Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Vextir sliga bændur
Fréttir 6. október 2023

Vextir sliga bændur

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Skuldsettir bændur sjá ekki fram á að geta haldið út mikið lengur. Stór kúabú hafa hætt rekstri og reynt að selja kvóta til að létta á skuldum, en þau eru föst í pattstöðu þar sem lítil hreyfing er á kvótamarkaði.

Hermann Ingi Gunnarsson.

Hermann Ingi Gunnarsson, kúabóndi á Klauf í Eyjafirði, segir andrúmsloftið í stéttinni vera ömurlegt og bændur geti ekki endalaust greitt með fæðuöryggi þjóðarinnar. „Það er ekkert ljós við enda ganganna eins og þetta er núna.

Nú stefnir í meiri vaxtahækkanir og við sjáum ekki fram á afurðaverðshækkanir sem geta mætt þeim kostnaði.“ Þó staða sauðfjárbúa sé ekki góð, þá sé einfaldara fyrir þá bændur að fá sér aukavinnu utan bús. „En þú gerir það ekki með mjólkurframleiðslu, sérstaklega ef þú ert með stórt kúabú.

Hvar eigum við að sækja okkar tekjur? Það má ekki gera það í gegnum verðlagið. Mjólkurbændur hafa fengið hækkanir í gegnum verðlagsnefnd búvara, en það vantar svo mikið meira.“

„Fólk er fast“

Það sé hægara sagt en gert að bregða búi, en Hermann Ingi bendir á tvö stór kúabú í Eyjafjarðarsveit sem hafa hætt rekstri núna í sumar. Þá hafa bændur selt frá sér kýrnar en ekki náð að koma kvótanum í verð, enda fádæma lítil hreyfing á síðasta kvótamarkaði. „Fólk er fast,“ segir hann. „Margir hverjir sem eru með miklar skuldir þurfa að velja úr þá reikninga sem þeir geta borgað.“ Í óbreyttu ástandi telur Hermann Ingi að skuldsettir bændur geti ekki haldið út nema í nokkra mánuði.

„Menn eru vinnandi myrkranna á milli, algjörlega búnir á því á líkama og sál, og svo eiga þeir bara að halda áfram. Heilsa bænda er líka í húfi. Það er rosalega þungt hljóð í bændum og menn eru margir hverjir að gefast upp.

Ef við ætlum að hafa landbúnað í landinu þá verðum við að fara að gera eitthvað. Af hverju á bændastéttin að vera sú eina sem vinnur allan daginn en fær ekkert greitt? Við höfum varla lágmarkslaun fyrir þetta.“

Staða bænda á ábyrgð ríkisins

Aðspurður um lausnir segir Hermann Ingi að ríkið ætti að nýta þær lánastofnanir sem það á, ýmist Landsbankann eða Byggðastofnun, til að búa til lánaleið fyrir bændur. Nú séu tólf prósent vextir af jarðakaupalánum, á meðan bankarnir sjálfir segi að jarðir séu tryggasta veð sem þeir geti fengið.

Það séu minni afföll af lánum á jörðum en íbúðarhúsnæði, en samt sé ekki hægt að gefa bændum sömu kjör.

Þá segir Hermann Ingi að sómi væri af því ef ríkið stæði almennilega við bakið á matvælaframleiðslu. „Eins og Bændasamtökin hafa komið inn á þá vantar tólf milljarða í búvörusamningana.“

Hlutfall tekna bænda frá ríkissjóði hafi stórlega lækkað á síðustu tíu til fimmtán árum og að sama skapi hafi tollverndin dregist saman. Staða landbúnaðarins sé alfarið á ábyrgð stjórnvalda. „Í búvörulögum er sagt að kjör bænda eigi að vera eins og kjör annarra sambærilegra stétta í landinu. Þau eru það ekki ef menn geta ekki borgað sér laun.“

Uppbygging var löngu tímabær

Hermann Ingi segir langan veg frá því að bændur hafi verið að offjárfesta í greininni. Þeir sem haldi öðru fram hafi ekki góða þekkingu á landbúnaðinum, sérstaklega í mjólkurframleiðslu. Þvert á móti sé enn mjög mikil fjárfestingarþörf.

Kúabændur hafi á undanförnum árum verið að sinna löngu tímabærri uppbyggingu, enda var mikil stöðnun í kjölfar hrunsins. „Með þetta lægra vaxtastig fóru menn í mjög nauðsynlegar fjárfestingar, bæði til að auka framleiðsluna og hagræði.“ Á undanförnum árum hafa aðbúnaðarkröfur verið hertar í flestum búgreinum. Hermann Ingi segir þær hafa ýtt bændum í eðlilegar endurbætur, enda sé nauðsynlegt að nútímavæða aðstöðuna. Það sé engin framtíð í því að mjólkurframleiðsla á Íslandi sé byggð á básafjósum. „Þó þau séu ágæt til síns brúks, þá viljum við sjá greinina á öðrum stað. Við sjáum í þessum nýju fjósum þar sem er róbót og lausaganga, þá eru komnar meiri afurðir eftir hverja kú. Það er bæði loftslagsvænt og hagkvæmt,“ segir Hermann Ingi.

Skylt efni: Kúabændur

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...