Tré ársins 2020 er gráreynir að Skógum í Þorskafirði
Tré ársins 2020 var útnefnt við hátíðlega athöfn laugardaginn 29. ágúst og er um að ræða gráreyni (Sorbus hybrida) að Skógum í Þorskafirði og er það í fyrsta sinn sem gráreynitré er útnefnt sem Tré ársins.
Upphaflega var haldið að tréð væri silfurreynir (Sorbus intermedia), en nánari skoðun sérfræðinga Skógræktarinnar við athöfnina leiddi í ljós að um gráreyni var að ræða.
Athöfnin hófst á ávarpi Jónatans Garðarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands. Sagði hann stuttlega frá trénu, sem vaxið hefur við óblíð veðurskilyrði en þrifist samt – bognað en ekki brotnað. Er tréð því með mikinn karakter. Næstur tók til máls Halldór Þorgeirsson, fulltrúi þjóðarráðs Baháʼí-samfélagsins á Íslandi.
Halldór Þorgeirsson flutti ávarp sem fulltrúi þjóðarráðs Baháʼí samfélagsins á Íslandi. Mynd / Inga Daníelsdóttir.
Sagði hann frá upphafi ræktunar á Skógum og ræktunarstarfi Baháʼí-samfélagsins þar, en vilji er fyrir því að opna skóginn frekar til heimsókna, til að njóta kyrrðar til íhugunar og efla tengsl við náttúruna.
Því næst afhenti Hafberg Þórisson frá Gróðrarstöðinni Lambhaga, sem er styrktaraðili Tré ársins verkefnisins, heiðurskjal og tók Böðvar Jónsson við því fyrir hönd þeirra sjálfboðaliða sem unnið hafa að skógrækt á Skógum. Afhjúpuðu Böðvar og Hafberg því næst skilti sem markar tréð.
Skógræktaruppeldisstöð Jochums M. Eggertssonar
Í erindi Halldór Þorgeirssonar kom m.a. fram að það hafi verið hugsjónamaðurinn og brautryðjandinn Jochum M. Eggertsson sem hafði komið þarna upp litlu gerði sem hann lýsti 1953 sem „skógræktaruppeldisstöð“.
Jochum hafði farið utan og leitað sér menntunar í Danmörku. Þar nam hann mjólkurfræði og náði valdi á krefjandi ostagerð, meðal annars Roquefort blámygluosti úr sauðamjólk. Á námsárunum hafði hann einnig komist í snertingu við annað skógarumhverfi.
Hann var í tengslum við fremstu fagmenn þess tíma í skógrækt og leitaði sér þekkingar hvar sem hana var að finna. Nægir þar að nefna frumkvöðla á borð við Hákon Bjarnason skógræktarstjóra, sem einnig hafði stundað nám í Danmörku, og fyrsta íslenska landslagsarkitektinn, Jón H. Björnsson, sem stofnaði gróðrarstöðina Alaska 1953.
Jochum dáði föðurbróður sinn, Matthías Jochumsson, sem, eins og margir vita, fæddist í Skógum og var Jochum kominn á þrítugsaldurinn þegar Matthías kvaddi. Nú í nóvember verður öld liðin frá andláti hans.
Ljóst er af ljóðum og skráðum hugleiðingum Matthíasar að hann var tengdur staðnum tilfinningaböndum. Hann fylgdist vel með skóglendinu og var hryggur yfir hnignun þess á hans lífstíð.
Böðvar Jónsson lyfjafræðingur tekur við viðurkenningarskjali fyrir tré ársins 2020. Mynd / Halldór Þorgeirsson.
Jochum gekk ekki alltaf vel að rækta tengsl við nágranna og samtímamenn. Hann gat verið dómharður og fór sínar eigin leiðir. Þar var hann sjálfum sér verstur. Hann var fyrst og fremst knúinn áfram af hugsjón eins og trén sem standa að Skógum bera glöggt vitni um.
Í snertingu við boðun Bahá’u’lláh
Jochum komst í snertingu við boðun Bahá’u’lláh á fyrstu árum trúarinnar hér á landi og var meðal fyrstu bahá’ía. Hjá honum vaknaði sú von að það samfélag hefði skilning á tilgangi ræktunarstarfsins og myndi taka við kyndlinum.
Jochum lést 1966, sextán árum eftir að hann hófst hér handa. Í erfðaskrá ánafnaði hann Bahá’í-samfélaginu Skógajörðina og lýsti þeim vilja sínum að „haldið verði áfram byrjunarverki mínu og ræktunarstarfsemi í Skógalandi“.
Árið 1981 hófst bahá’í-samfélagið fyrir alvöru handa við umhirðu þess skógar sem fyrir var og við frekari skógrækt. Í fyrstu var unnið út frá skóginum sem Jochum hafði lagt grunn að en svo færðist áherslan sunnar í landið.
Samstarf við Skjólskóga markaði þáttaskil
Halldór sagði að það hafi markað þáttaskil þegar samstarf við Skjólskóga komst á 2005. Þá hafi Arnlín Óladóttir skógfræðingur komið til liðs við þau og samstarfið við hana hafi verið gjöfult og farsælt. Hún vann einnig fyrstu kerfisbundnu skógarúttektirnar.
„Sunnan við gamla bæjarstæðið hafa verið friðaðir 86 ha innan skógræktargirðingar. Á síðasta ári var gengið frá samningi við Skógræktina til 40 ára sem byggir á eldri samningi frá 2005 við Skjólskóga. Við höfum einnig gengið til samstarfs við Landgræðsluna undir merkjum Bændur græða landið, sem felur í sér áburðargjöf og sáningu í lítt gróið land.“
Allt unnið í sjálfboðavinnu
Sagði Halldór að þetta starf hafi allt verið unnið í sjálfboðavinnu og fjölmargir komið þar að verki.
„Hingað hafa einnig komið börn og unglingar, kynnst ræktunarstarfinu og orðið vitni að árangrinum. Ég vil nefna tvö nöfn að þessu tilefni. Björg Karlsdóttir var hér staðarhaldari meðan hún starfaði sem leikskólakennari á Reykhólum. Af öðrum ólöstuðum þá hefur Böðvar Jónsson lyfjafræðingur lyft hér grettistaki. Böðvar mun taka við viðurkenningarskjalinu fyrir hönd allra þeirra sem hér hafa lagt hönd á plóg. Við viljum einnig þakka þeim fjölmörgu sveitungum okkar sem veitt hafa ómetanlega aðstoð í gegnum tíðina,“ sagði Halldór Þorgeirsson.