Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 mánaða.
Jóhann Gísli Jóhannsson hefur eftirlátið dóttur sinni og tengdasyni bú sitt að Breiðavaði og er sjálfur sérlegur aðstoðarmaður þeirra í bústörfum og öðru sem til fellur. Hann er enn á kafi í skógræktarmálunum.
Jóhann Gísli Jóhannsson hefur eftirlátið dóttur sinni og tengdasyni bú sitt að Breiðavaði og er sjálfur sérlegur aðstoðarmaður þeirra í bústörfum og öðru sem til fellur. Hann er enn á kafi í skógræktarmálunum.
Mynd / sá
Viðtal 3. júní 2024

Bændur eiga að þjappa sér saman

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Jóhann Gísli Jóhannsson á Breiðavaði hefur verið viðloðandi skógræktarmál og hagsmuni skógarbænda í fjölda ára. Hann var fjórði ættliður til að taka við býlinu og hefur nú látið búskapinn í hendur næstu kynslóðar.

„Það er nú svo skemmtilegt að ég hef ekkert sérstakt vit á trjám en var samt formaður í ellefu ár,“ segir Jóhann Gísli hlæjandi. Hann var formaður Landssamtaka skógareigenda frá árinu 2013 til vors í ár, er formaður Búnaðarsambands Austurlands síðan 2017, formaður búgreinadeildar skógarbænda, SkógBÍ, frá 2021, er stjórnarformaður í Kolefnisbrúnni ehf., var í stjórn Héraðsskóga um tíma og fyrsti búnaðarþingsfulltrúi skógarbænda á sínum tíma.

Jóhann Gísli starfaði einnig lengi með ungmennafélagshreyfingunni, einkum þó í sveitinni og var mikið í íþróttum, í fótbolta og körfubolta.

Hann segir skógrækt sér hugleikna og hana vera eins og hvert annað langhlaup. „Þú þarft að bíða,“ útskýrir hann og heldur áfram: „Menn hafa lítinn skilning á að þetta er ekki eitthvað sem er að fara að skapa þér tekjur í dag. Ég segi, fullum fetum, að fyrir ungt fólk núna verður þetta stærsta búgreinin á landsvísu, ef menn halda áfram því sem verið er að gera. Þá koðna hinar búgreinarnar allar undir þessu. Þetta er ekkert öðruvísi en í öðrum löndum þar sem hefur tekist að rækta skóg, eins og í Svíþjóð og Noregi, viðarframleiðsla er stór atvinnugrein þar. Eftir því sem harðnar á dalnum með alla aðra orkugjafa þá er þetta nútímaorkugjafi eins og hann var í gamla daga. Við erum að fara hringinn,“ segir hann.

Tengja þarf alla úrvinnslu

Þegar horft er yfir sviðið telur Jóhann Gísli að auka þurfi samvinnu í skógargeiranum. „Við þurfum að tengja alla úrvinnslu skógarafurða saman. Við megum ekki öll fara að saga timbur eða búa til lífkol: að allir séu að gera það sama en enginn hafi í rauninni neitt. Byggja þarf upp hægt og rólega, með samvinnu, meðan við erum ekki stærri. Það er svo grátlegt að sjá fólk setja upp fyrirtæki og vera svo í basli alla ævi vegna þess að það er ekki nóg að gera,“ segir hann og bætir við að fólk haldi að rosalegir peningar séu í kolefnisbindingu og eflaust geti það orðið, en stíga verði varlega til jarðar. „Menn geta misst sig í því eins og mörgu öðru og ætlað að gleypa peninga of skjótt. Þá geta menn misstigið sig,“ segir hann.

Jóhann Gísli segist enn vera að vinna í kolefnismálunum fyrir Bændasamtökin en ætli að hætta sem formaður búgreinadeildarinnar hvað líður, mögulega í haust. „Vera þarf 100% tryggt að þeir sem fara í þetta verði ekki fyrir tjóni síðar meir,“ segir hann og heldur áfram: „Ég hef áhyggjur af þeirri þróun að fjármagnseigendur eru að kaupa upp jarðir allt í kringum okkur. Við erum að verða eins og eyjur sums staðar inni í þessari fjármálavitleysu. Sú þróun sem við erum að sjá er stórhættuleg og drepur okkur hin. Þetta þrengir að unga fólkinu sem er að byrja núna, það verða engir nágrannar og ekki neitt. Ef Alþingi ætlar ekki að setja einhverjar reglur um þetta þá endum við með einhverja örfáa landeigendur.“

Hann segir Vopnafjörð til dæmis gott dæmi um slíkt. „Við skulum átta okkur á að land er takmörkuð auðlind á veraldarvísu,“ bætir hann við. Land sé auðævi.

„Bændur sitja uppi með það í dag að þeir eiga litla eða enga peninga. Svo kemur einhver með einhverja smápeninga og réttir þeim og þeir gleypa við því til að komast út, en staðan er bara sú að þetta eru engir peningar. Þeir geta ekki keypt sér skitna íbúð hér á Egilsstöðum einu sinni, hvað þá ef þeir vildu nú flytja suður. Mér finnst bara ábyrgðarlaust að taka ekki á þessu,“ segir hann með þunga.

