Úr 19 bása rörakerfi yfir í 136 legubása mjaltaþjónafjós
Höfundur: smh
Á bænum Gunnlaugsstöðum í Stafholtstungum í Borgarfirði er nú risið myndarlegt nýtt fjós.
Að búrekstrinum á Gunnlaugsstöðum standa feðgarnir Þórður Einarsson og Guðmundur Eggert Þórðarson. Þegar blaðamann bar að garði um síðustu mánaðamót voru iðnaðarmenn á fullu inni í fjósinu að ganga frá lausum endum, en gert er ráð fyrir því að fjósið verði tekið í notkun í þessum mánuði.
Horft heim að Gunnlaugsstöðum þar sem gamla fjósið stendur. Fjallið Baula sést í baksýn.
Miklar breytingar
Gamla fjósið á Gunnlaugsstöðum, sem byggt var á fjórða tug síðustu aldar, er með 19 bása og hefðbundið gamalt rörakerfi, en í nýja fjósinu verða 136 legubásar og fjóra nautastíur. Nýja fjósið er um 1.360 fermetrar og í byrjun er gert ráð fyrir einum mjaltaþjóni og 64 mjólkandi kúm, þannig að óhætt er að segja að um afar stórt stökk sé að ræða fyrir feðgana í búskapnum á Gunnlaugsstöðum. Mjaltaþjónn er af tegundinni DeLaval, en tæki og tól koma frá Fóðurblöndunni.
Í hönnun á fjósinu er gert ráð fyrir möguleikanum á að bæta við einum mjaltaþjóni og ætlunin er að vera líka með nautaeldi – þannig að heildarfjöldi nautgripa í fjósinu verður nálægt 150.
Annaðhvort að hætta eða byggja
Að sögn Guðmundar hefur gengið mjög vel að fjármagna bygginguna og þeim vel verið tekið hjá lánastofnunum – en um mikla fjárfestingu er að ræða. „Þetta verður þróunin hjá flestum þeim sem eru með gömul, lítil fjós – með breytingum á reglugerðum og lögum er verið að þrýsta þeim út í breytingar á húsakostum sínum. Það er annaðhvort að hætta eða byggja,“ segir Guðmundur Eggert um ákvörðun þeirra feðga að fara út í framkvæmdina.
Guðmundur E. Þórðarson á gólfinu á nýja fjósinu sem er um 1.360 fermetrar.
Þórður ætlaði að bregða búi og selja jörðina
Guðmundur Eggert segist vera nýlega fluttur í Borgarfjörðinn í föðurhús. „Pabbi var að hugsa um að hætta í búskap og selja jörðina. Mér fannst það ekki hægt og þess vegna ákvað ég fyrir frekar stuttu síðan að flytja hingað og taka þátt í búskapnum.“