Undirbúa stofnfund félags um blóðtöku úr fylfullum hryssum fyrir lyfjaiðnaðinn
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Allt að 30 bændur í Húnavatnssýslu stunda það sem Kristján Þorbjörnsson kallar hrossabúskap með blóðtöku og hyggjast þeir innan tíðar stofna félag um þessa búskaparhætti sína. Undirbúningur stendur sem hæst en blásið verður til fundar á Blönduósi einhvern næstu daga.
Kristján segir búskap þennan hafa verið stundaðan um áratugi, en hver og einn hafi verið í sínu horni. Nú vilji menn stilla saman strengi, auka fagþekkingu og gæta sinna hagsmuna og því standi til að stofna til formlegs félagsskapar.
Efnið nýtt í lyfjaframleiðslu
Kristján segir þessa framleiðslu ganga út á að taka blóð úr fylfullum hryssum og er byrjað á að taka sýni úr öllum hryssum í hópnum um 8 vikum eftir að stóðhesti hefur verið hleypt í stóðið. Niðurstaða rannsóknar á blóðsýninu segir svo til um hvaða hryssur eru tilbúnar til blóðtöku.
„Verið er að sækjast eftir efni í blóði þeirra, en 6-8 vikum eftir að þær eru fengnar framleiða hryssurnar sérstakt efni sem unnið er og notað við fósturvísaflutninga sem og einnig frjósemislyf,“ segir Kristján. Blóð er tekið úr jákvæðum hryssum einu sinni í viku.
Viljum gæta okkar hagsmuna
Kristján segir þeim sem stunda þennan búskap hafa fjölgað hin síðari ár, þeir hafi yfir mismunandi stórum hóp að ráða, en algengt að þeir séu á bilinu frá 30 til 70, sums staðar talsvert fleiri en það. Í Húnavatnssýslunum séu allt að 30 hrossaeigendur sem stundi þessa grein landbúnaðar.
„Það er ekki fyrir hendi neitt félag eða samtök sem hafa það beint á sinni stefnuskrá að þjónusta eða gæta hagsmuna þeirra sem stunda þessa framleiðslu,“ segir hann. „Úr því viljum við bæta og erum því að undirbúa stofnfund sem haldinn verður innan skamms á Blönduósi. Markmið þess félags er auk þess að gæta hagsmuna þeirra sem eru í þessari framleiðslu, að stuðla að fræðslu, og vinna að því að koma á framfæri upplýsingum, sem bætt gæti reksturinn, til þeirra sem stunda þennan búskap.“
Einn kaupandi á Íslandi
Einungis einn kaupandi er til staðar hér á landi, fyrirtækið Ísteka. Dýralæknar á þess vegum sjá um blóðtöku, en eigendur hryssanna um annað umstang sem fylgir. Kristján segir að á liðnu hausti hafi verðið fyrir lítra af blóði verið á bilinu 1.309 upp í 1.800 krónur, en flokkaskipting blóðs og verð á hverjum flokki er alfarið í höndum fyrirtækisins. Segir Kristján að menn séu miskátir með að félagið geti einhliða ákveðið hvað greitt sé.
Eins og áður segir eru það töluvert margir í Húnavatnssýslum sem stunda blóðtöku, víðar um land einnig, en Sunnlendingar eru einna stærstir í þessari framleiðslu.