Öll efni komin í taðdreifarann.
Öll efni komin í taðdreifarann.
Mynd / aðsendar
Viðtal 11. nóvember 2024

Bokashi-verkefni hjá bændum í Dölum

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Í sumar hafa tveir 25 tonna safnhaugar lífræns úrgangs verið í gerjun á Magnússtöðum 3 í Dölum, þar sem japönsku aðferðinni Bokashi hefur verið beitt til að búa til jarðvegsbæti.

Líklega er þetta í fyrsta skiptið sem aðferðinni er beitt af þessari stærðargráðu á íslenskum sveitabæ. Tilraunir hafa þó víða verið gerðar, bæði í smáum stíl með lífrænar matarleifar frá heimilum og í stærri verkefnum; til dæmis á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri og hjá fyrirtækinu Meltu í Rangárvallasýslu. Niðurstöður úr þeim verkefnum hafa leitt í ljós að Bokashi-aðferðin, sem gengur út á loftfirrta gerjun á lífrænu efni, getur gefið af sér úrvals jarðvegsbæti og góða næringu fyrir jarðvegslífið.

Það þarf að breyta hugsunarhætti

Á Magnússkógum 3 búa þau Anna Berglind Halldórsdóttir og Ólafur Bragi Halldórsson. „Já, við komum þessu ferli af stað í byrjun sumars en erum ekki farin að kíkja undir þetta og taka sýni. Á tímabili leit þetta út eins og góðir hoppubelgir þar sem stæðan blés út, en nú í dag er eins og allt loft sé úr stæðunni og er ég nokkuð viss um að gerjunarferlið sé búið,“ segir Anna Berglind þegar hún er spurð um framvinduna.

„Hugsunin hjá okkur var að reyna að nýta betur afgangs heyrúllur og allt sem fellur til á jörðinni, til að umbreyta í næringarefni sem er aðgengilegt lífverum sem þrífast í jarðvegi. Ég held það þurfi að breyta almennt hugsunarhættinum þannig að bændur hætti eingöngu að hugsa um að næra plönturnar heldur fari líka að næra jarðveginn. Næringarríkari jarðvegur er líklegri til að nýta allan áburð betur og vonandi með tíð og tíma er hægt að minnka áburðargjöf á tilbúnum áburði.“.

Hraðvirkari aðferð en moltugerðin

Aðferðin er að sögn Önnu mun hraðvirkari en til dæmis moltugerð og loftslagsvænni. „Næringarefni og kolvetni varðveitast líka betur og því verður endurnýting á lífrænum verðmætum betri en ella. Gerjunarferlið tekur bara um sex til átta vikur. Við fengum mjög góða aðstoð frá Cornelis Aart Meijles, sem var ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, en hann þekkir þetta ferli mjög vel. Hann sá um pantanir fyrir okkur á réttu magni af efnum í þetta; skeljakalki, leir – og svo þessa hvata eða örverur sem koma ferlinu af stað. Einnig þurftum við plastdúk og hlífðardúk. Allt þetta kom frá Hollandi. Svo er nú margt gagnlegt að finna á veraldarvefnum sem nýttist okkur.“

Blandað saman í taðdreifaranum

Vinnan er mest í byrjun ferlisins og svo stendur haugurinn óhreyfður þar til dreift er úr honum, en í moltugerð þarf einmitt að hreyfa hauginn til að viðhalda stöðugu niðurbroti alls staðar í haugnum.

„Við ákváðum að hafa tvo hauga, þar sem í raun sama efnið fór í þá báða en unnið aðeins með mismunandi hætti. Annan þeirra unnum við betur; það fyrsta sem við gerðum var að slá um tvo hektara og fá þannig nýslegið gras.

Búnaðarfélag Hvammsfjarðar á tunnu sem dreifir úr rúllum og við fengum hana lánaða og notuðum til að dreifa úr fyrningarúllunum, sem ekki nýttust fyrir búpeninginn, yfir slægjuna. Tættum allt saman og svo rúlluðum við þetta aftur og notuðum alla rúlluhnífana í vélinni til að saxa þetta eins fínt og hægt var, því okkur hafði verið tjáð að besti árangurinn næðist ef efnin væru söxuð í fimm til sjö sentímetra búta. Þannig fengjum við besta hráefnið fyrir hauginn og öll eftirvinnsla yrði auðveldari þegar kæmi að því að dreifa þessu á akrana.

Næst skárum við þessar rúllur með rúlluskeranum og mokuðum þessu í taðdreifarann okkar. Saman við þetta settum við sauðatað og svo þessi íblöndunarefni; gerlana, kalkið og leirinn sem bindur þetta saman. Síðan var bara taðdreifarinn látinn snúast og þar með náðist góð blöndun. Efnið var svo sett á steypt plan, þjappað vel og þykkt plast sett yfir hauginn og annað hlífðarnet þar yfir – og svo allar hliðar vel huldar af sandi til að tryggja að ekkert loft kæmist inn,“ útskýrir Anna.

Lítið haft fyrir hinum haugnum

Hinn hauginn ákváðu þau að prófa að hafa mjög lítið fyrir.

„Við mokuðum heyinu fyrst í smálag, svo skítnum yfir það og síðan íblöndunarefnunum – og endurtökum þannig leikinn nokkrum sinnum þar til haugurinn náði stærð sinni. Allt þjappað saman og gengið frá haugnum eins og hinum. Munurinn felst aðallega í því að þetta fór ekki í gegnum taðdreifarann. Okkur langaði til að sjá hvernig þetta kæmi út í samanburði, því ef þetta virkar svipað þá er svo miklu fljótlegra að vinna þetta svona fyrir bændur, heyið átti það nefnilega til að vilja vöðlast svolítið utan um færibandið.

