Styrking raforkuflutningakerfis á N-Austurlandi forgangsatriði
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar telur að styrking raforkuflutningskerfis á Norðausturlandi með bættum raforkuflutningi milli Blöndu og Kárahnjúkavirkjunar sé forgangsatriði fyrir landshlutann.
Þá sé brýnt að ráðast verði í þá framkvæmd óháð því hvort og þá hvenær ráðist verði í fyrirhugaða Sprengisandslínu. Sveitarstjórn telur að Sprengisandslína sé fyrst og fremst ætluð til styrkingar á byggðalínunni og því sé um aðskildar framkvæmdir að ræða sem ekki séu háðar sameiginlegu umhverfismati.
Þetta kemur fram í bókun sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar sem samþykkt var á fundi nýverið. Sex fulltrúar greiddu bókuninni atkvæði sitt, einn sat hjá. Fyrir fundinum lá erindi frá Skipulagsstofnun sem hefur til meðferðar tillögu fyrirtækis að matsáætlun vegna Sprengisandslínu.
Stofnunin hefur verið að fara yfir þær athugasemdir sem bárust við tillögunni. Í þeim athugasemdum, sem eru samhljóða, auk annarra athugasemda, hefur verið vikið að mögulegu sameiginlegu umhverfismati línunnar og annarra framkvæmda sem eru fyrirhugaðar af hálfu Landsnets.