Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Ásgeir Pétursson með dótturinni Þorbjörgu Gígju í minkahúsi í Dalsbúinu í Helgadal.
Ásgeir Pétursson með dótturinni Þorbjörgu Gígju í minkahúsi í Dalsbúinu í Helgadal.
Mynd / HKr.
Viðtal 13. apríl 2016

Hefur byggt upp öflugt bú og hyggst þrauka af djúpa lægð á markaðnum

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Ásgeir Pétursson rekur ásamt fjölskyldu sinni loðdýrabúið Dalsbú í Helgadal sem er inndalur úr Mosfellsdal. Hann er í hópi frumkvöðla í þessari grein og hefur haldið sjó þrátt fyrir margvísleg áföll sem greinin hefur mætt í gegnum tíðina.  
 
Undanfarin tvö ár hefur verið verðfall á skinnamarkaði um allan heim. Það hefur þýtt að nú er verið að framleiða skinn langt undir kostnaðarverði. Búist er við að margir hrökkl­ist út úr þessari grein, einkum þeir sem eru með dýrasta fóðrið og þeir sem hafa verið að fá lægsta verðið fyrir sín skinn. Sem dæmi hafa margir kínverskir bændur orðið að hætta rekstri, enda að fá lélegt verð fyrir sína framleiðslu og þurfa auk þess að sækja fóðrið um langan veg. Segist Ásgeir hafa frétt af Kínverjum að leita eftir kaupum á hráefni í fóður hjá hollenskum alifuglasláturhúsum. Þá hafa fjármálamenn sem ætluðu sér að ná í skjótfenginn gróða á uppgangsárum loðdýraræktarinnar verið að halda að sér höndum. 
 
Efnahagslægð og offramleiðsla á skinnum orsök niðursveiflu á skinnamarkaði
 
Ástæða verðfallsins er niðursveifla í efnahag um allan heim, ekki síst í Rússlandi og í Kína þar sem mest hefur verið keypt af loðskinnum það sem af er þessari öld. Rússneskir kaupendur sjást t.d. varla lengur á skinnauppboðum hjá Finnish Fur Sales og Kobenhagen Fur í Danmörku þar sem íslensku bændurnir selja alla sína framleiðslu.
 
Í þessum ólgusjó standa íslenskir minkabændur einna best að vígi ásamt dönskum bændum, sem hafa verið með verðmætustu skinnin á markaðnum. Ásgeir er því bjartsýnn á að ef íslenskum bændum tekst að standa af sér fjárhagslegan samdrátt meðan á þessu stendur og fá skilning til þess hjá fjármálstofnunum, þá styttist óðum í að framleiðslan hér fari að skila ásættanlegum hagnaði á nýjan leik. Þess má geta að Dalsbúið var á lista Creditinfo; „Framúrskarandi fyrirtæki 2015“.
 
Siglfirðingur að uppruna
 
Það er ekki galin samlíking að segja að Ásgeir hafi haldið sjó í þeim áföllum sem riðið hafa yfir í loðdýraræktinni. Ásgeir, sem er Siglfirðingur að uppruna, kom einmitt beint af sjónum inn í þessa grein.
Faðir hans var Pétur Þorsteinsson, skipstjóri og seinna hafnarvörður á Siglufirði, og móðir hans var Sigríður Þorláksdóttir, verslunarkona og saumakona á Siglufirði. Þegar staðan var döpur á markaðnum um miðjan áttunda áratuginn tók Ásgeir sér hlé frá minkaræktinni um tíma og gerðist skipstjóri á flutningaskipum. Ættingjar hans hafa víða komið við sögu í útgerð og fiskvinnslu hér á landi. Má þar t.d. nefna náfrændur hans, Jón Pál, Ólaf og Guðmund Halldórssyni, sem mjög hafa komið við sögu á þeim vettvangi á Ísafirði og í Bolungarvík. Ólafur og Ásgeir eru reyndar jafnaldrar. Einnig má nefna Þorstein afa hans og afabræður, þá Ásgeir Pétursson og Guðmund Pétursson, sem var einn stærsti síldarsaltandi landsins og skipaeigandi í byrjun síldarævintýrisins.
 
