Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
Guðný Gréta Eyþórsdóttir og Hafliði Sævarsson, sauðfjárbændur á Eyjólfsstöðum í Fossárdal. Búið hefur verið útnefnt Úrvalsbú ellefu sinnum, 2013, 2015 og á hverju ári síðan.
Guðný Gréta Eyþórsdóttir og Hafliði Sævarsson, sauðfjárbændur á Eyjólfsstöðum í Fossárdal. Búið hefur verið útnefnt Úrvalsbú ellefu sinnum, 2013, 2015 og á hverju ári síðan.
Mynd / sá
Viðtal 7. júní 2024

Hafa sigur í hverri þraut

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Í fjallasal upp af Berufirði er gróður að sækja í sig veðrið og friðurinn nánast úti fyrir bændur.

„Hér er ekki hægt að tala saman fyrir hávaða því ég er of sein að gefa,“ segir Guðný Gréta Eyþórsdóttir, bóndi í Fossárdal, þegar Bændablaðið ber að garði og hefur tekist að tefja nokkuð fyrir.

Jarmið endurkastast veggja á milli í fjárhúsunum, eins og samfelld hljómkviða. Sauðburður er að hefjast og þau Hafliði Sævarsson, ásamt harðduglegu aðstoðarfólki, búa sig undir að vaka yfir fénu og sinna því vel, enda skiptir þau miklu máli að annast skepnur sínar almennilega.

Fé þeirra dreifist í sex dali

Guðný Gréta ólst upp á Eyjólfsstöðum í Fossárdal en Hafliði er frá Rauðholti í Hjaltastaðarþinghá á Fljótsdalshéraði. Þau útskýra að í Fossárdal séu þrjár jarðir. Þau keyptu jörðina Eiríksstaði, sem er syðra megin í dalnum, og eystra megin eru jarðirnar Eyjólfsstaðir og Víðines en nágranni í Berufirði, Lindarbrekka, á Víðines. Þau búa á tveimur jarðanna, Eyjólfsstöðum og Eiríksstöðum. Þau komu fyrst að búrekstrinum árið 1988 í félagi við foreldra Guðnýjar Grétu, Öldu Jónsdóttur og Eyþór Guðmundsson, en tóku hann yfir árið 1999. Í upphafi byggðu þau sér lítið einbýlishús og síðar fullkomin fjárhús, auk ýmissa endurbóta.

Á bænum eru um 500 vetrarfóðraðar kindur og ekki aðrar skepnur. „Fénu hefur verið sleppt í dalinn í áranna rás og eftir því sem fé fækkar á aðliggjandi svæðum verður dreifingin meiri og er svo komið að ærnar fara niður í sex aðra dali þegar þær koma niður af hálendinu á haustin,“ segir Guðný Gréta og Hafliði bætir við að mjög mikil vinna sé að ná fénu af fjalli á haustin. Þau hjálpa við smölun í aðliggjandi dölum. Smalamennskur standa yfir í rúmar sex vikur og flestir bjartir dagar nýttir. Landslagið sé erfitt yfirferðar og vegalengdirnar miklar suma dagana. Ekið sé inn dalina á bílum á morgnana og svo gengið.

„Hér er þrengra í högum en í dölunum í kring,“ útskýrir Guðný Gréta. „Ærnar hækka sig rólega, stall af stalli, þangað til þær eru komnar inn úr og þá er bara sléttan allt um kring og hending hvort þær lenda í Geitdalinn, Skriðdalinn, Berufjarðardalinn, Breiðdalinn, Hamarsdalinn og jafnvel Fljótsdalinn. En flestar lenda nú aftur niður í Fossárdal. Við vitum þó hvar hópurinn er en féð getur farið undan veðri á allar þessar slóðir,“ segir hún.

Þau segja mikla samhjálp við smalamennsku og ekki erfitt að fá mannskap.

Fossárbændur huga vel að sínu fé og eru annáluð fyrir að sinna sínum skepnum vel.

Markvissar kynbætur

Guðný Gréta segir að þegar foreldrar hennar voru með féð hafi það nær allt verið hyrnt. „Eftir að við byrjuðum að sæða ærnar fyrir rúmum 25 árum hefur kollóttu ánum fjölgað, þær eru ekki eins illskeyttar þó að þær séu styggar og frekar,“ útskýrir hún og bætir við að betur gangi að sameina mjólk og gerð hjá kollóttu ánum en þeim hyrndu. „Svo höfum við kollótta hrúta í gemsunum til að létta þeim burðinn. Þetta eru skepnurnar mínar, þær gefa mér lömbin og þá ber mér skylda til að gera allt sem í mannlegu valdi stendur að hugsa vel um þær,“ segir hún. Athygli vekur í fjárhúsunum að fáeinar hyrndar kindur eru með slöngubúta yst á hornunum. Skýring þess er að slöngubútarnir varna þeim illskeyttustu að stinga aðrar kindur á hol, sem getur gerst í flestum fjárhúsum og veldur jafnvel dauða hjá þeim skepnum sem fyrir verða.

