Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Stuðningur við kolefnisbindingu – Kostnaður við plöntukaup endurgreiddur
Fréttir 29. desember 2020

Stuðningur við kolefnisbindingu – Kostnaður við plöntukaup endurgreiddur

Höfundur: Vilmundur Hansen

Skógræktin auglýsir eftir umsóknum um styrki til kolefnisbindingar með skógrækt á vegum félaga og félagasamtaka. Verkefnið kallast Vorviður og er hluti aðgerðaráætlunar stjórnvalda í loftslagsmálum.

Sem hluti af aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum er Skógræktinni falið að efla tengsl við og styðja félagasamtök með sérstöku verkefni. Verkefnið Vorviður er hluti bættrar landnýtingar í þágu loftslags í aðgerðaráætluninni

Markmið verkefnisins er að efla samstarf Skógræktarinnar og ýmissa félaga um allt land í því augnamiði að gefa félögum kost á að binda kolefni með eigin skógrækt. Félög sem nota land sem þegar er á skipulögðu skógræktarlandi njóta forgangs. Plönturnar skulu vera ræktaðar í ræktunarstöð og það telst vera kostur ef hún er í heimahéraði. Ekki er um að ræða styrk vegna eigin plöntuframleiðslu.

Stuðningurinn felst í endur­greiðslu kostnaðar við plöntukaup eingöngu. Félög sækja um styrkinn til Skógræktarinnar sem annast umsýslu þessa verkefnis. Sækja þarf um fyrir hvert ár eins og vinnureglur kveða á um. Um hvert verkefni er gerður samningur við Skógræktina.

Umsóknarfrestur fyrir verkefni árið 2021 er til 15. janúar 2021 og nánari upplýsingar um verkefnið er að finna á vef þess, skogur.is/vorvidur.