Eiginkonan í söðlasmíði
 
Eiginkona Ásgeirs er Guðrún Helga Skowronski söðlasmiður. Hún sér um hrossin á bænum og er auk þess að koma sér upp litlum sauðfjárstofni til gamans og til kjötframleiðslu fyrir heimilið. Þá eru þau einnig með nokkrar hænur af nokkrum mismunandi tegundum. Eggin undan þeim eru líka æði mismunandi, sum brún og önnur græn og hvít. Guðrún Helga lærði söðlasmíði í London og leggur mikið upp úr handverkinu við smíðina þar sem handsaumur sé alltaf fallegri í söðlasmíðinni en vélsaumur. 
 
Dalsbúið var sett á fót 1. jan. 1970 
 
Minkarækt á Dalsbúinu á sögu að rekja aftur til 1970. Átti Ásgeir þá hlut í búinu og ákvað hann ásamt félaga sínum og meðeiganda, Gunnari Baldurssyni, skólabróður sínum úr Stýrimannaskólanum, að fara til Noregs að læra loðdýrarækt. 
 
Aftur á sjóinn og minkabúinu lokað um áramótin 1975–1976
 
Eftir Ársdvöl í Noregi fóru Ásgeir og Gunnar aftur heim á búið 1970. Erfiðleikar samfara lágu skinnaverði og miklum fjárfestingakostnaði knúðu eigendur þó til að hætta starfsemi um áramótin 1975 og 1976. Þá fór Gunnar félagi hans aftur á sjó og sigldi eftir það sem stýrimaður og skipstjóri á skipum Eimskips þar til hann fór á eftirlaun.
 
Gerðist skipstjóri hjá Finnboga Kjeld
 
Ásgeir fór líka á sjóinn. Sigldi hann á flutningaskipum fyrir Finnboga Kjeld með ýmsan varning um Evrópu,  Miðjarðarhafið og til Afríku í ein tíu ár. Fyrst sem 1. stýrimaður á MS Eldvík undir skipstjórn skólabróður síns, Guðmundar Arasonar, en þó lengst af sjálfur sem skipstjóri, bæði á Eldvíkinni og MS Keflavík í um 10 ár.
 
„Við vorum að sigla með ýmsar vörur, m.a. saltfisk frá Íslandi til Portúgal, Spánar og Grikklands og fluttum svo salt til baka frá Spáni. Einnig fluttum við skreið til Afríku.“
 
Útgerðarmaðurinn Finnbogi
 
Útgerðarmaðurinn Finnbogi Kjeld, sem Ásgeir starfaði hjá, lést í febrúar 1993, þá aðeins 55 ára að aldri. Hann lét m.a. breyta síðutogaranum Ísborgu frá Ísafirði í flutningaskip og var hann sjálfur 2. stýrimaður þar um borð. Með honum voru fyrrverandi skipstjórnarmenn af M/S Drangajökli sem hvolfdi skyndilega og sökk í Pentlandsfirði á Orkneyjum í júní 1960. Áður hafði hann verið stýrimaður á bandarískum flutningaskipum og togurum.
 
Finnbogi keypti flutningaskipið Grjótey árið 1969 af Björgun hf. sem hafði bjargað skipinu af strandstað við Raufarhöfn. Stofnaði hann þá skipafélagið Víkur h/f. Fékk skipið eftir það nafnið Eldvík. Hann gerði síðan út fleiri skip undir merkjum Víkur h/f. sem hann var aðaleigandi að. Þar má nefna aðra Eldvík sem hann keypti 1975. Hann gerði einnig út flutningaskipin Hvalvík og Keflavík. Þá var Finnbogi líka eigandi Saltsölunnar h/f. Hann haslaði sér einnig völl í fiskeldi og átti meirihlutann í Pólarlaxi h/f. við Straumsvík og Fiskeldi h/f. á Húsavík. Þá má geta þess að Finnbogi keypti stóran hlut í skipafélaginu Hafskipum 1985 og settist þá í stjórn þess félags. Hafskip hafði þá átt í miklum rekstrarerfiðleikum. Ekki hagnaðist Finnbogi á þeim kaupum, því félagið fór í greiðslustöðvun í nóvember sama ár og var lýst gjaldþrota 6. desember 1985.  
 
