Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Af öllum viðgerðum ólöstuðum er þessi snilldin ein. Varla stenst þetta dekk þó venjulegar öryggiskröfur.
Af öllum viðgerðum ólöstuðum er þessi snilldin ein. Varla stenst þetta dekk þó venjulegar öryggiskröfur.
Fréttir 10. mars 2017

Skylt að gera öryggismat á öllum vinnustöðum

Höfundur: Hjörtur L. Jónsson
Á öllum vinnustöðum þarf að gera áætlun um öryggi og heilbrigði. Atvinnurekandi ber ábyrgð á að slík áætlun sé gerð og á mörgum stærri vinnustöðum er starfsmaður sem ber heitið öryggisfulltrúi. 
 
Starf öryggisfulltrúa er ábyrgðarmikið starf sem getur verið krefjandi og ekki öllum gefið að takast á við. Hjá mörgum fyrirtækjum eru reglur í gangi með öryggisfatnað, öryggisgleraugu og hjálmaskylda við vinnu ásamt fleiru. 
 
Heyrt hef ég af fyrirtæki þar sem öryggisfulltrúinn fer á bílastæði starfsmanna og kannar hvort allir hafi bakkað bílunum í stæði á meðan þeir eru við vinnu. Ef starfsmaður hefur ekki skilið rétt við bíl þá fær viðkomandi mínus í starfsmannaskrá. 
 
Örugglega ekki vinsælt starf að skrá svona niður gjörðir vinnufélaganna, en svo eru öryggisfulltrúar sem ekki eru að átta sig á hvar hættur eru. 
 
Fyrir skömmu bað ónefndur öryggisfulltrúi hjá ónefndu fyrirtæki mig að sækja vinnuvéladekk sem var loftlaust og laga. Dekkið var svo slitið að það var fyrir löngu búið að skila sínu og hefði hvenær sem er getað hvellsprungið með alvarlegum afleiðingum. Ég neitaði að laga dekkið eins og það var en seldi viðkomandi tvö ný dekk og útlenski starfsmaðurinn á tækinu þakkaði mér sérstaklega fyrir að hafa fengið tvö ný dekk sem hann sagðist hafa verið búinn að berjast fyrir í langan tíma.
 
Nauðsynlegt að þrífa spegla vel þegar sólin er lágt á himni
 
Það er erfitt fyrir bónda að gera áhættumat þar sem nánast engin vinna er eins frá degi til dags við landbúnað. Þurfa þeir sem við landbúnað starfa alltaf öllum stundum að vera meðvitaðir um hættuna sem daglega kemur upp. Því þarf helst að klappa sjálfum sér á öxl að morgni og lofa að koma heill heim að kvöldi. 
 
Ég vinn til skiptis á tveim mismunandi stórum bílum í þungri umferð Reykjavíkur og nágrennis, mest í samstarfi við annan mann. Fyrir stuttu hældi hann mér fyrir að hliðarrúðurnar og baksýnisspeglarnir væru alltaf hreinir þegar hann tæki við bíl af mér. Eflaust tók hann bara eftir þessu núna þar sem sólin er mikið að trufla akstursskilyrði sökum árstíma. Ég hef haft það fyrir venju við þau farartæki sem ég keyri að halda vel hreinum speglum á öllum tækjum. Ég held að ég gæti aldrei fyrirgefið sjálfum mér ef ég bakkaði á eitthvað vegna þess að ég sá það ekki út af  skítugum speglum.   
 
Of fáir gera áætlun um öryggi, en þeim fjölgar
 
Stundum skoða ég erlenda vefi á netinu um öryggismál tengd landbúnaði og fyrir nokkru var ég að skoða vefsíðu hjá sjónvarps- og fréttamiðlinum www.bctv.org. Þar var  fyrirsögn um bændur í Fíladelfíu í Bandaríkjunum sem fengu hól fyrir að vera komnir með gátlista sem ætti að fara yfir í byrjun dags. Sá sem greinina skrifaði líkti þessum gátlista við þann gátlista sem flugstjóri þarf að fara yfir fyrir brottför á hverri flugferð. Í greininni var sagt að ef þetta hefði alltaf verið svona hefði mátt koma í veg fyrir ótal slys. Það sást best á því að eftir að bændur í Fíladelfíu fóru að nota slíka gátlista hefur slysum stórlega fækkað. Hér að neðan er mín þýðing á þessum 15 liða gátlista sem vitnað var í í greininni. Þetta er ekki orðrétt þýðing, frekar stílfærð í takt við veruleikann í íslenskum landbúnaði.
 
