Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Sumarleikur Bændablaðsins: Folald sumarsins 2016
Mynd / Páll Imsland
Fréttir 4. maí 2016

Sumarleikur Bændablaðsins: Folald sumarsins 2016

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Íslensk hross státa af miklum fjölbreytileika í lit og skapgerð ekki síður en íslenska kúakynið og sauðfé landsmanna. Til að skerpa á vitund landsmanna um þessa eiginleika íslenska hestsins vill Bændablaðið bregða á leik og hvetja hestaáhugafólk til að senda blaðinu myndir af áhugaverðum folöldum sem koma í heiminn í sumar. 
 
Hugmyndina að þessu á Páll Imsland og snýst hún um að blaðið birti myndir sem áhugaverðar þykja undir þemanu „Folald sumarsins“. 
 
Leikurinn felst í því að lesendur sendi blaðinu fyrir 20. ágúst mynd með upplýsingum og rökstuðningi fyrir að það eigi að útnefnast hið eina sanna folald sumarsins. 
 
Sendist Bændablaðinu fyrir 20. ágúst
 
Myndir og texta skal senda til Bændablaðsins á  netfangið hk@bondi.is eða bbl@bondi.is.
 
Nauðsynlegt er að saga fylgi mynd sem rökstyðji eiginleikana. Bent skal á að góð mynd og góð saga getur haft töluverð áhrif á úrslitin. Texti má þó helst ekki vera lengri en 500 orð. 
 
Sagan gæti verið af óvenjulegum vitsmunum folaldsins, vináttutengslum eða óvenjulegum samskiptum manna og dýra. Það sem setur tilnefningum skorður er sem sagt harla fátt annað en eitthvað einstakt og athyglisvert.
 
Í rökstuðningi þarf líka að tilgreina nafn folalds, fæðingarstað og helst númer í WorlFeng. Einnig foreldra folaldsins og hugsanlega eitthvað frekar um ættarsöguna ef þörf þykir. Einnig höfund myndar. Mikilvægt er að mynd sé í bærilegum gæðum til birtingar.
 
Margvíslegir eiginleikar geta verið gjaldgengir
 
Folaldið má hafa til að bera hvaða eiginleika sem vill svo fremi að þeir þyki að einhverju leyti einstakir eða sérstakir, þannig að það skeri sig úr fjöldanum. Þetta gæti verið óvenjulegur litur eða litasamsetning eða önnur útlitseinkenni. Það gætu líka verið eiginleikar af öðru tagi, svo sem skapferli, fjör, fimi eða einstakir gangeiginleikar.
 
Dómnefnd mun síðan meta hvaða folald sé þess verðugt að hljóta þessa útnefningu og fá skjal því til staðfestingar. Ráðgert er að birta myndir af þeim folöldum sem þykja skara fram úr af þeim sem tilnefnd verða ásamt sögunum á bak við þau. 
 
Bændablaðið mun minna á þennan leik í sumar og hvetja fólk til að tilnefna folald sumarsins. Tilnefningum lýkur sem fyrr segir 20. ágúst. Gert er ráð fyrir að myndir og sögur um viðkomandi folöld verði svo birtar í Bændablaðinu í september. 
 
Tilnefning fyrir árið 2015
 
Höfundur þessarar hugmyndar hefur tekið sér það bessaleyfi að tilnefna sjálfur í fyrsta sinn, folald sumarsins 2015. Greinargerð sem hér fylgir mun vonandi svolítið skýra fyrir mönnum þennan leik. Ekkert skilyrði er þó fyrir þátttöku að greinargerðir um ættir folalda verði jafn umfangsmiklar og ítarlegar og Páll Imsland setur hér fram. Mun fremur er lögð áhersla á að textinn sé léttur og skemmtilegur og ekki lengri en 500 orð, en í góðu lagi að hann sé styttri. Hér er tilnefning Páls:
 
Folald sumarsins 2015
 
Lýsingur, IS2015125495, er fæddur í Fjárborgum ofan Reykjavíkur hinn 22. júlí sumarið 2015. Hann er ræktaður af Jens Pétri Högnasyni og í hans eigu. 
 
Lýsingur.
Rökin fyrir tilnefningu hans eru afar óvenjulegur litur sem hann ber, eða réttara sagt litleysi. Hann er alhvítur, glaseygur á báðum augum með bleika (litlausa) húð. Hann er þó ekki fölur (hvítingi eða albínói). Til þess að svo geti verið hefði hann þurft að fá leirlitargenið frá báðum foreldrum sínum en það er ekki til staðar í foreldrum Lýsings. Hann getur því ekki verið fölur, enda er hann ekki rjómalitur eins og flest föl hross eru heldur snjóhvítur.
 
Ætt Lýsings:
 
F: Lykill frá Skjólbrekku, 2009, rauðskjóttur með vagl í báðum augum
FF: Baugur frá Víðinesi 2, 2001, rauðskjóttur hringeygur
FFF: Hróður frá Refsstöðum, 1995, rauðblesóttur sokkóttur aftan
FFM: Gáta frá Hofi, 1984, rauðskjótt
FM: Ófeig frá Skjólbrekku, 1992, móbrún
FMF: Eilífur frá Sveinatungu, 1977, leirljós
FMM: Sokka frá Kárastöðum, 1978, brún sokkótt
M: Draumadís frá Melum, 1998, dökkjörp glámblesótt sokkótt glaseyg
MF: Glitfaxi frá Kílhrauni, 1995, jarpvindóttur
MFF: Mjölnir frá Sandhólaferju, 1988, rauðjarpur
MFM: Dögg frá Kílhrauni, 1987, jarpvindótt
MM: Bógadýr frá Grundarfirði, 1981, jarpskjótt
MMF: Brúnblesi frá Hoftúnum, 1975, brúnn blesóttur
MMM: Indíra frá Hnjúki, 1969, jarpskjótt
 