Ásgeir keypti alla hluti í Dalsbúinu 1980 
 
„Ég keypti svo hlut félaga minna í Dalsbúinu 1980 en við vorum fimm sem byrjuðum með það í upphafi,“ segir Ásgeir. „Ég var ekki sáttur við að leggja þessa starfsemi af því ég taldi að við Íslendingar gætum stundað loðdýrarækt eins vel og aðrar þjóðir. Síðan vann ég við það á sumrin að laga búið til. Núna erum við búin að sanna það að þetta er hægt. 
 
Þegar byrjað var á minkaræktinni á sjöunda áratugnum voru í upphafi ein sjö eða átta loðdýrabú. Þar á meðal voru þrjú á þessu svæði. Búið Lykkja á Kjalarnesinu, eitt bú á Skeggjastöðum og síðan búið hér í Helgadal.  
 
Við vorum með sameiginlega fóðurstöð hjá Barðanum í Kópavogi. Uppbyggingartíminn var mjög erfiður og á þessum árum var verð á skinnum lélegt. Við skulduðum mikið og enga fyrirgreiðslu var að hafa. Menn sáu því fram á áframhaldandi vandamál og lokuðu búunum.“ 
 
Byrjaði aftur með mink 1986
 
„Ég keypti búið eins og áður sagði árið 1980 og vann ég að lagfæringum á því í fríum frá sjómennskunni á sumrin. Ég byrjaði á því að laga fóðurstöðina. Fyrstu nýju dýrin fékk ég svo inn í búið 13.  janúar 1986. Síðan hef ég verið hér að rækta mink.“
 
Í Dalsbúi eru nú um 2.300 læður. Meira en helmingurinn af stofninum í búinu er hvítur. Eru hvítu skinnin vinsæl hjá Kínverjum sem vilja eiga möguleika á að lita skinnin eftir óskum viðskiptavina og til að fylgja eftir breytilegum tískustraumum. Þannig er það líka með öll refaskinn sem þeir kaupa af Finnum. Þá eru á Dalsbúinu um 400 svartar læður og um 400 læður með kremuðum perlulit. Svarta litabrigðið er reyndar mjög þróað í Dalbúinu, en það var ríkjandi þegar búið var opnað að nýju 1986.  
 
Með öflugan starfsmann frá Eistlandi
 
Ásgeir er með öflugan starfsmann sér til halds og trausts við að sjá um minkaræktina. Hann heitir Andrus Veski og kom til hans frá Eistlandi árið 2000 til að vinna á búinu í eitt ár. 
 
„Þegar þetta eina ár var að verða liðið kom hann til mín og spurði hvort það væri ekki í lagi að hann yrði eitt ár í viðbót. Ég hélt það nú og hann er hér enn og vill hvergi vera annars staðar,“ segir Ásgeir.
 
Þess má geta að Andrus býr ásamt fjölskyldu sinni í húsi sem er við gaflinn á minkabúinu. Það hús reisti Ásgeir á sínum tíma fyrir sig, en þar bjuggu um tíma tvær fjölskyldur. Reisti Ásgeir síðan annað íbúðarhús á lóðinni þar sem hann býr nú ásamt sinni fjölskyldu.
 
Andrus stýrir ýmsum hlutum á búinu, m.a. við fóðurstöðina og sér um pelsadeildina sem er komin með nýtískulegan og tölvuvæddan tækjakost til að auðvelda þeim vinnuna. Byrjað er að pelsa í kringum 10. og 12. nóvember og eru skinnin þá send frá stöðinni um mánuði seinna. Fara þau skinn venjulega á uppboð hjá Kobenhagen Fur í janúar eða síðar, en líka eru þar haldin uppboð í febrúar, apríl, júní og í september. 
 
