allir sem að málinu standa eiga að vinna skipulega saman, þannig náum við árangri. Að mínu mati  er algjör firra að halda því fram að ekki liggi fyrir vísindaleg rök og upplýsingar um mikilvægi endurheimtar votlendis. Endurheimtin er ekki einungis loftslagsmál heldur fylgir henni einnig verulega aukinn fjölbreytileiki lífríkisins og þar með hæfni þess til að standast utanaðkomandi álag,“ segir Sveinn. 
 
Nýtt verknámshús byggt á Sauðárkróki
Fréttir 8. maí 2024

Nýtt verknámshús byggt á Sauðárkróki

Verknámshús Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra (FNV) á Sauðárkróki mun stækka ve...

Torfæra til styrktar björgunarsveitinni
Fréttir 7. maí 2024

Torfæra til styrktar björgunarsveitinni

Laugardaginn 11. maí fer hin árlega Sindratorfæra fram við Gunnarsholtsveg rétt ...

Nýtt erfðapróf fyrir bógkreppu í sjónmáli
Fréttir 6. maí 2024

Nýtt erfðapróf fyrir bógkreppu í sjónmáli

Í sjónmáli er nýtt erfðapróf til greiningar á arfberum erfðagallans sem veldur b...

Jarðgerð á lagernum
Fréttir 3. maí 2024

Jarðgerð á lagernum

Krambúðin í Mývatnssveit er nú með jarðgerðarvél fyrir lífrænan úrgang í verslun...

Fyrsti skipulegi raforkumarkaður landsins
Fréttir 2. maí 2024

Fyrsti skipulegi raforkumarkaður landsins

Opnuð hefur verið íslensk raforkukauphöll, sú fyrsta á Íslandi og með það að mar...

Vöktun íslenskra skóga viðamest
Fréttir 2. maí 2024

Vöktun íslenskra skóga viðamest

Á sviði rannsókna og þróunar hjá Landi og skógi eru fjölmörg verkefni og þeirra ...

Samstarf háskóla skapar tækifæri
Fréttir 2. maí 2024

Samstarf háskóla skapar tækifæri

Jarðræktarmiðstöð LbhÍ er fjármögnuð með skilyrðum um samvinnu við aðrar menntas...

Sjónarmiðin samrýmast ekki
Fréttir 2. maí 2024

Sjónarmiðin samrýmast ekki

Ísteka telur að Samkeppniseftirlitið hefði átt að óska eftir uppfærðum upplýsing...