Í þessari ættartölu er leirljóst hross öðrum megin, Eilífur frá Sveinatungu. Hann hefur skilað leirlitargeninu til Ófeigar, dóttur sinnar. Hún hefur eignast leirljóst og moldótt afkvæmi, en hún hefur aftur á móti ekki skilað því til Lykils. Þá væri hann ljósaskjóttur en ekki rauðskjóttur. Lýsingur hefur því ekki fengið neitt leirlitargen og getur því ekki verið fölur, en það er sá litur sem er líkastur að sjá þeim lit sem er á Lýsingi og kemur manni strax í huga þegar maður lítur hann augum.
 
Hvaða erfðir eru það þá sem eru á ferðinni og gera Lýsing alhvítan? Í stuttu máli sagt er það samspil slettuskjóttra og hefðbundinna skjóttra (flekkjaskjóttra) erfða, sem raða áhrifum sínum þannig um líkama hans að allur litur er útilokaður og öll hárin og húðin eru litlaus.
 
Skoðum þetta nánar og föðurætt hans fyrst. Lykill, faðir Lýsings, er rauðskjóttur og ber bæði þessi skjóttu mynstur. Hann er býsna líkur hefðbundnu skjóttu að sjá en vögl eru í báðum augum hans, blesa í andliti og sokkar á öllum fótum, en allt eru þetta sterk einkenni á slettuskjóttu. Hvítu og lituðu flekkirnir á skrokki hans minna meira á hefðbundið skjótt mynstur (flekkjaskjótt). 
 
Lykill hefur fengið erfðaþáttinn sem stjórnar slettuskjótta mynstrinu frá föður sínum, Baugi, sem aftur fékk hann frá föður sínum, Hróðri, sem er vel þekktur arfberi þessa erfðaþáttar. Lykill hefur fengið erfðaþáttinn sem stýrir flekkjaskjóttu mynstri frá móður sinni, Gátu, sem var rauðskjótt. Baugur er því með báða skjóttu erfðaþættina. Það má kalla tvískjótt til aðgreiningar frá flekkjaskjóttu (hefðbundnu skjóttu) og slettuskjóttu (hjálmskjóttu) sem koma fram þegar aðeins annar erfðaþátturinn er til staðar í einstaklingi. Lýsingur hefur fengið báða þessa erfðaþætti frá Baugi. Lykill er því tvískjóttur og Lýsingur hefur erft sömu erfðaþættina frá honum og er líka tvískjóttur. Hér verður þetta orð, tvískjóttur, notað í biðinni eftir öðru og betra heiti yfir fyrirbærið. Það er reyndar fordæmi fyrir nafngift að þessari gerð í hrosslitafræðunum, sem er orðið tvístjörnóttur, svo ekki fer með öllu illa á notkun þessa orðs.
 
Skoðum þá móðurættina. Draumadís er dökkjörp glámblesótt sokkótt á öllum fótum og glaseyg á báðum augum. Þetta eru allt einkenni á hrossum sem eru arfblendin slettuskjótt. Hún er undan Bógadýr sem var tvískjótt með slettuskjótta erfðaþáttinn frá Brúnblesa frá Hoftúnum, sem var arfblendinn slettuskjóttur en bar einkenni þess í mun veikara mæli á skrokki sínum en algengast er. Bógadýr bar líka flekkjaskjótta erfðaþáttinn sem hún fékk frá móður sinni, Indýru, en gaf hann ekki til Draumadísar sem hefur hins vegar líklegast skilað slettuskjótta erfðaþættinum til Lýsings.
 
Lýsingur hefur því fengið slettuskjótta erfðaþáttinn frá báðum foreldrum sínum og flekkjaskjótta erfðaþáttinn frá föður sínum. Lýsingur er samkvæmt þessu tvískjóttur, nánar tiltekið arfhreinn slettuskjóttur og arfblendinn flekkjaskjóttur. Þessi erfðasamsetning kemur misjafnlega út á einstaklingum, en oftast þó á þann hátt að litaðir flekkir eru fáir og smáir og oftast bundnir við kollinn og eyrum og stundum taglið og lendina líka, en geta þó verið víðar. 
 
Við skulum til einföldunar kalla það tilviljanir hvernig litflekkirnir raðast í lokamynstrið í tvískjóttu hrossi. Í tilviki Lýsings skilar sú tilviljun þeirri niðurstöðu að alls staðar útilokaðist litur og út úr því kemur alhvítt hross, alhvítt hross sem er skjótt og það tvískjótt.
 
Lýsingur mun því gefa mikið af skjóttum afkvæmum með einlitum hryssum og mikið af blesum, tvístjörnum, sokkum og leistum og hringjum eða vöglum í augum fái hann að sinna merum. Litirnir sem fylgja þessu verða í samræmi við litaerfðir mæðranna og hinn ósýnilega lit sem Lýsingur ber með sér.
Þessi undirliggjandi litur hjá Lýsingi er í raun óþekktur, en hlýtur að vera brúnn, rauður eða jarpur, líklegast jarpur.
 
Eru vart miklar líkur á að óvenjulegri litareinkenni á folaldi hafi komið fram á líðandi sumri. Spurningin er þá hvort Lýsingur sé bara ekki bara vel kominn að útnefningunni „Folald sumarsins 2015.“
Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...