  1. Bændur þurfa daglega að hugsa um öryggi og viðhald með öllum dráttarvélum sem notuð eru til búverka.
  2. Dráttarvélar hafa eitt sæti. Það sem kallað er farþegasæti er ekki ætlað til farþegaflutninga og er útbúið sem sæti fyrir leiðbeinanda sem er að kenna byrjanda á vélina.
  3. Allar dráttarvélar sem fara í almenna umferð þurfa að vera vel merktar með appelsínugulum þríhyrningum og sem mest sjáanlegar í umferð.
  4. Allar nýjar dráttarvélar eiga að vera með 2 punkta eða 4 punkta öryggisbelti. Sérstyrkt yfirbygging verður einnig að vera, eða „rollover“ veltigrind. (Í Fíladelfíu er mikið um húslausar dráttarvélar).
  5. Verið varkár í umgengni við nýborna nautgripi og aðrar skepnur þar sem eðli fullorðinna dýra er að verja sitt afkvæmi. 
  6. Verið meðvituð um hugsanlega banvæna gasmyndun við að setja korn í kornturna/hlöðu (á eflaust lítið við um Ísland).
  7. Verið meðvituð um hugsanlega banvæna hættu í kringum laust korn, korngeymslu (á sjaldan  við á Íslandi).
  8. Aldrei treysta að vökvatjakkar geti ekki bilað fyrirvaralaust. Ekki fara undir tæki sem haldið er uppi af vökvatjökkum (glussa). Ekki ganga undir ámoksturstæki sem eru uppi.
  9. Vertu meðvitaður um stöðugleika á vélum í miklum hliðarhalla og brattlendi.
  10. Það á aldrei að stíga (klofa) yfir drifskaft sem snýst úr aflúrtaki aftan á vél.
  11. Vertu viss um að drifskaft á aflúrtaki sé með hlífina í lagi og tryggilega fest.
  12. Að lokinni vinnu með aflúrtak og drifskaft á ekki fara frá vél fyrr en drifskaft er hætt að snúast.
  13. Aldrei að setja eldsneyti á dráttarvélar nema dautt sé á mótor. Alltaf hafa slökkvitæki við höndina.
  14. Aldrei vinna á dráttarvél í lokuðu rými innandyra nema að lofta vel út þar sem að kolmónoxíð (CO) ógnar bæði mönnum og dýrum. Halda á öllu vel loftræstu.
  15. Vertu viss um að öll landbún­aðar­tæki fái þá umönnun og viðhald eins og mælt er með frá framleiðanda.
Ársgamall kjúklingur enn í verslunum
Fréttir 16. júlí 2024

Ársgamall kjúklingur enn í verslunum

Þrátt fyrir að meira en ár er liðið frá síðustu sendingu kjúklingakjöts frá Úkra...

Mannelski og sjálfsöruggi gæðingafaðirinn
Fréttir 16. júlí 2024

Mannelski og sjálfsöruggi gæðingafaðirinn

Olil Amble og Bergur Jónsson á Syðri-Gegnishólum hafa náð einstökum árangri í hr...

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði
Fréttir 15. júlí 2024

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði

Matvælaráðuneytið segir í svari við fyrirspurn ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, að sa...

Farsæll áhugaræktandi
Fréttir 15. júlí 2024

Farsæll áhugaræktandi

Þrír synir undan heiðursverðlaunahryssunni Álöfu frá Ketilsstöðum komu fram á La...

Hundrað hesta setningarathöfn
Fréttir 12. júlí 2024

Hundrað hesta setningarathöfn

Setningarathöfn Landsmóts hestasmanna er alla jafna hátíðleg.

Til þess var leikurinn gerður
Fréttir 11. júlí 2024

Til þess var leikurinn gerður

Stjórn Búsældar hefur fyrir sitt leyti samþykkt söluna á Kjarnafæði Norðlenska t...

Skammur aðdragandi að sölunni
Fréttir 11. júlí 2024

Skammur aðdragandi að sölunni

Bræðurnir Eiður og Hreinn Gunnlaugssynir hafa sem áður segir samþykkt kauptilboð...

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska
Fréttir 11. júlí 2024

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska

Meginmarkmið kaupa Kaupfélags Skagfirðinga (KS) á Kjarnafæði Norðlenska (KN) er ...