Þorsteinn Pálsson á Signýjarstöðum hlaut viðurkenningu fyrir mjólkurmæli
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Tæknidagur var haldinn í Háskólanum í Reykjavík föstudaginn 15. maí. Þar voru veittar viðurkenningar fyrir bestu lokaverkefni í tæknifræði.
Ein viðurkenningin lýtur að verkefni fyrir landbúnaðinn. Hlaut Þorsteinn Pálsson á Signýjarstöðum í Borgarfirði þessa viðurkenningu fyrir mjólkurmæli sem hann hannaði til að mæla heildarmagn mjólkur í hverjum mjöltum og setja það fram á fljótlegan, einfaldan og grafískan hátt. Þorsteinn fékk styrk frá Nýsköpunarmiðstöð til rannsóknanna og leiðbeinandi hans var Unnsteinn Snorri Snorrason. Kerfið hefur verið til prófunar hjá föður Þorsteins, Páli Herberti Jónassyni á Signýjarstöðum, og er nú í frekari þróun.