Verð á dreifingu í dreifbýli hefur hækkað um 275% frá 2005
Landsnet hefur sent Orkustofnun tillögu að nýrri gjaldskrá sem áætlað er að taki gildi 1. janúar 2021. Fyrirhuguð breyting felur í sér að gjaldskrá til dreifiveitna hækkar um 9,9%. Samband garðyrkjubænda, Sölufélag garðyrkjumanna og Bændasamtök Íslands lýsa miklum áhyggjum af þeim hækkunum á gjaldskrá sem Landsnet hefur boðað.
Í frétt á heimasíðu segir að Landsnet segi að þar sem kostnaður við flutning til heimila og smærri fyrirtækja er einungis 10–15% af rafmagnsreikningnum þá mun kostnaður þeirra einungis hækka um 1–1,5% vegna þessarar hækkunar.
Ástæða hækkunarinnar er fyrst og fremst miklar framkvæmdir í flutningskerfinu sem eru nauðsynlegar til þess að tryggja íbúum landsins öruggt aðgengi að rafmagni í takt við kröfur samtímans. Í óveðrunum síðasta vetur blöstu veikleikar kerfisins við og Landsnet er undir miklum þrýstingi að ráðast í úrbætur um allt land.
Áhyggjur af hækkunum á gjaldskrá
Samband garðyrkjubænda, Sölufélag garðyrkjumanna og Bændasamtök Íslands lýsa miklum áhyggjum af þeim hækkunum á gjaldskrá sem Landsnet hefur boðað frá og með 1. janúar næstkomandi.
Sú hækkun sem boðuð hefur verið til dreifiveitna er 9,9% og mun koma til hækkunar á framleiðslukostnaði í landbúnaði, ekki síst á ylræktuðum garðyrkjuafurðum, þar sem orkukaup eru einn stærsti þátturinn í framleiðslukostnaði, auk launakostnaðar.
Gjaldskrárhækkun á flutnings- og dreifingarkostnaði raforku vegna hækkana Landsnets mun leggjast á framleiðslukostnað til viðbótar þeim hækkunum sem verða vegna aukinna álagna á jarðefnaeldsneyti /flutningskostnað og kjarasamningsbundinna launahækkana.
275% hækkun frá 2005
Í yfirlýsingu frá SG, SFG og BÍ segir meðal annars að verð á flutningi og dreifingu raforku í dreifbýli hefur samtals hækkað um 275% frá 2005. Hækkunin er rúm 180% ef tekið er tillit til jöfnunargjalds stjórnvalda. Það er tæplega 179% umfram hækkun almenns verðlags (VNV) á sama tímabili, eða 84% hækkun umfram VNV að teknu tilliti til jöfnunargjaldsins.