Stöðug fækkun sláturlamba
Stöðug fækkun sauðfjár hefur verið á undanförnum árum á Íslandi. Samkvæmt nýjum sláturtölum fækkaði sláturlömbum um tæplega tuttugu þúsund á milli áranna 2021 og 2022 og hefur fækkunin verið samfelld frá 2017. Hins vegar var slátrun á fullorðnum ám mjög sambærileg við síðasta ár, sem þykir benda til þess að áframhald verði í fækkun sláturgripa haustið 2023.
Trausti Hjálmarsson, formaður deildar sauðfjárbænda innan Bændasamtaka Íslands, segir ljóst að bregðast þurfi við þessari stöðugu fækkun fjár svo það endi ekki með framboðsskorti á íslenskum markaði. Ef ekki takist að leiðrétta verð til bænda enn frekar en orðið er, þá verði fækkunin áfram mikil. „Eina leiðin til að stöðva þessa þróun, sem er búin að vera viðvarandi síðustu ár, er að tryggja bændum afkomu,“ segir Trausti.
Samkvæmt gögnum frá Matvælastofnun komu 445.511 dilkar til slátrunar á síðasta hausti. Til samanburðar var dilkafjöldinn á síðasta ári 465.324, en 560.465 árið 2017.
Sala eykst en framleiðsla dregst saman
Sala á dilkakjöti hefur hins vegar aukist síðustu misseri. Sé litið til síðustu 12 mánaða frá september síðastliðnum var salan um 7.254 tonn og hefur aukist um 14,3 prósent miðað við sama tímabil frá árinu á undan. Samkvæmt nýjum framleiðslutölum fyrir dilkakjöt kemur fram að framleiðslan var mjög svipuð nú í september og á síðasta ári. Hins vegar minnkaði framleiðslan nú í október um tæp 1.600 kíló, miðað við október á síðasta ári.
Birgðastaða kindakjöts í lok ágústmánaðar var í sögulegu lágmarki á þessum árstíma á þessari öld, eða um 382 kíló. Einungis voru minni birgðir í lok ágústmánaðar árið 2011, eða um 281 kíló. Á því ári var útflutningur hins vegar með mesta móti, en þá voru flutt út 1.138 tonn kindakjöts.
Hvatt til betri markaðssetningar
Í aðsendri grein Trausta og Hafliða Halldórssonar, framkvæmdastjóra Icelandic Lamb, eru afurðastöðvar hvattar til að sinna betur markaðssetningu á lambakjöti, ýmis tækifæri séu til að auka virði afurðanna sem á endanum geti skilað betri kjara til bænda. Raunvirði lambakjöts á Íslandi sé mun hærra en íslenskir neytendur eigi að venjast.
Þeir segja að það geti því verið sársaukafullt fyrir neytendur að ganga í gegnum nauðsynlegar breytingar í átt að hærra verði nema að þær séu vel rökstuddar af þeim sem bera ábyrgð á markaðssetningu og sölu. Hvergi nema á Íslandi keppi lambakjötið við hvíta kjötið í verði, samkvæmt úreltri aðferðarfræði.
Fjallað er meira um tölulegar upplýsingar úr síðustu sláturtíð og markaðshorfur fyrir íslenskt lambakjöt á bls. 2, 18 og 50. í nýju Bændablaði sem kom út í dag