Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Um 99% galtargrísa eru nú bólusettir gegn galtarlykt
Fréttir 8. mars 2018

Um 99% galtargrísa eru nú bólusettir gegn galtarlykt

Höfundur: Vilmundur Hansen

Hefðbundin gelding á galtargrísum þekkist varla lengur hér á landi og er það mikil breyting á stuttum tíma til bættrar dýravelferðar og sennilega sú hraðasta sem þekkist í heiminum. 

Vigdís Tryggvadóttir, sérgreina­dýra­­læknir svínasjúkdóma og súna hjá Matvælastofnun, segir að mikil breyting hafi orðið á hvað varðar geldingu á galtargrísum í svínaeldi hér á landi á stuttum tíma. „Í dag er afar sjaldgæft að galtargrísir séu geltir á hefðbundinn hátt með skurðaðgerð en þá eru eistun fjarlægð. Aðgerðin er framkvæmd undir staðdeyfingu og verkjastillingu.“

Vigdís Tryggvadóttir, sérgreina­dýra­­læknir svínasjúkdóma og súna hjá Matvælastofnun.

Upplýsingar um bólusetningu galtargrísa byggja á seldum skömmtum bóluefnis, eftirliti Mast og upplýsingum frá bændum.

Bændur ánægðir með bólusetninguna

„Til 2014 voru galtargrísir geltir án deyfingar en eftir mikla fjölmiðlaumræðu og tilkomu nýrra laga um velferð dýra ákváðu svínabændur að fá dýralækna til að gelda galtargrísina með staðdeyfingu og verkjastillingu.

Strax í kjölfarið var farið að skoða aðrar og betri leiðir til að koma í veg fyrir galtarlykt og galtarbragð með því að bólusetja. Aðferðin reyndist vel og fleiri bændur fóru að bólusetja og er sú aðferð allsráðandi í dag,“ segir Vigdís.

Galtarlykt og bragð

Gelding grísagalta er framkvæmd vegna þess að galtarlykt og eða galtarbragð í kjöti galta eftir kynþroska veldur mörgum óþægindum og óbragði við eldun á svínakjöti. 

Stór hluti neytenda er næmur fyrir lyktinni, sem er neytendum hættulaus, og til að hindra að svínakjöt með galtarlykt fari á markað eru galtargrísir geltir. Lyktin og bragðið er sama eðlis og þegar talað er um hrútabragð af kjöti.

Vigdís segir að tvennt valdi galtarlykt. „Annars vegar kynhormónið androstenone og hins vegar lífræna efnasambandið skatole. Skatole myndast í þörmum allra svína, jafnt gyltum sem og göltum, en þar sem lifur svína brýtur niður skatole veldur það venjulega ekki galtarlykt. Androstenone myndast í eistum galtargrísa við kynþroska. Androstenone veldur galtarlykt eitt og sér en það dregur líka úr niðurbroti skatole í lifrinni sem safnast þá upp og veldur þá enn frekar galtarlykt hjá kynþroska göltum.“

Bóluefnið stuðlar að myndun mótefna

„Bóluefnið gegn galtarlykt, Improvac, er ekki hormón eins og margir halda og hefur ekki bein áhrif á hormónakerfið. Galtargrísirnir eru sprautaðir tvisvar með fjögurra vikna millibili með próteini sem örvar ónæmiskerfið til að mynda mótefni.

Mótefni hefur þau áhrif að eistu galtargrísa fá ekki skilaboð að mynda androstenone. Þannig dregur það úr galtarlykt hjá galtargrísum, bæði beint með að hindra myndun androstenone og óbeint með að lifrin vinnur án áhrifa frá androstenone og brýtur skatole niður líkt og í gyltum.“

Íslensk svínabú í fararbroddi

„Bóluefni gegn galtarlykt kom á markað fyrst árið 1998 í Ástralíu og hefur verið notað þar síðan. Lyfið fékk síðan markaðsleyfi hjá Lyfjastofnun Evrópu árið 2009, en til að fá markaðsleyfi þurfa að liggja fyrir ítarlegar rannsóknir um öryggi þess.

Ég tel aðferðina tvímælalaust stórt skref fram á við hvað dýravelferð varðar og aðferðin er hvergi jafn útbreidd og hér á landi. Vitað er að verið er að bólusetja að hluta í sumum Evrópulöndum, svo sem Belgíu, Svíþjóð og Noregi, en víðast hvar annars staðar er hefðbundin gelding algengust og jafnvel án deyfingar.“

Hefð fyrir galtakjöti til staðar erlendis

„Í sumum löndum er geldingu sleppt og framleitt svínakjöt með galtarlykt. Hefð fyrir þess konar kjöti er algeng í Bretlandi, Spáni og Ítalíu og það er algengt á markaði þar. Í öðrum löndum er galtargrísum einfaldlega slátrað áður en þeir ná kynþroska og þannig komið í veg fyrir galtarbragðið,“ segir Vigdís.

Hættulaust neytendum

Vigdís segir að svínakjöt frá bólusettum svínum sé hættulaust neytendum og engin hætta á að efnið berist áfram upp fæðukeðjuna. „Bóluefnið hefur enga virkni við inntöku þar sem meltingarensím eyðileggja byggingu þess og þar með virkni. Bóluefnið er uppbyggt af próteinum og líkt og önnur prótein, brotnar það niður í amínósýrur í meltingarkerfinu.

Bóluefnið er aftur á móti ekki hættulaust í meðhöndlun líkt og mörg önnur lyf sem notast er við. Notaðar eru sérstakar öryggisinngjafasprautur og haldin hafa verið námskeið fyrir dýralækna um notkun og meðferð á inngjafasprautunum og lyfinu. Dýralæknar hafa síðan þjálfað þá starfsmenn svínabúa sem sinna bólusetningum.

Strangar öryggiskröfur gilda um meðferð lyfsins og möguleg slys, svo sem stunguslys.“            

Skylt efni: Svín | bólusetning | Mast

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar
Fréttir 29. október 2024

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar

Slow Food Reykjavík hélt hátíð í garðskála Grasagarðs Reykjavíkur dagana 18. og ...

Dagur sauðkindarinnar
Fréttir 29. október 2024

Dagur sauðkindarinnar

Þann 12. október síðastliðinn var dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu haldi...

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins
Fréttir 29. október 2024

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins

Vala Valtýsdóttir er nýr formaður stjórnar Lífeyrissjóðs bænda. Aukaaðalfundur s...

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar
Fréttir 28. október 2024

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun birti þann 18. október til umsagnar matsáætlun fyrir mat á umhv...

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu
Fréttir 28. október 2024

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu

Auka þarf innlenda matvælaframleiðslu um 45–55 prósent næstu þrjátíu árin til að...

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé
Fréttir 28. október 2024

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé

Innleiðing á verndandi og mögulega verndandi arfgerðum gegn riðu í sauðfé gengur...

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju
Fréttir 25. október 2024

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju

Umsóknum um styrki vegna útiræktunar grænmetis fækkaði um fimm frá fyrra ári.

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast
Fréttir 25. október 2024

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast

Kennitala Sláturhússins á Hellu hefur verið afskráð og verður reksturinn færður ...