Uppskriftin er nú nokkuð auðveld en fyrir hvert tonn af lífrænu inngangsefni sem fer í hauginn þá þarf maður að setja 12 kíló af Edasil-leir, 12 kíló af Aegir-skeljakalki og tvo lítra af örverum. Skeljakalkið og leirinn varðveita næringarefnin og halda sýrustiginu innan æskilegra marka. Örverurnar eru oft nefndar „effective microoroganisms“og innihalda meðal annars mjólkursýrugerla, ígulgerla og gersveppi sem sýra lífræna úrganginn og koma í veg fyrir að hann rotni. Örverublandan styttir einnig gerjunartímann og minnkar líkurnar á að óæskilegar örverur fjölgi sér.“

Einnig í þágu annarra bænda

Anna og Ólafur fengu styrk frá bæði Uppbyggingarsjóði Vesturlands og Frumkvæðissjóði Dala Auðs til að vinna þetta verkefni. „Við erum afskaplega þakklát fyrir þann styrk sem hefur verið okkur mikil hvatning í að vinna þetta áfram. Við munum skila skýrslu um árangurinn úr verkefninu, sem við vonumst einmitt eftir að aðrir bændur geti nýtt sér.

Það hefur verið mikil umræða í gangi um kolefnislosun og mér er svo minnisstætt námskeið sem ég sótti um loftslagsvænan landbúnað fyrir nokkrum árum síðan. Ég man enn í dag hvað ég var svekkt þegar ég kom heim af því námskeiði, því ég var svo viss um að ég myndi læra alls konar aðferðir til að taka þátt í þeirri þróun, en svo var nú aldeilis ekki. Eina lausnin var að planta bara nógu mikið af trjám. Þegar þú býrð með stórt bú þá veitir þér ekkert af öllu þínu landi undir þinn búpening og því engin lausn fyrir mig að fara út í skógrækt. Ég er sannfærð um að það eru til svo miklu fleiri lausnir sem bændur geta nýtt til að draga úr kolefnislosun en vandamálið er að það er ekki verið að prófa marga hluti og mætti ríkið alveg setja meiri þunga á önnur verkefni en það er eins og skógræktin sé eina lausnin.“

Horfa verður til margra lausna

Anna telur að horfa þurfi til margra lausna, svo bændur geti valið hvað þeir geti tileinkað sér út frá þeirra bústærð og landi.

„Bokashi er klárlega ein af þessum lausnum því þú ert að nýta það sem fellur til, á jákvæðan hátt, sem hefði annars bara rotnað einhvers staðar.

Mörgum finnst þetta kannski hálfgalið og mér fannst það líka svolítið fyrst. Sérstaklega þar sem hlutföllin af nýslegnu grasi í haugnum eru frekar há. En það skiptir miklu máli að hlutfallið á milli kolefnis og köfnunarefnis í haugnum sé rétt. En við erum með um tíu tonn af nýslegnu grasi, sex tonn af fyrningum og svo níu tonn af sauðataði í hverri stæðu. Það er svolítið skrýtið að slá nýtt gras og maka það í skít. Það er ekki alveg það sem maður er vanur. En auðvitað mætti gera svona hauga á miklu betri forsendum og sennilega með miklu öflugri tækjum. Um allt land er verið að slá gras af tjaldsvæðum og umferðareyjum sem er bara hent og látið rotna og úrgangur sem fellur til í grænmetisræktun er tilvalinn, þetta myndi allt nýtast vel í hauginn. Þannig það mætti alveg hugsa þetta sem samstarf við sveitarfélagið til dæmis,“ útskýrir Anna.

Hún bendir líka á auðæfin sem felast í þanginu sem rekur í ómældu magni á fjörurnar.

Hægt að þurrka Dalaleir

„Ég sé fyrir mér að það sé hægt að taka þetta verkefni svo miklu lengra,“ heldur Anna áfram.

„Til dæmis væri frábært að prufa að þurrka Dalaleir og nota í staðinn fyrir þennan innflutta leir og íslenskan skeljasand í staðinn fyrir skeljakalkið. En við þorðum því ekki núna þar sem nauðsynlegt er að vita hvernig upprunalega uppskriftin kemur til með að líta út.“

Næstu skref eru að taka sýni úr haugnum og greina hvaða næringarefni eru í honum og í hve miklu magni. „Svo ætlum við sjálf að nýta þetta núna til að dreifa á flag og athuga hvernig kálræktin fyrir lömbin muni þrífast á þessu. Gera þá tilraunir með mismunandi áburðargjafa og sjá hvernig þetta kemur út – hvort ekki sé hægt að spara talsvert í áburðarkaupum. Auk þess væri verið að undirbúa jarðveginn undir túnræktina sem tæki við af kálræktinni.

En ég held við gerum okkur alveg grein fyrir því að svona ferli er langhlaup, rétt eins og öll önnur kolefnisbinding,“ segir Anna.

Verið að dreifa úr fyrningarúllum yfir nýslegna grasið.

Nýslegið gras og fyrningar búnar að fara í gegnum söxun í rúlluvélinni.

Örverunum dreift yfir.

Öll efni komin í taðdreifarann.

Losað úr taðdreifaranum.

Haugurinn þjappaður.

Haugur að verða tilbúinn.

Gerjun hafin.

Skylt efni: bokashi

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt