Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 11 mánaða.
Hressileg í kuldanum með hundinn Bósa í fanginu, eftir gönguferð í Gróttu
Hressileg í kuldanum með hundinn Bósa í fanginu, eftir gönguferð í Gróttu
Mynd / Víðir Kalmar Andrésson
Viðtal 1. febrúar 2024

Með ilmandi umslög í farteskinu

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Reykjavíkurmærin Jóhanna Lúðvíksdóttir kvaddi samstarfsmenn sína í Bændasamtökunum nú ekki löngu fyrir áramót, eftir heil 35 ár í starfi.

Jóhanna, sem er fædd og uppalin í Vesturbæ Reykjavíkur, kom í heiminn með aðstoð vinkonu móður sinnar, Björneyjar Jónu Björnsdóttur, hjúkrunarfræðings og ljósmóður. Á uppvaxtarárunum var Jóhanna í sveit á sumrin að Núpum og Bakka í Ölfusi, en hún á ættir að rekja til Suðurlandsins.

„Amma mín og afi í móðurætt voru Skaftfellingar en árið 1927 fluttust þau búferlum með sex börn undir ellefu ára aldri frá Kirkjubæjarklaustri í Ölfusið. Þetta var heilmikið ferðalag enda engar ár brúaðar og farið á hestum að Núpum þar sem þau settust að, en mamma mín, Gyðríður Jóhannsdóttir, fæddist þar ári seinna,“ segir Jóhanna.

Föðurætt Jóhönnu er úr Reykjavík en faðir hennar, Lúðvík Einarsson, gegndi stöðu sem fulltrúi hjá Björnsbakaríi við Vallarstræti. Missti hann því miður heilsuna allt of snemma og lést árið 1978.

Jóhanna giftist Víði K. Arnórssyni árið 1985, en saman eiga þau börnin Lúðvík Kalmar og Láru Ósk, fædd 1976 og 1985 auk dótturdótturinnar, Heiðbjartrar Sveinbjörnsdóttur, sem er fædd árið 2006.

Jóhanna með Heiðbjörtu, dótturdóttur sinni, á leið í réttir ásamt öðrum fjölskyldum vinnufélaganna.

Flókaskór ráðunauta og ilmandi umslög

Árið 1988 hóf Jóhanna störf í tölvudeild Búnaðarfélags Íslands sem staðsett var í Bændahöllinni við Hagatorg, nánar tiltekið þann 1. október. Var félagið formlega stofnað árið 1899, íslenskt hagsmunafélag bænda sem hafði framfarir í landbúnaði að meginmarkmiði. Sameining þess við Stéttarsamband bænda varð árið 1995 og nafninu formlega breytt í Bændasamtök Íslands.

„Hann réð mig til starfa hann Gunnar Hólmsteinsson skrifstofustjóri, en Jónas Jónsson var þá búnaðarmálastjóri og Pétur Þór Jónasson gegndi stöðu yfirmanns tölvudeildar á undan Jóni Baldri Lorange,“ hefur Jóhanna mál sitt. „Ég gleymi því ekki hvað mér fannst allt forneskjulegt á tölvudeildinni! Áður vann ég á skrifstofu þar sem ritvélar og tölvur voru af nýjustu gerð en þarna unnum við á stórri skráningarvél með pínulitlum skjá. Við stúlkurnar sem sátum hvor á móti annarri áttum það svo til að hlæja þegar við heyrðum í flókaskóm ráðunautanna á hæðinni fyrir ofan er þeir strunsuðu um gólfin.

Þarna var annars fyrirtaks fólk og mér fannst strax gott að vinna þarna. Starfið fólst í skýrsluhaldsskráningu á sauðfjárbókum, mjólkurskýrslum, loðdýrabókum, frjótækniskýrslum og þess háttar skýrslum sem bændur handskrifuðu og sendu í pósti til okkar í Búnaðarfélagið. Oft var lyktin ekki góð þegar við opnuðum þykk og stór umslögin og þá sérstaklega loðdýrabækurnar. Við stelpurnar töluðum oft um að nota hanska við að handfjatla þær,“ segir Jóhanna og hlær.

„Við slógum tölurnar inn með hægri hendinni eins hratt og mögulegt var, auk þess sem seinna var sett á bónuskerfi til að hvetja okkur enn frekar. Best var að vera nógu fingralipur og snöggur til að geta skilað bókum og skýrslum á réttum tíma til ráðunautanna. Þegar bónuskerfið kom til sögunnar gátum við haft töluvert betri laun við að pikka á lyklaborðið. Við vorum fjórar til að byrja með í skráningunni og fyrir jólin þegar mest var að gera, kom Sigga [Sigríður Þorkelsdóttir] á skrifstofunni til að hjálpa okkur vegna mikillar vinnu.

Við skiptum með okkur deginum, tvær fyrir hádegi og tvær eftir hádegið. Yfirvinna var þó nokkur og næturvinna. Það var yfirdrifið að gera í vinnunni, en aldrei leiðinlegt,“ segir hún kímin.

