Trúir því að hægt sé að styrkja rekstrargrundvöll sauðfjárbúa
Guðfinna Harpa Árnadóttir, bóndi á Straumi í Hróarstungu, var kjörinn nýr formaður Landssamtaka sauðfjárbænda (LS) á aðalfundi samtakanna á Hótel Sögu á föstudaginn.
Kosið var á milli þriggja frambjóðenda í fyrstu umferð; þeirra Trausta Hjálmarssonar, bónda í Austurhlíð 2, og Sigurðar Þórs Guðmundssonar í Holti, auk Guðfinnu Hörpu.
Í seinni umferð var kosið á milli þeirra Guðfinnu Hörpu og Sigurðar Þórs þar sem þau hlutu flest atkvæði í fyrstu umferð og hlaut Guðfinna þá 23 atkvæði en Sigurður 15 og einn skilaði auðu.
Jákvæð merki á mörkuðum
Guðfinna Harpa starfar hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins og hefur áður starfað hjá Búnaðarsambandi Austurlands. Hún segir að í stuttu máli sé það hennar skoðun að jákvæð merki séu varðandi horfur á lambakjötsmörkuðum og þar af leiðandi verð til bænda en staðan sé þó enn þá mjög viðkvæm. „Allir þeir sem þar koma að þurfa því áfram að vanda til verka þannig að vel takist til. Þegar bilið á milli afurðaverðs og framleiðslukostnaðar verður svo mikið sem það hefur verið undanfarin haust er mjög mikilvægt að ná kröftugum viðsnúningi þannig að hægt sé að styrkja á ný rekstrargrundvöll búanna. Ég trúi því að það takist þar sem við sauðfjárbændur framleiðum frábært hráefni, spennandi markaðsverkefni eru í gangi og þrýstingur vegna framleiðslumagns fer minnkandi.“
Fyrirliggjandi stór verkefni
„Fyrst mun ég þurfa að setja mig hratt inn í hin ýmsu verkefni samtakanna þar sem ég hef ekki áður setið í stjórn en þar er ég heppin að hafa öfluga stjórnarmenn og framkvæmdastjóra mér innan handar,“ segir Guðfinna Harpa um sín fyrstu verk í embætti. „Fyrir liggja stór verkefni og má sem dæmi nefna áframhaldandi átak í markaðsmálum sauðfjárræktarinnar, endurskoðun rammasamnings um almenn skilyrði landbúnaðar, verkefni tengd umhverfismálum svo sem kolefnisjöfnun greinarinnar og efling grasrótar landssamtakanna.“
Nýja stjórn Landssamtaka sauðfjárbænda skipa auk Guð-finnu Hörpu þeir Gunnar Þórarinsson, Þóroddsstöðum, Böðvar Baldursson, Ysta-Hvammi, Trausti Hjálmarsson, Austurhlíð 2 og Einar Guðmann Örnólfsson, Sigmundarstöðum, sem kemur nýr inn í stjórn í stað Þórhildar Þorsteinsdóttur, Brekku.