Spóluhnýðissýking gæti valdið alvarlegri uppskeruminnkun í kartöflum
Veirungur sem kallast Potato spindle tuber viroid, eða spóluhnýðissýking, og greinst hefur í tómötum á býlum á Suðurlandi getur borist í kartöflur og valdið verulegri uppskeruminnkun.
Bergvin Jóhannsson, formaður Landssambands kartöflubænda og bóndi á Áshóli í Grýtubakkahreppi, sagði í samtali við Bændablaðið að hann og flestir kartöflubændur séu búnir að fá allt um það beint í æð.
"Í fyrstu sýnist mér ekkert annað fyrir okkur að gera annað en að reyna að verja okkur eins vel og við getum fyrir þessu. Til dæmis með því að koma ekki með tómata nálægt neinu sem snertir kartöflurækt.“
Veirungurinn er hvorki skaðlegur mönnum né dýrum.
Gætu þurft að hætta kartöflurækt í tvö ár
Bergsveinn segir að uppskerubrestur í kartöflum geti verið gríðarlegur í kartöflum berist veirungurinn í útsæði og í kartöflugarða. „Alvarleikinn er svo mikill að það verður að hætta kartöflurækt á viðkomandi býli í, að mér skilst, að minnsta kosti tvö ár og hreinsa út úr húsum og sótthreinsa allan búnað. Það er svo alltaf mikið bras að byrja aftur ef menn þurfa að hætta vegna svona lagaðs.
Þrátt fyrir að við séu nýlega búnir að frétta af möguleikanum á smiti erum við að sjálfsögðu á tánum yfir þessu.“
Bergsveinn segist ekki vita til þess að enn hafi verið tekin sýni úr kartöflum eða kartöflugörðum til að athuga hvort veirungurinn hafi borist í þá. „Komi fram einkenni skilst mér að þau komi fyrst fram á kartöflunum sjálfum og ég á ekki von á að slíkt komi fram fyrr en á næsta ári fari allt á versta veg.“
Vörubretti varasöm
Að sögn Bergsveins getur veirungurinn borist í kartöflur með hlutum eða fólki sem hefur verið í mikilli snertingu við tómata en sérstaklega eru tómatarnir sjálfir og vörubretti varasöm.
Hann segir að kartöflubændur hafi ekki, að minnsta kosti hingað til, ákveðið að fara út í sameiginlegar aðgerðir til að varna því að veirungurinn berist í kartöflur. „Ég held satt best að segja að þetta sé eitthvað sem hver og einn kartöflubóndi verði að eiga við sjálfur.“
Melónur líka varasamar
Ekki er nóg með að sýking geti borist úr tómötum í kartöflur heldur er einnig varað við því að vera með melónur innan um kartöflur.
„Á yfirborði melónanna víða um Evrópu getur verið óværa sem hæglega getur borist í kartöflur og aðrar nytjaplöntur verði ekki gætilega farið, segir Bergsveinn Jóhannsson, formaður Landssambands kartöflubænda, að lokum