Stefnir í hörku samkeppni milli afurðahæstu kúabúa landsins
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Það virðist stefna í hörkuslag á röðun nythæstu kúabúanna í ár samkvæmt tölum Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, RML. Þegar skýrslur eiga eftir að skila sér fyrir tvo síðustu mánuði ársins 2018 er Hóll í Svarfaðardal, sem var í öðru sæti í fyrra, kominn örlítið upp fyrir Brúsastaði í Vatnsdal sem vermdi fyrsta sætið 2017.
Kúabændur líti yfirleitt ekki á baráttuna við að skila miklum gæðum og góðri nyt sem einhvern slag um hver skori hæst. Samt kitlar það óneitanlega hégómagrind flestra að sjá sitt bú á toppnum án þess að það sláist neitt upp á vinskap manna og samvinnu þegar upp er staðið.
Hóll komst á toppnum í tíunda mánuði ársins
Hóll í Svarfaðardal er með meðalnyt upp á 8.738 kg mjólkur eftir tíu mánuði ársins 2018. Í fyrra var búið með næsthæstu meðalnyt allra kúabúa landsins, eða 8.356 kg á hverja kú. Þetta bú hefur verið undir stjórn Karls Inga Atlasonar og Erlu Hrannar Sigurðardóttur síðan 2016 og er nú með 50,3 árskýr.
Hjónin Sigurður Ólafsson og Gróa Margrét Lárusdóttir á Brúsastöðum.
Kúabúið á Brúsastöðum er rekið af hjónunum Sigurði Ólafssyni og Gróu Margréti Lárusdóttur undir fyrirtækjanafninu Brúsi ehf. Árskýr eru 52 og meðalnytin eftir tíu mánuði ársins er 8.677 kg. Á árinu 2017 var meðalnytin 8.937 kg mjólkur. Spennandi verður að vita hvort Brúsastaðir ná því að verma efsta sætið í fjórða sinn yfir landið síðan 2013, því það gerðist líka 2014 og 2017. Þá er líklegt að í ellefta sinn á 13 árum verði þau hjón með nythæsta búið í Austur- Húnavatnssýslu.
Skiptast á efsta sætinu á milli mánaða
Fyrir mánuði síðan var meðalnytin á Brúsastöðum 8.785 kg á hverja kú og hefur því lækkað um 108 kg, en þá var Hóll með meðalnyt upp á 8.700 kg og hefur hækkað um 38 kg. Það stefnir því í afar skemmtilegan slag um fyrsta sætið í ár.
Líka spenna um þriðja sætið
Í þriðja sæti eftir 10 mánuði ársins eru Skáldabúðir á Suðurlandi sem rekið er undir hlutafélaganafninu Gunnbjörn ehf., sem er í eigu Arnar Bjarna Eiríkssonar og fjölskyldu í Gunnbjarnarholti. Þetta bú er með 59,8 árskýr og er meðalnytin sem stendur 8.457 kg en var 8.568 kg í september.
Skáldabúðir gæti tryggt sér þriðja sætið af Gautsstöðum á Svalbarðsströnd sem var í því sæti í fyrra. Gautsstaðir eru nú í þrettánda sæti en gætu hugsanlega náð inn á topp tíu-listann í ár. Það er þó ekkert öruggt hjá Skáldabúðum með þriðja sætið, því fast á hæla þeirra kemur Hvanneyrarbúið með 8.347 kg að meðaltali á 72,2 árskýr. Það er því engu minni spenna um þriðja sætið en fyrstu tvö.