Frá árinu 1998 hefur verið unnið markvisst að kynbótum á sauðfénu, fyrst var stefnt að aukinni holdfyllingu og sett met á því sviði, seinni árin hefur verið kynbætt fyrir fleiri eiginleikum.

„Hér voru áður hlaupandi um fjöllin snarvitlausar rollur sem voru ekki með neitt kjöt á beinunum, bara nánast forystufé. Svo kemur Hafliði með þessa hugmynd um að það sé kannski hægt að hafa meira kjöt á beinunum,“ segir Guðný Gréta.

Hafliði kveðst hafa áttað sig á þessu þegar hann hafði verið í Fossárdal í nokkur ár. „Þegar maður fór að fara um og rýja þá sá maður miklu holdmeiri kindur. Svo kom Europe-kjötmatið og þá gerðum við okkur grein fyrir að sunnan frá Þvottárskriðum og norður að Hellisheiði fóru lömbin mikið í O-flokk, næstlélegasta flokkinn,“ segir hann. Ástæða þess hafi verið að lítil eiginleg holdaræktun var þá í gangi á þessu svæði.

„Afurðirnar voru þó þokkalegar á svæðinu; lömbin ágætlega stór og hugsað hafði verið um að velja ærnar eftir því hvernig þær mjólkuðu,“ heldur Hafliði áfram. En nú sé meira kjöt komið á beinin á eigin fé. Með sæðingum séu þau komin aðeins yfir meðaltal á landinu. „Nú finnst mér þetta gaman,“ segir Guðný Gréta og hlær við. „Að velja saman sæðingahrúta og bestu ærnar og sjá hvað kemur út úr því. En oft er þó verið að kaupa sæði úr úrvalshrútum en þegar það blandast við heimafé er útkoman ekki alltaf sú sem óskað var eftir,“ segir hún.

Verðlaunaskjöl á skemmuveggnum gegna því hlutverki að minna Fossárdalsbændur á að ýmis markmið hafi náðst. Guðný Gréta og Hafliði segja það virka sem hvatningu til að halda sér við efnið og gera helst betur.

Rúningur og þríþraut

Sláturféð fer allt á Húsavík í sláturhús. Þau segjast auðvitað myndu vilja hafa sláturhús nær, því leitt sé að reka lömb upp á bíl vitandi að þau eigi eftir að fara alla þessa leið, hrist saman í krubbu í marga klukkutíma. Þá væri vissulega gaman að geta selt fjallalömbin beint frá býli, sem og til ferðafólksins sem komi á tjaldsvæðið í Fossárdal. Þau hafi hins vegar bara nóg annað að gera og mikil vinna sé að koma slíku af stað.

„Við erum að keyra póst og rýja rollur og allt mögulegt annað en að gefa rollunum allan veturinn,“ greinir Hafliði frá. Guðný Gréta fer til dæmis tvisvar í viku um alla sveit með póst.

Hafliði fer víða til að rýja. „Fyrst og fremst hjá nágrönnunum og svo hætta þeir og þá færist ég aðeins lengra í burtu,“ segir hann sposkur. Líklega megi segja að hann sé sérfræðingur í rúningi á íslenskan mælikvarða. Hann vann Íslandsmeistaramótið í rúningi fjórum sinnum áður en keppnin lagðist af og hefur keppt á heimsmeistaramótum erlendis.

Hann segist hafa fengið nýja sýn á rúning þegar hann kynnti sér vinnubrögð nýsjálenskra rúningsmanna þar sem vandvirkni sé sett framar hraða. Hann sé í góðri æfingu en þó ekki snjallasti rúningsmaður landsins, einhverjir fleiri séu orðnir mjög góðir í þessu. Enda skipti það máli því enn séu brögð að því að ull sé skemmd, bæði af bændum og rúningsmönnum, fyrst og fremst vegna þekkingarleysis. Það vanti stundum upp á flokkunina og að halda fénu hreinu fyrir rúninginn.

Í Fossárdal eru um 500 vetrarfóðraðar kindur. Sauðburður hefur gengið með ágætum.

Gull og silfur

Tveir spegilgljáandi verðlaunapeningar á eldhúsborðinu, gull og silfur, vekja athygli og hjónin eru innt eftir tilefninu. Þetta eru þá verðlaun sem Guðný Gréta hlaut á dögunum í riffilskotkeppni. „Það er alltaf haldið Hammond-skotmót, í kringum Hammond-hátíðina á Djúpavogi,“ útskýrir hún. „Mér gekk vel í ár, keppnin var tvöföld og ég kom með tvenn verðlaun heim.“

Pabbi hennar var mikill veiðimaður og lengi hreindýraveiðileiðsögumaður. Hún ólst þannig upp við veiðar á rjúpu, ref og hreindýrum. „Einhvern tímann í uppvextinum varð ég svo hvellhrædd, bara þoldi ekki hvelli,“ segir hún. „Svo sá ég að þetta gengi ekki lengur. Fannst líka veiðiskapurinn áhugaverður – sögurnar voru svo geggjaðar! Ég saug þær í mig en gat aldrei verið með út af hræðslu. Jón bróðir minn, sem er hreindýraleiðsögumaður, hjálpaði mér að yfirvinna hvellhræðsluna og í kjölfarið fór ég á skotvopnanámskeið 2013 og keypti mér riffil. Einnig fór ég á endurhleðslunámskeið til að geta hlaðið eigin skot. Mín veiðisaga er því stutt en ég hef gaman af veiðum og nú er þetta ekkert mál,“ segir hún enn fremur.

Hafliði er inntur eftir veiðum og kveður sínar veiðar ekki vera með vopnum. Að smala sé náttúrlega veiðiskapur, þá sérstaklega eftirleitir, sem og margar ferðir til að ná fé úr klettum, þar sem alltaf sé stefnan að fanga bráðina lifandi. Hann æfði þríþraut um fimm ára skeið, hefur tvisvar sinnum klárað heilan „Ironman“ og keppt árlega í utanvegahlaupum.

Byssa og bogi

Frægt varð þegar Guðný Gréta, með ársgamalt skotpróf upp á vasann, gerði sér lítið fyrir og sigraði tíu gamalreyndar hreindýraskyttur í þrautabrautar-riffilskotmóti á Egilsstöðum árið 2013. Hún var ein kvenna í keppninni og tók þátt fyrir tilviljun. Þetta þótti svo fáheyrt að það kom í öllum fjölmiðlum. Mótið, Hreindýrahreysti, hefur hún raunar sigrað tvisvar.

En hún er ekki aðeins lunkin skytta á byssu því hún á einnig ýmis verðlaun fyrir bogfimi, á sveigboga. Hún hóf að æfa sig á sveigboga árið 2016 og hefur tekið þátt í nær öllum Íslandsmeistaramótum innan- og utanhúss, og oftar en ekki komið með verðlaunapeninga heim. Vegna axlarklemmu hefur hún þó ekki getað æft á bogann síðasta árið.

Guðný Gréta sótti um að komast á hreindýraleiðsögunámskeið í vetur en var hafnað. Af því spannst allnokkur umræða. „Ég átti ekki von á því að komast inn þar sem ég lét fylgja með umsókninni minni ýmsa fyrirvara svo að þeir sem ætluðu sér að vinna við hreindýraleiðsögn kæmust að á undan mér,“ útskýrir hún.

„Svo að fréttafárið út af þessu var algjörlega á misskilningi byggt. Eftir á að hyggja hefði auðvitað verið gaman að sitja þetta námskeið og rugga aðeins bátunum í karlaheimi; vera fyrsta konan sem gerist hreindýraleiðsögumaður á Íslandi,“ segir hún jafnframt.

Þau Hafliði hafa klætt hluta af hlöðuveggnum með fjölda viðurkenninga sem þeim hefur hlotnast, fyrir búskap, rúning og fleira. Guðný Gréta segir það gert til að minna þau sjálf á að ýmis markmið hafi náðst, það virki sem hvatning til að halda sér við efnið og gera helst betur. Þau hlutu m.a. Landbúnaðarverðlaunin árið 2014, Kjark og þor sveitanna frá Búnaðarsambandi Austurlands árið 2005 og hafa fengið viðurkenningu sem Úrvalsbú frá RML alls 11 sinnum undanfarin ár.

Guðný Gréta er margverðlaunuð skytta, hvort heldur er með riffli eða sveigboga. Hún veiðir einkum hreindýrstarfa, gæsir og tófu. Mynd / Aðsend

Lúpínan verðmætust

Fossárdalur telst líklega nokkuð harðbýll þótt hann sé ekki endilega snjóþungur. Svellalög geta verið mikil og kal í túnum ekki óalgengt. „Sum árin hefur það valdið okkur miklum vandkvæðum. Það er erfitt fyrir sálina eins og annað tjón í búskap. Þá höfum við eitt og eitt ár þurft að fá lánuð tún annars staðar til að heyja,“ segir Hafliði.

Nokkuð vex af birki í mosagrónum og jarðvegsrýrum dalnum og er mikið að breiða úr sér. Guðný Gréta segist muna eftir vetrarbeit fram á unglingsár og þá náði birkið sér lítið á strik. Rauðberjalyng vex og í breiðum, um kílómetra innan við bæinn, og hefur sótt mjög í sig veðrið síðustu áratugi. Að Guðnýjar Grétu mati mættu grasafræðingar fylgjast betur með útbreiðslunni. Í dalnum er einnig mikið af bláberja-, aðalbláberja- og krækilyngi og beitilyng hefur aukist eftir að vetrarbeit linnti.

Guðný Gréta og Hafliði hafa verið í skógrækt á nokkrum tugum hektara. Fjölskyldan hefur gróðursett fjölda tegunda en þó mest af furu. Rússalerki líði ekki vel í dalnum en nýja afbrigðið Hrymur standi sig betur. Furuna segja þau efnilegasta en ekki ólíklegt að greni verði meira notað sem næsta kynslóð. Hafliði segir þó verðmætustu plöntuna í þessu mosalandi Fossárdalsins vera lúpínuna. „Hún hentar ekki alls staðar en hún er virkilega góð til að græða upp rýrlendi. Ég sáði lúpínu 2003 í mela hér út frá og það hefur skilað verulegum landbótum,“ segir hann.

Fossárdalur er upp af Berufirði sunnanvert á Austfjörðum. Hann er um 20 km langur og fellur Fossá niður hann, með um 30 fossum. Dalurinn er ekki snjóþungur en þar myndast oft svellalög og talsvert um kal í túnum. Hér má sjá veginn upp í Fossárdal upp úr dalbotninum, til vinstri.

Friðurinn úti

Systkini Guðnýjar Grétu reka ferðaþjónustu í Fossárdal en foreldrar þeirra hófu þann rekstur um 1980. Upp á síðkastið hefur umferð um dalinn aukist verulega. Nú orðið er farið með gesti úr skemmtiferðaskipunum langt inn eftir á stórum jeppum, tvisvar á dag, fjórum sinnum í viku. Þá er nokkur umferð veiðimanna á hreindýr og rjúpu. Guðný Gréta og Hafliði segja umferðina því hafa margfaldast í hinum áður kyrrláta fjallasal. Vegurinn inn dalinn, sem er þó meira í ætt við slóða, fái einhverjar krónur til viðhalds á nokkurra ára fresti enda þurfi stundum gröfu til endurbóta. Hafliði heldur slóðanum þokkalegum með því að leggja nokkur dagsverk árlega í að slétta hann og tína úr honum grjótið, svo komast megi hindrunarlaust til að smala, og segir mikilvægt að slóðinn haldist opinn þess vegna.

Þau segja slóðann engan veginn bera þá umferð sem nú sé orðin um hann og það horfi til vandræða. Túrismi á löndum bænda núorðið sé víða á gráu svæði og hugsa þurfi málin alveg upp á nýtt á landsvísu. Jafnframt megi setja spurningarmerki við hjólin sem hreindýraveiðimenn noti og fari á þeim yfir hvað sem er, hvar sem er. Þau skilji eftir sig ljót för og skemmdir. „Þetta er allt saman svolítið að fara úr böndunum,“ segja þau.

Hvergi bangin

Guðný Gréta og Hafliði eiga þrjá syni. Sá elsti er umhverfis- og byggingarverkfræðingur í Svíþjóð, miðjudrengurinn flugmaður og búsettur í Hafnarfirði og sá yngsti er í mastersnámi í sjúkraþjálfun. Þau útskýra að allir hafi þeir farið í Menntaskólann á Egilsstöðum og verið í fótbolta á sumrin svo að í raun hafi þeir flutt að heiman 16 ára gamlir. „Þeir hafa allir gaman af því að smala, koma í sauðburð og annað, en það verður enginn þeirra sem tekur við hér, held ég,“ segir Guðný Gréta. Kannski ekki síst vegna aðstæðnanna í Fossárdal, haustin séu alveg gríðarlega annasöm. Þau Hafliði segjast ekkert bangin í sínum búskap og allavega tíu ára framtíðarplan í gangi. Þau ætli sér þó kannski ekki að verða „höktandi gamalmenni“ í búskapnum eins og víða sé, en það eigi eftir að koma í ljós.

Slöngubútar á hornendum varna illskeyttu fé að stinga aðrar kindur á hol.

Skylt efni: Fossárdalur

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt