Vesturport og Hrunamannahreppur í samstarf
Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson
Búið er að vinna drög að viljayfirlýsingu um samstarf Vesturports og Hrunamannahrepps um framkvæmdir í landi Grafar á Flúðum.
Hugmyndin gengur út á að koma upp tveimur mismunandi sögusöfnum í hlöðunni sem nú hýsir Byggðarsafnið á Flúðum.
Annað safnið á að lýsa heimi norræna manna þar til þeir urðu kristnir um árið eitt þúsund. Hitt safnið mun lýsa því hvernig líf útlaga hefur verið á Íslandi gegnum aldirnar. Megin kjarni þessa safns mun eiga rætur í Fjalla-Eyvindi þar sem ævi hans og Höllu verður gerð sérstök skil. Sérstakt rými verður útbúið fyrir lifandi flutning á leiksýningum og öðrum uppákomum sem tengjast söfnunum. Verslunar- og veitingarekstur verður í sama húsnæði og safnið.
Sveitarstjórn líst mjög vel á hugmyndir Vesturports og hefur samþykkt að leggja sitt af mörkum til að verkefnið geti orðið að veruleika og hefur falið sveitarstjóra og varaoddvita að ræða við Vesturport og hagsmunaaðila á svæðinu um framhald verkefnisins. Ekki kemur fram í viljayfirlýsingunni kostnaðar- eða framkvæmdaáætlun vegna verkefnisins.