Stórþörungar í matvæli
Verkefninu Seafoodture, um stórþörunga í matvæli, hefur verið hleypt af stokkunum.
Seafoodture-verkefnið miðar að því að nýta lífmassa stórþörunga til þróunar á sjálfbærum, hágæða matvælum. Matís tekur þátt fyrir Íslands hönd. Verkefnið er styrkt af Sustainable Blue Economy Partnership (SBEP).
Stefnt er að því að nýta stórþörunga sem sjálfbæran próteingjafa í matvæli, að sögn Sophie Jensen, verkefnastjóra hjá Matís. Hagnýting og næringarinnihald stórþörunga verði rannsakað með það fyrir augum að bæta næringarlega samsetningu matvæla, með áherslu á bætta heilsu neytenda. Enn fremur segir hún markmiðið að fullnýta sem mest af hráefninu í matvæli og annað í lífrænar matvælaumbúðir.
Upphafsfundur í verkefninu fór fram um miðjan maí hjá Institute of Food Science Research (CIAL) í Madríd á Spáni. Tíu samstarfsaðilar frá átta löndum sóttu hann. Um er að ræða þriggja ára verkefni. Meðal samstarfsaðila Matís í verkefninu eru vísindafólk frá Spáni, Tyrklandi, Ítalíu, Portúgal, Írlandi, Noregi og Eistlandi.
„Hröð fólksfjölgun ýtir matvælaframleiðslu í átt að þolmörkum og nýting á próteinum úr dýraríkinu veldur auknu álagi á umhverfið,“ segir Sophie í fregn á vef Matís. „Þar að auki þarf að bæta úrval af plöntupróteinum sem eru minna háð notkun vatns og landsvæðis. Það er brýn þörf á að þróa fleiri próteinríkar matvörur sem innihalda mikilvæg næringarefni með því að nýta óhefðbundnar auðlindir. Sjónum hefur verið í auknum mæli beint að stórþörungum en þeir hafa fram til þessa verið fremur lítið rannsakaðir sem matvæli,“ segir hún.