Fóðurstöðin endurbætt og stækkuð
 
Ásgeir er með eigin fóðurframleiðslu og stækkaði hann aðstöðuna fyrir ári síðan og er þar m.a. með öfluga frystigeymslu. Segist hann með því spara mikinn kostnað sem annars hlytist af því að sækja fóðrið um langan veg, frá Selfossi eða frá Sauðárkróki.  „Það yrði allt of mikill akstur með fóðrið,“ segir Ásgeir. 
„Gömlu fóðurstöðinni var breytt í kæli og hraðfrysti og ég byggði yfir fóðurblöndunartækin nýtt hús sem ég tók í notkun fyrir einu ári. Hér er orðin mjög góð vinnuaðstaða, en við eigum þó eftir að gera smá lagfæringar á búnaðinum í viðbót svo þetta sé eins og við viljum hafa það.“
 
Þá hefur mikil endurnýjun átt sér stað á minkahúsunum sjálfum á undanförnum árum. Tvö hús sem byggð voru 1970 voru t.d. endurbyggð fyrir tveim árum og stækkuð til að auðvelda alla vinnu við dýrin.  Þá steypti Ásgeir alla ganga í búinu á árum 1981 og 1982 til að gera umgengni og umhirðu auðveldari, en þar voru áður malargólf. Á árunum 1998 og 1999 var svo stærsta minkahúsið byggt. 
 
Lykilatriði í rekstrinum
 
Fóðurstöðin er að mati Ásgeirs lykilatriði varðandi rekstur búsins og komi til með að tryggja þeim eins lágt fóðurverð og kostur er. Dalbúið notar um 600 tonna af minkafóðri á ári svo til mikils er að vinna. Að vísu fylgi uppbyggingu fóðurstöðvarinnar töluverður kostnaður til að byrja með. Í stöðinni er síðan hægt að stýra nákvæmlega blöndun fóðursins í takt við þörf dýranna hverju sinni. 
 
„Á sumrin höfum við blönduna kröftugri til að tryggja hraðan uppvöxt hvolpanna. Á veturna er næringarinnihald fóðursins minna svo dýrin verði ekki of feit. Að lokinni pelsun í byrjun desember þurfum við strax að fara að ná dýrunum niður þyngd um að minnsta kosti 30%. Í febrúar förum við svo að gefa högnunum öflugra fóður til að ná þeim upp aftur. Læðurnar verða líka að vera á uppleið þegar fengitíminn byrjar. Ef þær eru ekki nógu vel aldar verða þær órólegar og slást sér til tjóns. Allt þarf því að vera í góðu lagi til að ástarlífið geti gengið eðlilega fyrir sig.“
 
-En er ekki skinnaverðið allt of lágt um þessar mundir?
„Verðið er alverg örugglega helmingi of lágt. Það er langt undir framleiðslukostnaði. Ég held að það verði erfitt fyrir greinina um allan heim að standa þetta af sér. Danir eru stærstu framleiðendur heims á minkaskinnum og þeir telja sig nú vera að fá um 100 dönskum krónum minna fyrir hvert skinn en þeir þurfa að fá til að standa á núlli. Samt eru danskir minkabændur að fá hæstu verð sem þekkjast á heimsmarkaði, eða rétt rúmlega 200 krónur. Við Íslendingarnir erum fast á hælunum á þeim.“ 
Þess má geta að fyrir verðfallið sem hófst haustið 2013 voru Íslenskir bændur jafnvel að fá um 600 til 700 danskar krónur fyrir allra verðmætustu skinnin svo fallið er mikið. Í febrúar 2014 var meðalverðið á íslensku skinnunum komið niður í 347 danskar krónur en hangir núi í kringum 200 krónur.
 
Gríðarlegt tap í minkaræktinni um allan heim
 
„Danskir minkabændur voru komnir með allt upp 18,5 milljónir skinna framleiðslu á ári, en talið er að hún fari hressilega niður núna. Bæði vegna verðlækkana og blóðsjúkdóms sem herjar á dönsku búunum. Í mörg ár voru þeir með 13 til 14 milljónir skinna. Ef við miðum bara við þá tölu og að það vanti um 100 krónur danskar á hvert skinn til að standa undir framleiðslukostnaði, þá þýðir það að árlegt tap hjá þeim er að minnsta kosti 1,3 milljarðar danskra króna á ári (um 24,5 milljarðar íslenskra króna). Þá er spurningin hvort þeir hafi svo góða aðstöðu í bönkum að þeir fái lánafyrirgreiðslu upp á svo gríðarlegar upphæðir.
Sem dæmi um verð á markaðnum í fyrrahaust, þá voru Úkraínumenn að fá rétt rúmlega 100 danskar krónur á skinn.  Kanadamenn sem talir eru hafa verið með mjög góð skinn í gegnum tíðina voru aðeins að fá að meðaltali 115 krónur. Ég var mjög hissa að sjá þetta, að vísu eru skinnin hjá Kanadamönnunum mun minni en okkar. Danir eru hinsvegar með mjög stór skinn, en mikil þróun hefur verið í þá átt sem og varðandi meiri gæði,“ segir Ásgeir. Hann telur að fóðurkostnaður danskra bænda sé áþekkur því sem þekkist hér á landi og víða um heim. 
 