Jóhanna með Sauðfjárbókina sem inniheldur skrár sauðfjárbænda og upplýsingar um bústofninn.

Tiltektardagarnir afar vinsælir

Félagslífið var líflegt og minnist Jóhanna þriggja daga rútuferðalaga þar sem bændur og aðrir tóku hópnum opnum örmum hvar sem þau bar að garði. Ferðalög í réttir með börn eða barnabörn voru líka árleg og nutu mikilla vinsælda.

„Þau voru ýmis uppátækin. Sem dæmi má nefna tiltektardagarnir svokölluðu, þeir lituðu aldeilis tilveruna! Þá settu allir sig í stellingar svolitlu áður og ákváðu hverju skyldi klæðast. Hvert svið fyrir sig var í samsvarandi búningum í vinnunni og svo voru veitt verðlaun í lok dags. Sá sem gegndi stöðu dómnefndar, ef svo má kalla, var alltaf utanaðkomandi aðili, einhver hlutlaus skrifstofumaður af hótelinu fenginn til að velja sigurvegarana.

Einhvern vorum við á skrifstofusviðinu í fyrsta sæti - sem hippar. Það
var ógurlega gaman.“

Skrifstofusviðið með Gylfa Þór, fyrrverandi fjármálastjóra, í fanginu, en þarna unnu þau fyrstu verðlaun fyrir búninga á tiltektardegi ... sem hippar.

Öllum hnútum kunnug

Eftir að hafa unnið í tölvudeildinni í nokkur ár fór Jóhanna að vinna hálfan daginn á hæðinni fyrir ofan, í skjaladeildinni.

„Árið 2004 sá ég um skjalasafn Bændasamtaka Íslands hluta úr degi á móti skráningarvinnunni. Árið 2007 fór ég svo í fullt starf á skrifstofu Bændasamtakanna við reikningagerð og ýmislegt þar að lútandi auk utanumhalds áskrifenda Bændablaðsins og smáauglýsinganna. Til viðbótar sá ég um sölu bóka og plakata, en eftirspurnin eftir bókum var svo mikil að heil geymsla var nýtt undir staflana.“

Henni er minnisstætt þegar félagsgjöldin voru send út í fyrsta sinn árið 2017, en mikil vinna lá þar að baki og stóðu þær stöllur Sigríður Þorkelsdóttir vaktina ásamt góðu fólki undir stjórn Guðbjargar Jónsdóttur, þá verkefnastjóra. Kom svo engum á óvart að starfsfólk var jafn önnum kafið, eftir sendingu félagsgjaldanna, við að svara og vinna úr tölvupóstum og símtölum.

Sú ákvörðun var tekin að bændum voru sendir gíróseðlar vegna félagsgjalda, eftir að búnaðargjald var fellt niður og hefðbundin félagsgjöld tekin upp. Með þeirri aðgerð var létt af um 600 milljóna króna útgjöldum af landbúnaðinum en hluti þeirra fjármuna, um 130 milljónir króna, fóru til Bændasamtakanna.

Jóhanna tekur fram að hún hafi alla tíð verið afar heppin með samstarfsfólk.

„Við höfum unnið saman alveg frá byrjun, reyndar alveg upp á dag, við Sigríður Þorkelsdóttir og Gylfi Þór Orrason, fyrrverandi fjármálastjóri Bændasamtakanna, sem hóf störf sín hjá Framleiðsluráði landbúnaðarins einungis tvítugur að aldri árið 1979. Við höfum verið gott teymi í gegnum árin en Gylfi lauk störfum á síðasta ári. „Sigga er enn við störf hjá Bændasamtökunum og þar á ég góða vinkonu og samstarfskonu til margra ára.“

Þær Jóhanna og Sigga gefa lífinu lit.

... og útgáfusviðinu líka

Þegar kemur að starfi tengdu útgáfusviðinu, segist Jóhanna hafa séð um ýmsa reikningagerð fyrir sviðið og seinna tekið við smáauglýsingum Bændablaðsins.

„Það var nú ekki leiðinlegt að fá að kynnast vinnslu blaðsins sem er í dag mest lesna blaðið hérlendis. Eins og áður sagði tók ég að mér að sjá um smáauglýsingarnar sem sumar hverjar geta verið bráðskemmtilegar. Svolítið hefur verið um það í gegnum árin að fólk sé að hrekkja vini eða félaga og óska eftir birtingu auglýsinga fyrir þeirra hönd – en við sem tökum á móti auglýsingunum könnum alltaf hvort um prakkarastrik sé að ræða.“

Jóhanna hefur annars alltaf nóg að gera þótt hún sé komin á eftirlaun. Hún nýtur þess að fara í göngutúra, heimsækja sveitina, hitta vinkonur á kaffihúsi, hafa það huggulegt með fjölskyldunni, nú eða stökkva í leikfimi, enda bráðungleg og full lífsorku, brosmild að vanda.

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt