Verkefnið „Hey!rúlla“ fær inni í Bjarnarflagi
Landsvirkjun og fyrirtækið PlastGarðar ehf. hafa undirritað samning um aðstöðu fyrir verkefnið „Hey!rúlla“ í skrifstofuhúsnæði Landsvirkjunar við Bjarnarflag í Mývatnssveit.
Þetta verkefni PlastGarðars snýst um að vinna að þróun og hönnun á margnota heyrúllupokum, með það að markmiði að skipta út einnota heyrúlluplasti í landbúnaði fyrir margnota lausn sem er bæði betri og umhverfisvænni. Þegar fyrstu pokarnir eru tilbúnir verða þeir prófaðir samhliða hefðbundnum geymsluaðferðum á heyi í heyrúllum.
Garðar Finnsson, eigandi PlastGarðars, stofnaði fyrirtækið fyrir skömmu. Hann tók nýlega þátt í verkefninu „Vaxtarrými“, sem var fyrsti viðskiptahraðallinn á Norðurlandi, átta vikna hraðall með áherslu á sjálfbærni, mat, vatn og orku. Einn þeirra aðila sem kom að Vaxtarrými var „Eimur“, samstarfsverkefni nokkurra aðila um bætta nýtingu orkuauðlinda á Norðurlandi. Landsvirkjun er einmitt einn bakhjarla Eims.
„Hey!rúlla“ ætlar að skapa hringrásarhagkerfi landbúnaðarplasts innan Íslands. Markmið okkar er að margnota heyrúllupokar endist í allt að 15 ár og verði svo að fullu endurunnir í nýja poka. Það er mikilvægt fyrir þróun og vöxt fyrirtækisins að fá góða aðstöðu og ég er bjartsýnn á framhaldið,“ segir Garðar og Jóna Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Samfélags og umhverfis hjá Landsvirkjun, bætir við: „Já, við hjá Landsvirkjun fögnum því að fá tækifæri til að hlúa að enn einum vaxtarsprotanum, nú með því að hýsa PlastGarðar í Bjarnarflagi.
Hlutverk Landsvirkjunar er að hámarka verðmæti þeirra endurnýjanlegu orkulinda sem fyrirtækinu er trúað fyrir, með sjálfbærni og hagkvæmni að leiðarljósi. Liður í því er að styðja við nýsköpun af ýmsum toga, um leið og við eflum samskipti við nærsamfélagið og styðjum við hringrásarhagkerfið.“