Mikil þróun í ræktun og dýrin tvöfalt til þrefalt þyngri en fyrir 40 árum
 
Fyrstu minkarnir sem fluttir voru til Íslands upp úr 1930 komu frá Ameríku. Þeir voru mjög smávaxnir. Á fyrsti árunum var talsvert um að þeir slyppu úr búum og eru þeir nú uppistaðan í þeim villta minkastofni sem hér er að finna í dag.  
 
Um 1970 voru læðurnar í minkaeldinu á Íslandi um 600 til 800 grömm að þyngd. Þyngstu högnarnir voru þá um 1,6 til 1,8 kíló. Algeng þyngd á læðum í dag er um 1.700 grömm og meira og eru ekki lengur settar á læður sem eru léttari en það. Ekki er óalgengt að sjá högna í Dalbúinu í dag á bilinu 3,2 til ríflega 4 kíló. Er hvíti minkurinn að jafnaði stærri en önnur litaafbrigði. 
 
„Stærstu högnarnir sem við höfum verið með hafa verið 4,8 kíló, en dönsku bændurnir eiga högna sem eru orðnir 6 kíló að þyngd. Eru Danir þar alltaf skrefinu á undan okkur Íslensku bændunum. Má segja að þyngd á minkahögnum  í dag  sé svipuð og refirnir voru í loðdýraeldinu fyrir 40 árum. Nú eru margir refir á búum í Finnlandi hinsvegar komnir í 20 til 30 kíló.“ 
 
Mikið gengið á eigið fé búanna
 
Segir Ásgeir að vegna mikillar uppbyggingar og endurnýjunar á vélum og búrum á undanförnum árum, þá séu íslenskir bændur nú mjög farnir að ganga á eigið fé búanna. Endurnýjun búnaðar sé þó nauðsynlegur m.a. vegna nýrra aðbúnaðarreglugerða líkt og í öðrum búgreinum.
 
„Kröfur um bættan aðbúnað dýra hafa aukist mjög. Ég hef þó ekki hitt neinn bónda sem ekki vill fara vel með dýrin sín, eða hægt er að kalla dýraníðing. Þeir eru manna meðvitaðastir um það að ef þeir fara ekki vel með dýrin, þá þýðir það bara tap fyrir bóndann vegna lélegri afurða.“
 
Allir loðdýrabændur heimsins sameinist um að draga úr framleiðslu
 
„Vegna stöðunnar á heimsmarkaði nú er það mín skoðun að hver einasti loðdýrabóndi í heiminum eigi að skera niður sína framleiðslu um að minnsta kosti 10%. Þeir sem eru með stórbú þurfa auðvitað að skera miklu meira niður. Ég held að allir bændur heimsins verði að taka á þessu máli. Það er ekki sá kapítalismi sem maður sættir sig við að beðið sé eftir að einhverjir séu kvaldir til dauða,“ segir Ásgeir. 
 
Yfir 90% af hráefninu í fóðrið fæst í seilingarfjarlægð frá búinu
 
„Þá erum við svo heppin að allt hráefni til fóðurgerðarinnar fæst hér í næsta nágrenni. Þar er um að ræða hráefni sem til fellur í kjúklingasláturhúsi Ísfugls í Mosfellsbæ. Við tökum allt sem til frá þeim einkum ásumrin sem annars þyrfti að urða með ærnum kostnaði. Á veturna lögum við fóður tvisvar til þrisvar í viku og tökum einungis það sem til þar í hvert skipti frá kjúklingasláturhúsinu. Annað er fiskúrgangur sem við sækjum einkum í fiskvinnslustöðvarnar í Reykjavík. Það lengsta sem við förum í hráefnisöflun er líklega á Grandann í Reykjavík sem er um 20 kílómetra keyrsla. Einstaka sinnum förum við í Hafnarfjörð að sækja fiskúrgang.
 