Kvaðir á þennan en ekki hinn

„Svo er verið að segja við okkur bændur að við eigum að vernda landbúnaðarland,“ heldur Jóhann Gísli áfram. „Á sama tíma kemur einhver maður og kaupir upp jörð með fullt af landbúnaðarlandi og það eru engar kvaðir á honum. Hann getur bara gert nánast hvað sem hann vill. Það er enginn að biðja hann um að rækta neitt og hann mun ekki gera það: þó að þú verðir matarlaus þá fer hann ekki að setja niður kartöflur, bygg eða eitthvað annað. Verið er að færa þessar kvaðir yfir á örfáa einstaklinga í landinu sem eru búandi. Ég skil ósköp vel ungt fólk sem er hugsi yfir því að fara að búa, þegar það er hrúga af eyðijörðum allt í kringum það, ekkert að gerast og enginn maður.“

Hann segir tilveru bænda í sveitunum m.a. byggja á nágrannavörslunni. „Við eigum ekki alltaf góða daga og þá þurfum við að hjálpast að,“ bætir hann við.

Fólk lifir ekki af þessu

Jóhann Gísli kemur enn að búskapnum, hann kveðst vera aðstoðarmaður og verði það líklega uns hann verði elliær. Langafi Jóhanns Gísla keypti Breiðavað fyrir aldamótin 1900. Sá bjó uns afi Jóhanns Gísla tók við búinu og svo í kjölfarið foreldrar hans, hann og kona hans, Ólöf Ólafsdóttir, og nú dóttir þeirra og tengdasonur.

Hann er spurður hvernig honum lítist á búskap á Héraði. „Hér eru margir sauðfjárbændur og það eru að koma göt í þá grein hér,“ svarar hann. Fólk lifi ekki af þessu. „Það er að vinna úti um allt og jafnvel bæði hjónin þurfa að sækja vinnu. Eitthvað verður að stokka upp í þessu dæmi og skapa fólki þær aðstæður að það geti verið heima hjá sér,“ segir hann. Svo sé fólk í sauðfjárrækt víða orðið svo fullorðið.

Hann segir kúabændur standa mun betur en þeir skuldi mikið. Veltan sé þó ákveðið að bjarga þeim. „Þeir velta tiltölulega miklu og ná að borga af lánunum sínum. En það eru sjálfsagt ekkert jólin alls staðar þar heldur, býst ég við,“ segir hann jafnframt.

Elsta timburhús á Fljótsdalshéraði stendur á Breiðavaði og var byggt árið 1903 af langafa og -ömmu Jóhanns Gísla; Jónasi Eiríkssyni, skólastjóra Búnaðarskólans á Eiðum, og Guðlaugu M. Jónsdóttur. Það er 70 m2 að grunnfleti, á tveimur hæðum með hlöðnum kjallara. Jóhann Gísli gerði það nýlega upp en þá var húsið orðið mjög illa farið. Nú er mikil prýði að því.

Áhyggjur af kornræktarhvatningu

Stjórnvöld hvetja til kornræktar. Segir Jóhann Gísli að til að fara í kornrækt þurfi að leggja í ákveðnar fjárfestingar. Hann gjaldi varhug við því þegar hvatt sé til að allir fari í kornrækt, hvað það varði að bændurnir sem fari í þetta æði kannski af stað og fái styrk frá ríkinu fyrir einhver 40% af kostnaði.

„Svo verða þeir skildir eftir. Það er það sem ég er hræddur við. Hverjir eru þetta sem eru að fara af stað? Það er unga fólkið okkar. Og svo verður það skilið eftir í rústunum af þessu, að berjast við að reyna að borga þetta líka, ofan á allt sem það er að gera í búinu sínu. Þetta veldur mér áhyggjum og fólk þarf aðeins að gá að sér,“ segir hann.

Hann segir vanta miklu meiri langtímahugsun fyrir kornræktina. „Stjórnvöld skulu gera sér grein fyrir því að ef þau virkilega vilja að fólk fari að rækta korn til að nota það, eins og aðrar þjóðir gera, þá þarf að hafa langtímahugsun þannig að þessir sem eru að byggja upp í dag hafi tíu til fimmtán ára plan, þá eru þeir kannski komnir út hinum megin. En nú er þetta eitthvert plan til örfárra ára. Það er ekki gott. Mönnum er hálfpartinn att á foraðið,“ segir hann enn fremur.

Tal um matvælaöryggi sé notað á tyllidögum og hljómi þá vel. „Stjórnvöld verða að ákveða að ef á að framleiða mat á Íslandi þarf að vera grundvöllur fyrir fólk að starfa að því,“ heldur hann áfram. „Það þýðir ekki að tala um matvælaöryggi á Íslandi ef á að flytja allt inn.“

Bændur þjappi sér saman

Jóhann Gísli segist nú ætla að leggja krafta sína í að styrkja samvinnu meðal bænda.

„Við eigum að nota Búnaðarsambandið til að koma okkur saman, efla okkur og láta þetta ganga betur. Það eru ekki alltaf peningar sem maður þarf, stundum er það bara ákveðinn stuðningur, sem kemur af samveru við aðra og nálægðinni. Við höfum svolítið misst þetta út af fækkun í sveitunum, unga fólkið okkar hverfur, fer í skóla og svo kemur það ekki aftur,“ segir hann og bætir við að það sæki ekki í þessa fátækt.

„Engu að síður er það þannig að ég veit eitt, þú veist annað og þannig getum við trekkt okkur áfram í sameiningu. Bændur eiga að þjappa sér saman og það er það sem við þurfum hér á Héraðinu, að leggja sameiginlega krafta í að snúa þróuninni við til hins betra,“ segir Jóhann Gísli að endingu.

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt