Skordýrabrauð á borðum Finna
Höfundur: Erla Hjördís Gunnarsdóttir
Fyrirtækið Fazer, sem flestir tengja við sælgætisframleiðslu, hefur nú sett á markað fyrsta skordýrabrauð í heiminum í matvöruverslanir í Finnlandi. Hvert brauð inniheldur 70 krybbur en frá og með 1. nóvember var leyfilegt að selja skordýr í matvælum í Finnlandi.
Neytendur hafa tekið nýju vörunni vel enda er um næringarríkt brauð að ræða, það er prótínríkt og skordýrin innihalda góðar fitusýrur, kalsíum, járn og B12-vítamín. Fyrir hafði Fazer sett brauð á markað með rótargrænmeti í sem gaf góða raun. Fyrirtækið hefur fengið mikla athygli erlendra fjölmiðla eftir að skordýrabrauðið kom á markað og vonast forsvarsmenn þess til að geta komið því til fleiri landa.
- Krybbur eru dreifðar um heim allan á milli 55. breiddargráðanna. Fjölbreytileikinn er mestur í hitabeltislöndum.
- Alls eru þekktar yfir 900 tegundir af krybbum. Í Evrópu eru um 80 tegundir í 28 ættkvíslum.
- Krybbur eru allt að 5 sentímetra langar.
- Bolurinn er að mestu sívalur, höfuð kúlulaga, og afar langir fínir fálmarar.
- Margar tegundir eru ófleygar. Afturfætur eru stórir sterkir stökkfætur með sérstaklega þykka lærliði og langliði alsetta sterkum göddum. (Heimild: Náttúrufræðistofnun Íslands).