Þetta er uppistaðan í fóðrinu fyrir minkana, en það eina sem við kaupum erlendis frá eru vítamín, sojaolía og sýrur. Við fáum því vel yfir 90% af öllu hráefninu hér í næsta nágrenni við okkur.“
 
Skapa verðmæti úr því sem annars væri hent  
 
„Korn sem notað er í fóðrið fáum við líka innanlands. Það kaupum við af Fóðurblöndunni, einkum á haustin. Svo fáum við matarafganga sem til falla hjá veisluþjónustufyrirtækjum  sem annars þyrfti að eyða með tilheyrandi kostnaði í Sorpu. Það má því segja að við séum að stunda sorpeyðingu fyrir fjölmarga aðila og umbreyta því í útflutningsverðmæti.
 
Við erum trúlega að taka um 300 tonn af úrgangi sem til fellur í kjúklingasláturhúsi Ísfugls á hverju ári. Það er í sjö kílómetra fjarlægð frá minkabúinu. Vegur það drjúgt á móti kostnaði við að eyða minkaskrokkum sem kostar um hálfa milljón króna á ári.“
 
Bannað að nýta minkaskrokkana í fóður
 
Þó eflaust mæti framleiða mjöl eða fóður fyrir önnur dýr úr minkaskrokkunum, þá segir Ásgeir að Matvælastofnun banni slíkt, m.a. vegna hættu á útbreiðslu sjúkdóma. Hann segir að þegar hann var við nám í Noregi hafi refaskrokkar verið soðnir og var blandað saman við korn í fóður handa bæði mink og ref. 
 
„Það var síðan algjörlega bannað í Noregi að nota minkaskrokka í slíka fóðurgerð vegna blóðsjúkdóms sem upp kom og var rakin til notkunar á minkakjöti.  Hann var kallaður „allusion“, en er nú nefndur „plasmacytose.“ Íslenskir minkabændur háðu mikla baráttu við þennan sjúkdóm í minkum sem fluttir voru frá Noregi 1969 fram yfir 1980. Eftir það var skipt um dýrastofn og nýr og stofn sem var laus við þennan sjúkdóm fenginn frá Danmörku. Síðan hefur verið mjög strangt innflutningsleyfi og allt flutt inn í gegnum sóttvarnarbú.“
 
Sjúkdómurinn landlægur í íslenskum villimink
 
„Eina hættan fyrir okkur hér á landi er að villti minkurinn úti í náttúrunni er með  „plasmacytos“ sjúkdóminn. Gamli stofninn sem kom hingað frá Bandaríkjunum upp úr 1930 var allur sýktur.“
Ásgeir segist vita um bú á Norðurlandi sem hafi orðið að hætta tímabundið eða alveg vegna sýkinga sem barst inn í þau frá villtum mink. Því sé lögð mikil áhersla á að búin séu algerlega minkaheld. Hann segir fyrstu merkin um slíkt smit sé að dýrin verði óeðlilega þyrst. Sár grói ekki og frjósemi dýranna minnki.  
Þessi sjúkdómur veldur n.a. innvortis blæðingum vegna leka í æðum. Eru danskir minkabændur nú að glíma við þennan sjúkdóm og hafa þeir neyðst til að skera niður öll dýr á um 200 af 1.500 minkabúum.
Norskir minkabændur lentu í svipuðum hremmingum fyrir nokkrum árum þegar þar kom upp lömunarsjúkdómur. Var þá skipt um stofn og ný eldisdýr fengin  frá Danmörku. 
 
Íslenskir minkabændur hafa árlega sótt töluverðan fjölda lífdýra frá Danmörku til að byggja upp stofninn á Íslandi. Nú hafa íslenskir minkabændur ákveðið að loka algjörlega fyrir slíkan innflutning til að halda hreinleika íslenska stofnsins. Ekki er útlit fyrir að breyting verði á þeirri ákvörðun í bráð þar sem sjúkdómurinn hefur verið að breiðast út í Danmörku. 
 

9 myndir:

Skylt efni: minkarækt | Dalsbú

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt