Stefnir í glæsilega landbúnaðarsýningu
Undirbúningur fyrir sýninguna „Íslenskur landbúnaður 2021“ sem haldin verður í Laugardalshöll dagana 8.-10. október hefur gengið afar vel. Að sögn Ólafs M. Jóhannessonar, framkvæmdastjóra sýningarinnar hafa básapantanir aukist mikið með afléttingu sóttvarnahafta.
„Það var alger bylting þegar létti á sóttvarnaraðgerðum og stefndi í að við myndum sjá fram á endalok haftanna. Er mikið af sýningarplássi upppantað og verður sýningin einstaklega fjölbreytt og áhugaverð. Bæði verða rótgróin fyrirtæki er þjóna bændum og búaliði á sýningunni og svo nýir aðilar. Það er engin spurning að landbúnaðarsýningin mun lyfta íslenskum landbúnaði og ljóst að stefnir í sannkallaða stórsýningu í haust. Seinasta sýning var haldin 2018 og sló hún öll aðsóknarmet í Höllinni,“ segir Ólafur M. Jóhannesson framkvæmdastjóri sýningarinnar.
Líkt og fyrri sýning er Landbúnaðarsýningin á vegum Ritsýnar sýningarfyrirtækis sem hefur starfað í 25 ár og staðið fyrir fjölbreyttum sýningum svo sem sjávarútvegssýningum, stóreldhúsasýningum og heilsusýningum.
Að sögn Ólafs eru örfá sýningarpláss eftir á Landbúnaðarsýningunni og geta þeir sem hafa áhuga á að skoða möguleika á sýningarplássi haft samband í síma 698-8150 og netfangið olafur@ritsyn.is eða Ingu markaðsstjóra í síma 898-8022 og netfangið inga@ritform.is.
Ólafur M. Jóhannesson. Mynd / TB