Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Signý Jónsdóttir, Sigmundur Páll Freysteinsson og Íris Indriðadóttir vinna saman að því verkefni að koma æðardúni í flíkur.
Signý Jónsdóttir, Sigmundur Páll Freysteinsson og Íris Indriðadóttir vinna saman að því verkefni að koma æðardúni í flíkur.
Mynd / Ólöf Rut Stefánsdóttir
Viðtal 29. nóvember 2024

Ný framleiðsla á æðardúnshúfum og -lúffum

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Íslenskur æðardúnn er verðmætur og fágætur og því eftirsóttur sem hráefni til framleiðslu á vönduðum æðardúnsvörum. Mest hefur farið fyrir sængurvörum, en ýmsar aðrar vörur eru í framleiðslu og er nú von á fyrstu æðardúnshúfunum og -lúffum frá hönnunarteyminu Erindrekum.

Æðardúnninn þykir hafa eiginleika sem eru einstakir; mýkt og léttleika, auk þess að einangra sérstaklega vel.

Von er á nýjum æðardúnsvörum úr smiðju vöruhönnunarteymisins Erindreka á næstu vikum, dúnhúfum og -lúffum. Mynd/Marino Thorlacius
Samstarf við æðarbændurna á Skálanesi

Þær Íris Indriðadóttir og Signý Jónsdóttir eru í vöruhönnunarteyminu Erindrekar sem vinna að ýmsum verkefnum í hönnun og listum – og eru með vörulínu í undirbúningi ásamt Sigmundi Páli Freysteinssyni, fatahönnuði, þar sem æðardúnn frá Skálanesi í Seyðisfirði leikur lykilhlutverk.

„Við höfum síðastliðin sex ár verið viðloðnar æðarvarpið í Skálanesi í Seyðisfirði hjá æðarbændunum Sigrúnu Ólafsdóttur og Pétri Jónssyni.“ segir Íris. „Samband okkar við þau kom þannig til að við tókum þátt í verkefni árið 2019 sem hét Tilraun II – æðarrækt, þar var þverfaglegur hópur fólks kominn saman og hann svo settur á stefnumót með æðarbónda einhvers staðar á landinu. Þannig kynntumst við Skálanesi og því frábæra fólki sem sinnir þar æðarvarpinu. Við urðum svona góðir vinir og nú fyrir tveimur árum spurðu þau hvort við hefðum áhuga á að hjálpa þeim í þessu, og við sögðum heldur betur já við því konungsboði. Síðan höfum við sinnt æðarvarpinu með þeim Sigrúnu og Pétri hvert vor, en einnig úrvinnslu á æðardúninum sjálfum.“

Fullvinnsla á dúninum mikilvæg

„Við höfum mikinn áhuga á því að finna æðardúni á Íslandi enn frekara hlutverk. Við fengum til liðs við okkur fatahönnuðinn og textílsérfræðinginn Sigmund Pál Freysteinsson, en saman vinnum við nú að verkefni að koma æðardúni í flíkur. Nú fyrir jólin setjum við okkar fyrstu vörur á markað, í takmörkuðu upplagi til að kanna áhugann á þessum vörum á Íslandi. Um er að ræða húfur og lúffur. Efnin sem við veljum utan um dúninn eru 100 prósent bómullarefni sem eru vatns- og vindheld. Það kom ekki til greina að finna neitt nema góð og vottuð efni til að para saman við æðardúninn,“ útskýrir Signý.

Þær sjá fyrir sér að í komandi framtíð muni þær geta framleitt fleiri hluti eins og úlpur, vesti, trefla, buxur, pils, sjöl og fleira. „Það liggur í augum uppi að við hér á landi verðum að fullvinna æðardún þar sem við erum langstærstu framleiðendur á æðardúni á heimsvísu og sérfræðingar í að fullvinna dúninn. Við megum ekki glata þessum tækifærum og senda dúninn út án þess að fullvinna hann,“ bætir Signý við.

„Staðan er bara þannig að lúpínan er og verður hér á landi og við verðum bara að samþykkja það og vinna með henni, ekki á móti.“ Mynd / Signý Jónsdóttir

Annars flokks dún þarf að vera hægt að selja

Þær segjast einnig hafa verið að berjast fyrir því að fá lögum um gæðamat á æðardúni breytt þannig að dún sem ekki fær vottun sé löglegt að selja. „Við höfum verið að sýna fram á notagildi annars flokks æðardúns til að sanna það að það sé heldur betur hægt að nýta dún sem fær ekki vottun. En það sprettur út frá því að á Skálanesi erum við að glíma við lúpínu sem festist í dúninum og fær því ekki vottun sökum örfínna trefja lúpínunnar, en þetta er um einn þriðji af okkar uppskeru ár hvert sem við fáum ekki að selja.

Nú nýverið vorum við tilnefnd til Hönnunarverðlauna Íslands fyrir verkefnið „Annars flokks“ þar sem við sýndum fram á möguleikana sem í annars flokks æðardúninum felast,“ segir Íris.

Vinna með lúpínunni

Þær segja að skipaður dúnmatsmaður votti allan dún sem seldur sé hér á landi og til að hægt verði að selja annars flokks æðardún þurfi að breyta lögum. „Í raun eru lögin nokkuð góð og halda í gamlar hefðir sem er mikilvægt, en þó mætti að okkar mati aðeins betrumbæta þau með tilliti til þess að æðardúnn sem fær ekki fyrsta flokks vottun ætti að geta fengið vottun, bara ekki sem fyrsti flokkur heldur einhverja undirflokkun.

Til þess að hafa það alveg á hreinu þá erum við núna í þessu nýja verkefni að vinna aðeins með fyrsta flokks æðardún,“ segir Signý.

Spurðar að því hvort ekki megi einfaldlega uppræta lúpínuna á landinu, segja þær að þeirra afstaða sé frekar að vinna með náttúrunni og henni. „Staðan er bara þannig að lúpínan er og verður hér á landi og við verðum bara að samþykkja það og vinna með henni, ekki á móti. Þetta eru lúpínubreiður í hektaravís, það er enginn möguleiki á því að uppræta hana.

Nú, svo elskar æðarfuglinn að verpa á þessu svæði, þarna er gott skjól og skrjáfið í undirlendinu sendir boð um hættu. Svo er þetta heimsins besti felustaðurinn og ekki förum við að taka það frá kollunni og ungum hennar,“ segir Íris.

Til að fylgjast með næstu skrefum hjá teyminu er hægt að fylgja þeim á Instagram, undir nafninu studioerindrekar, eða á Facebook-síðunni Erindrekar.

Skylt efni: æðardúnn

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt