Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
María Eymundsdóttir og Pálmi Jónsson á Huldulandi í Hegranesi í Skagafirði stefna á að byggja búskap sinn á framleiðslu burniróta.
María Eymundsdóttir og Pálmi Jónsson á Huldulandi í Hegranesi í Skagafirði stefna á að byggja búskap sinn á framleiðslu burniróta.
Mynd / Aðsendar
Viðtal 8. desember 2023

Burnirótarbúskapur í Skagafirði

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Burnirót nýtur mikilla vinsælda sem heilsujurt og ofnýting hennar hefur orðið til þess að hún var nýlega sett á válista CITES. Í Skagafirði hafa hjónin María Eymundsdóttir og Pálmi Jónsson hafið skipulagða ræktun þessarar merkilegu plöntu til framleiðslu, villtu plöntunum til varnar.

Ræturnar eru þurrkaðar í töflur til náttúrulækninga.

Burnirót er fjölær rótarmikill þykkblöðungur sem á sér langa sögu sem lækninga- og heilsujurt. Hún vex villt víða um land og þar sem hún fær frið frá beit og oftínslu getur hún vaxið vel í mólendi. Hún finnst í dag þó helst í klettum, torgengum gljúfrum eða hólmum þar sem sauðkindin nær ekki til.

Frá því seint á síðustu öld hefur eftirspurn eftir jurtinni aukist jafnt og þétt. Ástæðuna má rekja til uppgangs náttúrulækninga og rannsókna sem styðja kenningar um gagnsemi neyslu burnirótar gegn líkamlegu og andlegu stressi og vanlíðan.

Agnarsmá fræin lifna við í vorsólinni en vaxtartími hennar að nytsamlegri plöntu er um 5–6 ár.

Í kynningum heilsuvöruverslana er burnirót kölluð gingseng norðursins þar sem inntaka burnirótar á að auka einbeitingu, orku og kynhvöt. Björn Halldórsson í Sauðlauksdal þekkti til plöntunnar og áhrifa hennar en í Grasnytjum sagði hann burnirót vera góða við ógleði. Þá var hann ekki að meina að vera bumbult heldur óglatt á geði. Þar sem eingöngu rótin er notuð eru nytjar jurtarinnar ósjálfbærar og hefur jurtin orðið fyrir ofnytjum víða um heim. Hún var nýlega sett á válista hjá CITES, samningi um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu, og er því flutningur á óunnum plöntum nú bannaður milli landa.

Tilraunaræktun úr íslenskum fræjum

Undanfarin fjögur ár hafa hjónin María Eymundsdóttir og Pálmi Jónsson á Huldulandi í Hegranesi í Skagafirði prófað sig áfram með ræktun burnirótar til framleiðslu.

Jurtin er vön norrænni veðráttu.

„Vinkona okkar og nágranni, Hildur Magnúsdóttir hjá Pure Natura, notar burnirót í sínar vörur og talaði um að það væru vandræði að fá hana. Við heyrðum einnig af því að jurtin væri slitin hér upp með rótum, jafnvel í friðlöndum. Hún er hægvaxta og vinsæl hjá kindunum og dafnar ekki á beitarlandi.

Okkur datt í hug hvort ekki væri hægt að stunda ræktun á henni,“ segir Pálmi en þau María byrjuðu á því að flytja inn fræ til ræktunar. „Svo datt okkur í hug að það væri skemmtilegra og eðlilegra að eiga íslensk fræ. Við fengum aðgang að burnirótarbreiðu í hólma úti í Skagaheiði og höfum fengið að fara þangað að sækja fræ.“

Fræin þurrka þau heima við og setja svo niður að vetri í kalt gróðurhús. „Þau fara svo af stað þegar þeim hentar í vorsólinni. Þetta eru agnarsmá fræ. Ef maður stimplar þau með fingurgómi tekur þú upp tugi fræja.

Plönturnar eru eftir því viðkvæmar fyrstu vikurnar,“ segir Pálmi.„Um vorið setjum við litlar plöntur í potta og látum þær vaxa þannig í eitt ár áður en við plöntum þeim út. Jurtin er íslensk og því vön tíðarfarinu og er hönnuð til að lifa af í íslensku veðurfari, þó hún þoli ekki endilega mikinn raka. Hún á því það til að dafna illa þegar það rignir mikið á sumrin,“ segir María.

Burnirót hefur verið kölluð ginseng norðursins.

Fjölbreyttar nytjar

Burnirótarræktunin á Huldulandi telur orðið nokkur þúsund plöntur og er von á fyrstu tilraunauppskeru á næsta ári. Að sögn Maríu og Pálma tekur það þó plöntuna um 5–6 ár að vaxa frá fræi að nytsamri plöntu. Aðalafurð plöntunnar er sjálf rótin.

„Plantan myndar stólparót sem er gjarnan þurrkuð í töflur til náttúrulækninga eða þá búin til tinktúra, lögð í sterkan spíra sem dregur úr henni virku efnin. Hún er þó illa nýtt í dag, því bæði hliðarrótum og ofangróðri er hent en við höfum verið að reyna að finna leiðir til að nýta alla plöntuna.

Það vex þó nokkuð af grennri rótum út frá stólparótinni sem innihalda minna af virkum efnum og við höfum verið að prófa að útbúa snafs úr því. Svo langar okkur að reyna að nýta kálið, það er ágætt ferskt út á salat, einnig höfum við verið að prófa að sýra það,“ segir María en Pálmi lýsir bragðinu sem safaríku en örlítið beisku miðað við venjulegt kál. Hann bendir á að blöðin séu afar C-vítamínrík enda sauðkindin sólgin í þau.

Margfaldur vaxtarhraði með loftræktarkerfi

Í sumar lögðu María og Pálmi leið sína til Alaska til að kynna sér betur ræktun og vinnslu burnirótar en þar fer fram nokkuð víðtæk skipuleg ræktun á plöntunni. „Við hittum þar til dæmis dr. Petru Illig sem kom af stað burnirótarræktun í Alaska. Við fórum einnig í margar heimsóknir til bænda og skoðuðum aðstæður og aðferðir við framleiðsluna. Það kom okkur í raun á óvart að sjá hve ótrúlega lítill hefðbundinn landbúnaður er stundaður á þessu víðfeðma svæði.

Þarna snýst atvinnulífið kringum olíuvinnslu en burnirótin er íbúum svæðisins kærkomin og verðmæt afurð,“ segir Pálmi. Þau komu reynslunni ríkari til baka og einnig með hugmynd að ræktunaraðferð burnirótar með loftræktarkerfi.

„Við hittum mann sem var að prófa að rækta burnirót með Aerophonic loftræktarkerfi. Hann var að fá á þremur mánuðum rót sem tekur um tvö til þrjú ár að vaxa utandyra og fimm mánaða rót sem var farin að blómstra.

Nú erum við að skoða að setja upp slíkt kerfi hér og sjá hvort ávinningur yrði að ræktun burnirótar á þann hátt hérna. Ef það gengur upp þá erum við að horfa á að rækta plöntuna einnig við stýrðar staðlaðar aðstæður innandyra,“ segir María.Gangi burnirótarræktun hjónanna eftir eygja þau von um að framleiðsla af þessari eftirsóttu rót verði þeirra lifibrauð í náinni framtíð.

„Við stefnum bæði á að selja hráa vöru til annarra framleiðenda en auðvita er virðisaukinn langmestur eftir því sem maður gerir meira úr vörunni,“ segir María.

Samstarf við Háskóla Íslands

Þangað til munu hjónin þó alls ekki sitja auðum höndum. „Í sumar hófst þriggja ára verkefni með Háskóla Íslands þar sem ætlunin er að rannsaka burnirót af mismunandi landshornum með tilliti til virkra efna til að finna heppilegasta stofninn til frekari ræktunar.

Lokaafurð verkefnisins er meðal annars að búa til hefti fyrir framtíðar burnirótarræktendur þar sem er að finna fróðleik um ræktunina og eiginleika plöntunnar. Rannsókninni stýrir Þóra Ellen Þórhallsdóttir, doktor í grasafræði,“ segir María.

Ásókn í burnirót hefur aukist og er öll íslensk burnirót sem nýtt er í dag tínd villt í náttúrunni.

Gengið freklega á villtar plöntur

Pálmi segist í öllu falli uggandi yfir hættu á oftínslu á villtum burnirótarplöntum hér á landi.

„Ásókn í burnirót hefur aukist með árunum og er öll íslensk burnirót sem er nýtt í dag tínd villt í náttúrunni. Eins og ég skil reglurnar þá má skera hana upp hér á landi utan friðlanda, en innan þeirra óheimilt að valda raski á lífríki.

Hins vegar eru vísbendingar um að aðilar séu að taka hana upp í Þjórsárverum til dæmis. Hún vex víðar og utan friðlanda en þessi söfnun er almennt ekki sjálfbær og við vitum til þess að menn eru að ganga sums staðar freklega á plöntuna þar sem hún vex.

Við fréttum af stórum breiðum af burnirót sem eru svo allt í einu horfnar. Þær hafa ekki hlaupið í burtu, einhver hefur hjálpað þeim að fara. Með því að rækta burnirótina sjáum við fram á að fá ekki bara tekjur af henni heldur líka stuðla að því að hún fái frið þar sem hún nær að vaxa,“ segir Pálmi.

Hjónin hittu dr. Petru Illig í Alaska en hún kom á fót burnirótarræktun í Alaska.

Skylt efni: Burnirót

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt