Um helmingur af vatnsbirgðum í Mið-Ameríku hefur gufað upp
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Loftslagsbreytingar, ofnýting grunnvatns og landhremmingar fjármálamanna eru allt þættir sem eru komnir á mjög hættulegar brautir. Sem dæmi er talið að heildarvatnsmagn í Níkaragva í Mið-Ameríku hafi minnkað um 60% og grunnvatn um 50% á skömmum tíma vegna þurrka.
Níkaragva, sem er þarnæsta ríki norðan við hið fræga ríki Panama, lýsti yfir sjálfstæði frá Spánverjum 1821 og varð sjálfstætt ríki árið 1838. Þar voru miklar skærur milli stríðandi fylkinga til hægri og vinstri lengst af 20. öldinni sem nutu stuðnings stórveldanna. Níkaragva hefur verið fátækasta ríki Mið-Ameríku, en landbúnaðarvörur, einkum bananar, sykur, tóbak og vefnaðarvörur, hafa verið helstu útflutningsvörurnar og borið uppi um 50% af gjaldeyristekjunum. Árið 2013 var gerður samningur til 50 ára við kínverskt fyrirtæki um byggingu og rekstur skipaskurðar þvert yfir landið. Áætlað er að skurðurinn muni kosta um 50 milljarða dollara.
Níkaragva að þorna upp
Í vefsíðu fréttastofunnar Inter Press Service var greint frá því þann 6. apríl síðastliðinn að loftslagsbreytingar væru að leiða til þess að Níkaragva væri að þorna upp. Þurrkar undanfarinna áratuga hafi leitt til þess að flestar vatnslindir landsins séu nú að klárast. Er að verða neyðarástand vegna skorts á neysluvatni. Ljósmyndir og kvikmyndir sem teknar hafa verið frá því í janúar sýna að ár og vötn eru hreinlega að hverfa.
Fæðuöryggi í uppnámi
Áhrif þurrkanna í Níkaragva hafa þegar haft mikil áhrif á fæðuöryggi þjóðarinnar sem telur um 6,2 milljónir manna. Bændasamtök landsins eru mjög áhyggjufull vegna vatnsskorts sem hrjái nú að minnsta kosti 30% af bústofni landsmanna. Samkvæmt tölum framleiðenda landbúnaðarvara í Níkaragva (UPANIC) töpuðust um 200 milljónir dollara á árinu 2015 vegna áhrifa af þurrkum sem stafa af El Niño-veðurfyrirbærinu.
Á sumum svæðum hefur öll uppskera eyðilagst og um 90% af vatnsbirgðum hafa þornað upp. Þá hefur vatnsskorturinn haft verulega neikvæð áhrif á ferðaþjónustu í landinu.
Um 2,5 milljónir manna í landinu þurfa að lifa á tekjum sem nema innan við 240 íslenskum krónum á dag. Um 20% þessa fjölda þjáist nú af næringarskorti. Hafa verið sendir tugir tankbíla á hverjum degi með vatn fyrir þyrsta og sveltandi íbúa. Samkvæmt opinberum tölum voru í febrúar 51.527 fjölskyldur á 34 svæðum í landinu í neyð vegna vatnsskorts.
Muyúa-vatn hefur tapað um 60% af vatnsbirgðum sínum
Muyúa-stöðuvatnið í norðanverðu Níkaragva hefur tapað um 60% af vatnsbirgðum sínum frá 2014 vegna áhrifa El Niño. Samkvæmt rannsóknum Environmental Resources Management (ERM) í Bretlandi sem kostaðar voru af kínverska fyrirtækinu HKND Group, hefur vatnasvæði frumskógasvæðanna í suðurhluta Níkaragva minnkað um 40%. Rannsóknirnar eru gerðar vegna fyrirhugaðrar gerðar nýs skipaskurðar þvert yfir Níkaragva sem á að tengja Karíbahaf við Kyrrahafið.
Rannsóknir sýna að á árunum frá 1983 til 2011 hafi tapast um 40% af náttúrulegum jarðvegi í Suðaustur-Níkaragva. Sjálfstæða rannsóknarfyrirtækið Humbolt Center hefur einnig upplýst að um 40% frumskógarins í Bosawas sé horfinn, en það er stærsta frumskógasvæðið í Mið-Ameríku. Hefur það verið á skrá UNESCO frá 1997 sem mikilvægt líffræðilegt svæði.
Alvarlegar viðvaranir
Jaime Incer, fyrrverandi umhverfis- og auðlindamálaráðherra landsins og núverandi forseti stofnunar sjálfbærrar þróunar í Níkaragva (Nicaraguan Foundation for Sustainable Development), varar sterklega við því sem er að gerast.
Segir Incer að undir lok mars síðastliðinn hafi landið tapað um 60% af yfirborðsvatni sínu og um 50% af grunnvatnsbirgðunum. Þar sé ýmist um það að ræða að vatnið hafi hreinlega gufað upp eða sé orðið það mengað að það sé ónothæft.
Yfir hundrað ár að gufa upp
Sem dæmi um þetta eru að minnsta kosti 100 ár og vatnasvæði þeirra í Níkaragva að hverfa. Þá eru Tiscapa- og Nejapa-stöðuvötnin nærri höfuðborginni Managua orðin mjög menguð samfara því að vera að þorna upp. Það á líka við um Venecia-vatn á strandsvæði Masaya og Movúa-vatn í norðurhluta Matagalpa-héraðs.
Vísindamenn segja að stærsta vatnasvæði landsins, hin 680 kílómetra langa Coco-á, sem er jafnframt lengsta á Mið-Ameríku og markar landamærin að Hondúras, sé nú uppþornuð á löngum köflum. Vatnsyfirborðið á öðrum hlutum árinnar er í sögulegu lágmarki, þannig að vatnið í henni er vart meira en ökkladjúpt.
Í annarri „stórá“ landsins, San Juan, sem liggur með suðurlandamærunum að Kosta Ríka, hafa sandrif lokað fyrir siglingaleiðir um ána. Er það gert þrátt fyrir umtalsverðar aðgerðir á liðnum árum við að reyna að halda siglingarennum um ána opnum.
Þá hefur verulega gengið á Níkaragva-vatnið sem líka er nefnt Cocobolca frá 2012. Það geymir mestu ferskvatnsbirgðir landsins. Vatnið er 8.624 ferkílómetrar að stærð. Bryggjur við vatnið standa nú á þurru. Sama á við um stöðuvötnin Xolotlán og Managua.